mánudagur, mars 31, 2003

Staðreynd eitt
Það kom enginn á tónleikana mína í gær. Skamm, þið misstuð af miklu!

Staðreynd tvö
Pjölluverðlaununum er breytt hér með. Undarlegustu kynnarnir eru að sjálfsögðu Ellý Einhversdóttir og Þorsteinn Bachman sem stóðu sig eins og mörgæs og heftari á kynningu söngkeppni framhaldskólanna 2003. Nýr flokkur, þreyttasti selebinn, hefur hafið göngu sína og hlýtur Birgitta Haukdal þann heiður með 120% atkvæða. Leyndir sigurvegarar sem áttu að vinna að mati allra annara en dómnefndar er einnig nýr flokkur og hljóta Andri og Skördí, ofursvala fólkið með meiru þann heiður.

Staðreynd þrjú
Hver ruslatunna heimilisins er yfirfull af snýtubréfum útötuðum í líkamsvessa. Ég hef eyttt heilum regnskógi í að snýta mér og mun planta trjám í sumar.

Staðreynd fjögur
Samkvæmt Braga á George Bush stóra kartöflu í staðin fyrir haus. Ég hef kannað málið og þetta er satt.

Staðreynd fimm
Sýning á myndinni Independence Day var afar óviðeigandi á laugardagskvöldið. Bandaríkjamenn eru hetjur og bjarga heiminum, forsetinn þeirra er ávallt góður, hugrakkur og heill maður (vondi kallinn er að sjálfsögðu varnarmálaráðherra). Af einhverjum ástæðum kom Írak þó nokkuð við sögu, þó að það kæmi söguþræðinum ekkert við. Fussum svei, ekki vissi ég að Bandaríkjamenn ættu hluta í RÚV.

Staðreynd sex
Einu sinni þjónaði ég fólki frá Varnarmálaráðuneyti Íslands. Það á víst ekki að vera til, það hef ég allavega haldið til þessa. Ég lenti í heiftarlegu rifrildi við Önnu Pálu og Yngva útaf þessu (rifrildið samanstóð af "Nei það er ekki til" "Víst" og endurtekningum). Þrátt fyrir að það sé ekki til þá komu nú samt 10-15 manns sem sögðust vera frá Varnarmálaráðuneyti Íslands og 10 Bandaríkjamenn af vellinum út að borða til mín. Þau drukku mikið og svo var reikningurinn sendur á Varnarmálaráðuneyti Íslands. Ég var nýfarin heim þegar reikningurinn var gerður upp og samstarfskona mín sá ekkert merkilegt við Varnarmálaráðuneyti Íslands og tók því ekki eftir heimilisfanginu. Ég er enn að leyta frekari sannana.

laugardagur, mars 29, 2003

Koff Koff

Allt fyrir ofan axlir er fyllt af sýklum. Ég er reyndar ekki með eyrnabólgu, en kvef, hálsbólgu og vírus í augunum. Mér finnst fólk sem vælir yfir veikindum leiðinlegt og ég er búin að finna allt það jákvæða í öllum sýklunum. Hér kemur það...

Ég hef ákveðið að gerast jazz-söngkona á meðan hálsbólgan stendur yfir. Röddin er ryðguð og rám og þessvegna ætla ég að halda tónleika á morgun í bílskúrnum kl. 9.00. Undirleikari minn mun verða Pólverjinn Jegsyg Ínef. Það mun einungis kosta ein pakka af snýtuklútum inn.

Vírusinn hefur ekkert gert nema gott. Ég þurfti að fara til læknis og heimilislæknirinn minn er í fríi svo í staðinn fékk ég tíma hjá öðrum. Hann var mjög mjög sætur og ég er viss um að í rauninni er hann bara í starfsþjálfun til þess að geta hafið leik í ER. Þegar ég kom heim þá uppdagaðist það að mamma hafði líka þurft að fara til hans einu sinni og við ákváðum að skipt yrði um heimilislækni strax (enda sá gamli leiðinlegur). Þegar við hugsuðum málið aðeins betur áttuðum við okkur á því að verkur í litla putta myndi enda í heimsókn á heilsugæslustöðina og sjúkraframlag heimilisins myndi rjúka upp úr öllu valdi. Þess vegna höldum við okkur við þann gamla.
Doktor Sætur gaf mér smyrsl til þess að bera í augun. Smyrslið gerir það að verkum að ég sé allt í draumkenndri móðu og líður mér þess vegna eins og ég sé í endurminningu í sápuóperu og hef ég ákveðið að hún fjallar um mig og sætan lækni sem unnumst mjög en þurfum að skilja vegna dramatískra atburða sem verða ekki útlistaðir hér.

