föstudagur, desember 26, 2003

Gleðileg jól

Og jafnvel fyrir þá sem vilja, gleðileg brasilísk jól.

Ég fann flugmiðann minn svo að ég kemst til útlanda á sunnudaginn. Byrja að pakka bráðum.

Aftur óska ég lesendum um land allt gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári (Svona til þess að hafa þetta nú sem formlegast).

miðvikudagur, desember 24, 2003

Af jólahlaðborðum

Þau eru búin í bili. Og skötuhlaðborðin líka. Og skata er ógeðsleg eins og áður hefur komið fram. Hápunktar vinnudagsins voru þrír. Eitthvað verður að lífga upp á tilveruna.

a) Litla barnið (rúmlega eins árs) í Burberry snjógallanum. Ég hélt að ég yrði ekki eldri.

b) Litlu strákarnir sem ætluðu að vera kúl og kaupa sér bjór. Ég bað um skilríki og annar þeirra dró upp debetkort frá bekkarfélaga mínum til sjö ára. Mér leið allt í einu eins og dyraverði.

c) "Mamma, var þessi búð til eftir að ég var lifandi"
"Þú ert lifandi núna ætla ég að vona"
"En mamma, er Istanbúl ekki á Ítalíu?"
"Nei, fyrir hvað fékkst þú eiginlega 9 í landafræði?"

Jólagjafirnar bíða eftir að komast í pappír. Jólakveðjan kemur á morgun. Góða nótt

laugardagur, desember 20, 2003

Í gær fékk ég formlega hvíta húfu á hausinn. Vei! Lalli rektor sagði "Til hamingju Ragnheiður mín" og það vakti mikla lukku. Og Jón Hannesson var of seinn til þess að vera almennilegur maður. Það var fyndið.

Annars er lífið bara dásamlegt. Allir eru góðir og ég á iPod. Hann er svo fallegur að ég gæti grátið. Og bestir í heimi eru Andrarnir tveir og Steini. Fallega fallega líf eins og Skördí segir.

miðvikudagur, desember 17, 2003

Stundum trúi ég því að ég sé heimsins besti lygari. Svo man ég að ég er að ljúga að sjálfri mér.

Annars var ég að enda við að bjóða svona 50 manns í "stúndentsveisluna" mína. Í stressinu gleymdi ég að lesa yfir fyrirsögnina. Mér finnst þetta bara fyndið!

þriðjudagur, desember 16, 2003

Afskiptaleysi og kaldhæðni

Þar sem við gengnum tvær eftir skóla á leið í kvöldkaffi og ræddum um jólagjafir og komandi verkefni mættu okkur fleiri rónar en venjulega. Og þegar við beygðum inn Pósthússtrætið komu þrír gangandi á móti okkur og innan skamms voru tveir þeirra farnir að berja þann þriðja. Fólkið sem sat inni á Kaffi París horfði á út um gluggann og fylgdist með og hélt svo áfram að ræða um hvaða jólagjafir það átti eftir að kaupa. Svo virtist vera sem að okkur hefði einum dottið í hug að hringja á lögregluna. Það tók þrjár til fjórar mínútur að fá samband í gegnum 112, það tók alls sex hringingar þar til lögreglan svaraði og þá tók hana fimm mínútur að skilja að við þekktum mennina ekki neitt heldur vildum bara tilkynna að verið væri að berja mann í Pósthússtrætinu fyrir utan Apótekið. Þá var þriðji maðurinn orðinn alblóðugur og lá í götunni þar sem hinir tveir stóðu yfir honum og spörkuðu ákaft í andlitið á honum og maga. Tíu mínútum seinna kom lögreglan. Þá höfðu þessir tveir fengið útrás sinni fullnægt og voru horfnir á braut. Sá þriðji hafði staulast burt út í myrkrið á Austurvelli, haltrandi og blóðugur. Stéttin og húsið voru útötuð í blóði og fólk fór hinu megin við götuna til þess að skíta ekki út jólaskónna. Það var nú aldeilis gott að það var rigning svo að blóðið skolaðist burt og enginn rann á rassinn í blóðpollunum, svona mitt í jólastressinu!

mánudagur, desember 15, 2003

Gyllynæð og geðklofi

Við vorum að ræða það í vinnunni hvaða sjúkdómar eru algengastir hjá þjónum. Samkvæmt okkar sjúkdómsgreiningu eru þjónar líklegir til þess að fá gyllinæð (þeir standa nánast allan daginn) eða verða alkahólistar (það er nú örugglega sannað nú þegar að þjónar og kokkar eru upp til hópa alkahólistar). En þjónar eru þó líklegastir til þess að þjást af geðklofa. Starfið ýtir einfaldlega undir að geðklofi byrji smátt og smátt að þróast. Tökum dæmi, skástrikaði textinn er hugsun þjónsins við afgreiðslu.

Þjóninn: Jæja, hver vill smakka rauðvínið?
Feiti ljóti kallinn: Auðvitað ég, konan mín drekkur ekki
Þjóninn: Gjörðu svo vel. Hvernig átti ég að vita það fíflið þitt?
Feiti ljóti kallinn: Oj bara, þetta er versta vín sem ég hef smakkað
Þjóninn: Nú? Þú átt bara að athuga hvort að það sé skemmt asninn þinn, þú ert búinn að panta flöskuna. Finnst þér það skemmt á bragðið? Ég lyktaði af því frammi og það er ekki ónýtt. Ég er fjórfaldur íslandsmeistari barþjóna takk fyrir. Djöfull geturðu verið heimskur
Feiti ljóti kallinn: Það er örugglega skemmt, það er bara ógeðslegt
Þjóninn: Nú, ég afsaka innilega, mér er svo skítsama. Ég skal bara koma með nýja flösku. Djöfull ætla ég að umhella húsvíninu í flöskuna svo að þú þurfir að borga þúsundkalli meira fyrir vínið sem er ekki skemmt

Nú og svona lætur maður líka þegar vaðið er yfir mann. Annars er þetta nú ansi ýkt dæmi og svona er eingöngu látið á slæmum kvöldum. En þrátt fyrir það eru mörg svona keis á hverjum degi. Enda eru Íslendingar ákfalega dónalegir. Og þá er ég búin að koma því frá mér í þrjúhundruðasta skiptið.

Snillingar þrjú
Elsku Ska og Sko, snillingarnir í Frakklandi. Áðan þegar ég las síðuna þeirra þá fann ég hvað ég saknaði þeirra bara voðalega mikið og langaði mest af öllu að hlaupa á Ölstofuna og fá mér einn öllara með þeim eins og í sumar. Æ þær eru alveg, þessar stelpur.

Góða nótt (eða Bon nuit eins og ég held að maður segi í France)

sunnudagur, desember 14, 2003

Ég held að ég sé komin með einhverja veiki í hendurnar. Svona "hella niður, brjóta eitthvað hendi". Kannski hafa þær bara öðlast sjálfstæðan vilja og leika sér að því að gera mig vandræðalega með því að brjóta eitthvað "óvart" eða hella einhverju "óvart" niður. Allavega hef ég sjaldan hellt jafn miklu niður og brotið jafn mikið á jafn stuttum tíma.

Ég var að skoða geisladiskana sem Lækjarbrekka á og eru stundum í spilun. Þar mátti meðal annars finna:

The most requested Love sings of '93
The synthesizers moods ásamt fleiri diskum úr þessari seríu, t.d.
The piano moods, The guitar moods, The pan pipe moods og er enginn þeirra spilaður á hljóðfærið sjálft heldur hljóðgervil
The twilight orchestra plays Phil Colins
The twilight orchestra plays Whitney Huston
Kenny G

Ég veit ekki um ykkur en mér fannst þetta ekki alveg málið

fimmtudagur, desember 11, 2003

Mig langar rosalega til þess að vera í hljómsveit. Helst rokkhljómsveit. Mig langar líka til þess að vera í svona 3-5 manna píkupopphljómsveit sem dansar samhæfða dansa í næstum því eins fötum (ég og Steini ræddum einu sinni um stofnun slíkrar hljómsveitar en ekkert varð af því). Svo langar mig líka að syngja í bigbandi og djazz með lítilli hljómsveit. Og mig langar að vera í svona 12 radda acapella raddsveit sem flytur allskonar hittara. En mest samt í rokkhjómsveit.