Já ég vil minna alla á að senda SMS í síma 1911 með skilaboðunum DOM 10 þargar Skördí og Andri keppa. Svo er líka hægt að senda BEST 20. Þá er verið að kjósa fyrir bestu sviðsframkomuna...

Já eitt enn. Ég var að búa til nýjan kassa sem heitir Ekki daglegt. Í honum eru þeir sem blogga ekki daglega, eða örsjaldan, sem og aðrir sem eru verðugir linki. Í þessum tilfæringum týndi ég hægri línunni á daglega rúnts kassanum og auglýsi hér með eftir henni. Þið getið bara sett hana í tapað-fundið kassann.
Og nú er ég farin í bíó á franska gamansakamálamynd... stafsetningavillur verða lagaðar síðar
Sko

Ég er mjög gáfuð, það er bara tvennt í heiminum sem að ég skil ekki (fyrir utan flókna stærðfræði, eðlisfræði, efnafræði, líffræði og stríð).

1. Hvers vegna eru ekki rúðuþurrkur á hliðargluggum á bílum, afhverju bara að framan og aftan? Ég vil líka geta horft til hliðar þegar rignir og það rignir oft á Íslandi!
2. Mér finnst matur oft góður (ekki kjöt þó). En hverjum datt í hug að fara niður að sjó, veiða fisk, sem er ekki auðvelt og éta hann? Eða þá búa til brauð, mala korn og allt þetta? Fáránlegast er þó kaffi. Hvernig getur maður bara óvart brennt baunir, innan úr berjum, malað þær, látið heitt vatn renna í gegnum duftið og drukkið svo vökvann. Ég meina.. þetta er allt svo langsótt! Þetta er allt mjög eðlilegt í dag, en ef að við þekktum t.d. ekki kaffi og ég ætlaði að kynna ykkur fyrir þessari aðferð (segjum bara að ég hafi fundið hana upp) þá væri ég líklegast í viðtölum hjá einhverjum lækni.

Svo held ég að kötturinn minn sé kominn með alzheimer. Hann mjálmar, svo tveimur sekúndum seinna gleymir hann að hann var að mjálma.. og mjálmar þess vegna aftur. Svona gengur þetta allan dagin. I love my cat, en stundum get ég orðið alveg brjáluð.
Og vei! Dáðadrengir unnu Músíktilraunir. Mér finnst þeir kúl og þess vegna fá Músíktilraunir ekki Pjölluverðlaun næst þegar þau verða veitt.

miðvikudagur, mars 26, 2003

Sjaldan hef ég...
... verið jafn mjúk og í gær. Ég fór í rosasturtu og voru eftirfarandi efni öll brúkuð (sum tvisvar): facial oil, facial scrub, body scrub, sjampó, hárnæring, moisturizing shaving gel, mouisturizing body spray, facial mask, FireWalker og contidioning hair spray. Eftir allt þetta geta allir skilið hversvegna ég varð mjög mjúk og ilmandi, því konur ilma jú (eða eru það tenórar sem ilma?). Það er stundum svo mikið mál að vera kona (eða tenór).

Sjaldan hafa mér...
... þótt Þjóðverjar skemmtileg þjóð. Ég þekki þá allmarga og aðeins örfáir eru skemmtilegir. Í dag þætti mér þó mjög gaman að vera Þjóðverja, eða bara Frakki. Ég hugsa að ég væri skælbrosandi og það væri nú bara gaman. Þá þyrfti ég allavega ekki að skammast mín fyrir að vera Íslendingur. Nei lofið mér að umorða þetta. Þá þyrfti ég ekki að skammast mín fyrir þá ráðamenn hér í landi sem telja sig vera að tala fyrir hönd þjóðarinnar þegar Íraksmál, notkun Bandaríkjamanna á íslenska flugvellinum og meðbyr í stríði ber á góma.
Já og ég heyrði í Mikael Torfasyni í Zombie í gærmorgun. Hann skýrði frá því að Ísland hefði aldrei verið nefnt í dönskum fjölmiðlum og þeir sem brenndu íslenska fánann héldu örugglega að þeir væru að brenna þann breska. Þetta þykir mér gáfuleg athugasemd og örugglega rétt hjá honum.

Sjaldan hafa...
... tvær færslur átt jafn illa saman. Og sjaldan hefur kommennt kerfið mitt legið undir svo miklu álagi!

sunnudagur, mars 23, 2003

Sérdeilis prýðilegt

En sú gleði! Eftir að hafa legið í bókum og ritgerðarskrifum var sálartetrið glatt með kórárshátíð. Þar var mikið borðað, drukkið og hlegið. Ungir menn kysstu hendur og kinnar ungra kvenna þeim báðum til ánægju og yndisauka. Mörg danskort voru fyllt og stundum slógust konur um dansherra. Guðrún Lára kleif frægðarstigann með sínu danskorti (sem mátti húka á milli brjósta stúlkunnar allt kvöldið) fegurðardrottningar, leikkonur og útvarpskonur rituðu nafn sitt á hennar danskort og er það nú í innrömmun Hjá Hirti. Skúli eldri og Marta yngri sýndu áhættuatriði á heimsmælikvarða (og í atriðinu sýndi Marta líka eilítið af undirbrókunum). Nokkrar eldri dömur rökræddu um hver væri fríðasti nýnemi skólans um þessar mundir, ekki náðist sameiginleg ákvörðun. Svo var skundað í leigubíl til Skúla eldri. Þar komumst við að því að Mummi er með stærri haus en flestir, ef miðað er við stúdentshúfu piltsins. Einnig fundum við málverk í eldhúsinu af tveimur reiðum kínverjum, Elvis Presley og húsi. Kalli ákvað, stuttu eftir að hafa skyrpt kveikjaranum sínum út í runna, að halda skildi uppboð á þeim hlutum sem geymdir hefðu verið á milli brjóstanna á Guðrúnu Láru. Hún sýnir það og sannar að það sparar pening fyrir okkur sem eru brjóstgóðar (eða brjóstgóðir) að vera brjóstgóðar (eða brjóstgóðir) því að við þurfum ekki að kaupa okkur veski. Eftir að hafa stórslasað Viggu með kókflösku (ekkert gott kemur frá Bandaríkjunum!) og lent í samræðum við Skúla eldri um eitthvað sem ég man ekki (Skúlafur sonur var ekki viðræðuhæfur sökum vökva sem hann hafði innbyrgt fyrr um kvöldið) héldum við Karól heim á leið. Sálartetrið var svo sannarlega hamingjusamt!

þriðjudagur, mars 18, 2003

Vissir þú að...

... árið 1991 varpaði Bandaríski herinn 80.000 tonnum af sprengjum á Írak? Það jafnast á við 7 sprengjur sem varpað var á Hiroshima.
... síðustu ár hefur ekki liðið mánuður þar sem Bandaríkjamenn og Bretar varpa ekki sprengjum á Írak? Sprengjur sem innihalda sneytt úran?
... af völdum sneydda úransins hafa Írakar og Bandarískir hermenn, sem komist hafa í tæri við það, eignast hræðilega vansköpuð börn, sem í sumum tilfellum hafa verið svo vansköpuð að þeim hefur ekki verið kleift að lifa?
... talið er að 1,7 milljónir manna hafi látist í beinum afleiðingum af viðskiptabanninu í Írak, þar af 60% börn? Fólk hrynur niður úr hungri og sjúkdómum sem til eru lækningar við, en engin lyf fást í landinu út af viðskiptabanninu.
... tíðni krabbameina meðal barna í Írak er ein sú hæsta í öllum heiminum?
... sú upphæð sem Bush jók, ég endurtek, JÓK til hernaðar í Bandaríkjunum jafngilti þeirri upphæð sem að Sameinuðu Þjóðirnar birtu í nýlegri skýrslu um hversu mikla fjárhæð þyrfti til þess að eyða öllu hungri í heiminum?
... árið 1998 höfðu Írakar uppfylt 97% af kröfum Bandaríkjamanna? Þrátt fyrir það afléttu þeir ekki viðskiptabanninu.
... til þess að komast til Írak þarf hluti af bandaríska hernum að fara yfir eyðimörk þar sem 5. hver hermaður getur átt á hættu að deyja vegna vatskorts, hita og salttaps?

Ég er ekki að taka afstöðu Saddams enda er ekki hægt að hafa neitt gott um þann mann að segja, né þá Bush, en í Írak þjáist saklaust fólk vegna fullorðinna manna sem láta eins og 6 ára börn á róluvelli.

mánudagur, mars 17, 2003

Í gær...
... var ég á kóramóti upp í skóla. Þarna voru saman komnir kórar frá öllum helstu menntaskólum landsins. Kórinn í Flensborg og kór FÁ voru mjög góðir. Það var gaman

í dag...
... er ég lasin eins og á föstudaginn. Lasleikinn einkennist minnst af hita og kvefi og mest af stanslausum bréfaskiptum við kennara til þess að leysa hin og þessi vandamál sem þessi veikindi hafa skapað.
Já og ekki kaupa neitt af vinstrihlið (ef þú horfir á það þegar þú kemur inn) ávaxtaborðins í Hagkaup á Seltjarnarnesi. Ég hnerraði allrækilega yfir þá hlið í dag.

á morgun...
...vona ég að ég verði ekki veik lengur því að ég verð að fara á mikilvægan sópranafund. Þar á að skipuleggja magnaðasta árshátíðaratriði sóprana.. allavega frá því að ég byrjaði í kórnum, og þá er nú ekkert rosalega mikið sem þarf að toppa! (Mummi og Björg, þið turtildúfurnar verðið bara að gráta á hvors annars öxl yfir að missa af þessu!)

Núna...
... ætla ég að fara að borða þjóðarrétt okkar íslendinga, fisk og vatn. Ef tími gefst þá mun ég segja ykkur sögu af falli sölumannsins á horninu hér í hverfinu en bráðum munu Nesbúar efla til eggjakasts á sjoppuna (mér þykir líklegt að þeir byrji á sólpallinum hjá mér því þar er svo gott kastfæri í húsið við hliðiná. Þar á höfundur Júróvisjónlagsins heima. Ef að svo fer ekki þá mun ég halda Júróvisjónpartý og gefa öllum bakka af eggjum við innkomu).

föstudagur, mars 14, 2003

Breska drottningin misst klæðskerann sinn, Sir Hardy Aimes, um dagin. Í Birtu, nýju tímariti frá Fréttablaðinu, var skýrt frá því að yfirlýsing hefði komið frá Buckingham Palace og var brot úr henni þýtt á þessa leið: "Drottninginn er afar sorgmædd að heyra af dauða Sir Hardy Aimes. Hann klæddi hana um áratugaskeið og er hún skiljanlega sorgmædd yfir dauða hans".
Er hún sorgmædd vegna þess að nú þarf hún að finna sér nýjan klæðskera eða vegna þess að hún kann ekki klæða sig sjálf? (Eða er þetta bara svona illa orðað?)

miðvikudagur, mars 12, 2003

Ég kýs Völu frú Skaramúss 2003 og Jakob herra Skaramúss 2003.

Og þá er ég aftur farin að læra..

sunnudagur, mars 09, 2003

Raunveruleikinn færist fjær..

Ég er búin að læra eins og ég eigi lífið að leysa síðustu daga. 26 klukkutíma frá fimmtudegi til föstudags og síðan alveg helling í gær og nótt. Og nú liggja 3.993 orð um Grimmsævintýrin og íslensk ævintýri á nokkrum blöðum á eldhúsborðinu. Samt er ég ekki enn sofandi. Ég ákvað frekar að fara að baka amerískar pönnukökur.
Nú er ég ekkert lélegur kokkur, þó engin listakokkur líkt og móðir mín, eins og áður hefur komið fram. En ég er m.a.s. heimsþekkt fyrir lasagnað mitt sem þykir alveg hreint afbragð. Svo mikið afbragð að Barilla hefur uppskriftina mína aftan á pakkanum með lasagnaplötunum!
Jæja nóg um það, ég hefst handa við að búa til amerískt pönnukökudeig. Eitt egg, dass af lyftidufti, dass af salti o.s.frv. (of þreytt til þess að mæla þetta alveg nákvælmega). En ég finn hvergi pönnukökupönnurnar (magnað orð!). Ég trúi því ekki að foreldrar mínir hafi ákveðið að taka pönnurnar með í heimsókn til sýslumannsins á Dalvík, hún hlýtur sjálf að eiga pönnur! Og okkar eru alveg forljótar í þokkabót! Fjandinn hafi það, þá þarf ég bara að taka lélegu pönnuna, það er ekki einu sinni hægt að steikja egg á henni! En ég hefst handa full af bjartsýni. Fyrsta pönnukakan, hún er alltaf ljót.. önnur pönnukakan, hún er líka alltaf ljót... þriðja pönnukakan, bíddu á hún ekki að vera ögn fríðari? Á pönnu er búin að myndast brúnn vökvi sem áður bar nafnið smjör. Sjöunda pönnukakan, ég er byrjuð að blóta þessari bresku Carol McLain sem flutti til Flórída og sendi systur sinni uppskrift að amerískum pönnukökum sem að ég fann svo á netinu. Mér væri alveg nokkuð sama ef að þær væru, ljótar og góðar, fallegar og vondar eða fallegar og góðar. En ljótar og vondar? Svo að ég gefst upp. Í staðinn er hér uppskrift að gómsætum og MJÖG auðveldum rétti (upphaflega frá Sillu en þó breytt lítillega)

Hreint natsjó - tvö til þrjú handfylli sett á disk. Meira ef vill
Niðurskorinn ostur - dreift yfir natsjóið. Má vera í sneiðum eða bara eins og hver vill
Hitað í örbylgju í 40 sekúndur. Étið.

Góða nótt/morgun
Yfirlesturinn er greinilega farin að segja til sín

fimmtudagur, mars 06, 2003

Færslur í dag verða tvær talsins. Sú fyrri fjallar um...

.. það sem er lífsnauðsynlegt að hafa við hendina þegar mikið er lært

Kaffi
Ég vil koma fram þökkum mínum til geitahirðisins í Afríku sem uppdagaði ágæti og notkun þessara bauna. Kaffi er lærdómselixír og segja fróðir menn að bestu verkefnin séu unnin undir áhrifum þessa undursamlega drykks. Megi Guð, Buddha, Allah og Lárus rektor blessa hann og varðveita
Kaffi
Ég vil koma fram þökkum mínum til geitahirðisins í Afríku sem uppdagaðu ágæti og notkun þessara bauna. Kaffi er lærdómselixír og segja fróðir menn að bestu verkefnin séu unnin undir áhrifum þessa undursamlega drykks. Megi guð, Buddha, Allah og Lárus rektor blessa hann og varðveita
Nammi
Sykur er hollur fyrir heilann, allavega í mínu tilfelli
Semigóða tónlist
Ef að hún er of skemmtileg getur maður átt það á hættu að missa einbeitinguna og fara að hlusta á hana í staðin fyrir að láta hana líða inn og út um hausinn
Kaffi
Ég vil koma fram þökkum mínum til geitahirðisins í Afríku sem uppdagaðu ágæti og notkun þessara bauna. Kaffi er lærdómselixír og segja fróðir menn að bestu verkefnin séu unnin undir áhrifum þessa undursamlega drykks. Megi guð, Buddha, Allah og Lárus rektor blessa hann og varðveita

Svo er víst líka ágætt að hafa bækur, skrifblokk og þess háttar hluti nálæga


Sú seinni er heitir einfaldlega..

Mummi og Björg

Hjá mér hefur vaknað grunur.. gæti verið að ástir hafi kviknað í gegnum veraldarvefinn? Er hugsanlegt að tvær íslenskar sálir, hvorugar á ísa köldu landi, hafi fundið frið og hamingju hjá hvor annari? Er Mummi ekki rúmliggjandi (hér sófaliggjandi) af alvarlegum veikindum, heldur er það raunverulega ástin sem náð hefur tökum á drengnum? Hvað veit ég svosem?
Ef við lítum á staðreyndirnar má sjá að þegar heimasíða Bjargar (sem hér er vinstra megin á myndinni) er skoðuð niður í kilinn er augljóst að Mummi (sem gæti verið veikur á þessari mynd) er nefndur ansi oft á nafn. Ekki tekur betra við þegar gestabókin er skoðuð. Það er ekki laust við að ástarblæ bregði fyrir í skriftum þeirra. Þau flytja saman ljóð og það eina sem vantar við "Velkomin heim" er "ljúfasta rósin mín". Er ég sú eina sem hef komið auga á þetta? Er veröldin blind á hamingju og yndisleika? Vaknið og finnið ilminn af vorinu!



P.S. Til að fyrirbyggja misskilning þá er þetta einungis vangavelta hjá mér, engar heimildir eru fyrir sambandi þeirra tveggja og er þetta aðallega gert til þess að koma þessum yndislegu myndum af Mumma á framfæri. Mummi minn, láttu ér batna og þér er velkomið að ganga í skrokk á mér við tækifæri, ef hugur þinn segir svo


mánudagur, mars 03, 2003

Ja hérna!

Ef það er barasta ekki komið sumar. Sólin skín á grund sem grænkar smátt og smátt, börn í snú snú, fugl skríkir af gleði, fólk á mínum aldri í boltaleik, karlmenn farnir að sína fagurmótaða upphandleggsvöðva og Steini heldur því fram að jafnvel Esjan sjálf hafi dregið fram sumarkjólinn. Núna hlæja litlu börnin sem eru að leika sér í garðinum hjá mér. En hvað þetta er yndislegt.

Og ég sit inni og þarf að lesa 8 bækur um Jón Árnason, ævintýri og kynjahlutverk. Sólin hlýtur að skína seinna..

laugardagur, mars 01, 2003

Ég mæli með...

... bókamarkaðnum í Smáralind. Hann lokar reyndar á morgun en það er hægt að gera kjarakaup og ganga aftur í barndóm. Ég varð að halda aftur af mér til þess að kaupa ekki allar bækurnar sem að ég las þega ég var 6 ára. En ég keypti...
    ... risabók um VW bjölluna
    ... bók frá 1978 sem heitir "Listin að líta vel út". Í bókinni eru fæðingarblettir kallaðir lýti, mælt er með brjósta-, rass- og magaaðgerðum og konum sagt að nota ilmvötn sem lykta eins og leður.. mmm!
    ... tvo árganga af Gög & Gokke, 1981 og 1982. Framan á hverju blaði stendur: "Verð kr. 20.00"
    ... 20 blönduð teiknimyndablöð í pakka, þ.á.m. Alf, umhverfis jörðina á 80 stundum og ævintýri Robins þar sem hann glímir aleinn við Catwoman. Hey og sjáðið hvað lærin á Catwoman eru eðlileg!
Tiltekt

Ég er búin að eyða kvöldinu í að skúra síðuna mína hátt og lágt, endurraða í hillur og flytja allt til og frá. Og er hún ekki fín? Í augum html lúðans er þetta stórvirki! Hildigunnur, ég er reiðubúinn að taka við 2 sleikjóum og blöðru sem á stendur 2 ára í staðinn fyrir að laga linkasafnið, setja komment á og allt þetta sem html lúði getur gert einn!
Annars lækkaði álitið á síðunni svolítið þegar ég sá þetta. Ekki tók betra við þegar ég rakst á þetta, þetta og þetta.
Ég er nokkuð sorgleg. Ég ætlaði að læra í kvöld þar sem ég er með nýja español stefnu; horfa á eina spænska mynd í viku. En í þessari viku fann ég enga sem að ég var ekki búin að sjá. Þær sem eru til á vídjói eru Abre Los Ojos, Todo Sobre Mi Madre og Kryddleginn hjörtu. Auðvitað eru til fleiri en ég nennti ekki að leita (Y tú mama también og Hable con ella eru ekki komnar út). Þess vegna sit ég heima í tölvunni á föstudagskvöldi, flöskudagskvöldi!

Jæja, ég er farin að sofa.. læri á morgunn á laugardegi, þynnkudegi!