Ef ég réði öllu...
... þá væri ég í rokkhljómsveit, bigbandi, lítilri djazzsveit, stórri acapella sveit og píkupoppshljómsveit.

Og svo langar mig að starta nýjum lið. Mér finnst fastir liðir mjög skemmtilegir, hef t.d mjög gaman að beygingarmynd dagsins hjá Unu sem og fávísa útlendingnum hjá Steinari. Þegar mér finnst tilefni til þá ætla ég að útnefna Snillinga. Hefst nú útnefning.

Snillingur eitt
Nafna mín Gröndal. Ég var að kaupa diskinn hennar og hún er bara alger snillingur. Ég fer næstum því að gráta af hrifningu í hvert skipti sem ég hlusta. Þetta er bara eitthvað óeðlilegt.

Snillingur tvö
Jakob sem er einlægasti strákur í heimi. Ég hugsa stundum í alvöru að hann sé með of stórt hjarta. Ef ég mætti ráða myndi ég minnka hann og geyma hann í vasanum mínum og ef ég væri leið þá myndi ég taka hann upp og þá færi ég að brosa.

(Snillingar er bara vinnuheiti þar til að ég finn endanlegt nafn á þennan lið)

Góða nótt

þriðjudagur, desember 09, 2003

Ætli karlmenn væru fallegri yfir höfuð ef það viðgengist að þeir notuðu maskara?

mánudagur, desember 08, 2003

Ruglumbull í draumalandi

Í nótt dreymdi mig að nýji ríkistjóri Kaliforníu, Arnold Schwarzenegger, væri úti að borða hjá mér. Af einhverjum ástæðum þvertók ég fyrir að þjóna honum en var neydd til þess að yfirþjóninum. Svo kveikti ég óvart í honum þegar ég opnaði rauðvínsflösku sem var ónýt. Og þegar ég náði í nýja þá skaust korktappinn í augað á honum. Samt tipsaði hann mig geðveikt mikið. Þá vaknaði ég.
Að gefnu tilefni langar mig að birta hér blogg sem að ég birti fyrir einu ári og einum degi síðan. Þetta blogg er einmitt svona smá sýnishorn af bókinni sem ég er að skrifi sem ber vinnutitlana "Listin að vera góður viðskiptavinur" og "Dining Out For Dummies".

10 reglur þegar borðað er í hlaðborði

1. Það á alltaf að vera til nóg af mat þannig að enginn þarf að örvænta að koma síðastur og þá verði allt búið. Þetta kerfi kallast áfyllingar.
2. Það á ekki, ég endurtek, alls ekki að fara aftur að borðinu fyrr en allir hafa farið einu sinni. Þetta kerfi kallast kurteisi. Einnig er ekki ráðlagt að allir fari í einu. Séu t.d. 78 manns saman í jólahlaðborði þá þýðir það einfaldlega að fólk bíður í langri röð í langan tíma. Best er að 5-7 manns séu við hlaðborðið hverju sinni.
3. Ef það er súpa í boði þá er hún nær alltaf til þess að borða fyrst, ekki síðast á eftir öllu.
4. Það er nóg að taka 2-3 tegundir á diskinn í hvert skipti en ekki graflax, nautatungu, kalkún, rauðvínssósu, eplaköku, rúgbrauð, súpu, skinku, grænar baunir, síld, grjónagraut, kartöflusalat, brauð, andalundir, berneisósu, hreindýrakjöt, purusteik, vanillusósu og ost og hræra öllu saman. Í hlaðborði er ætlast til þess að fólk sé á stöðugu rápi fram og til baka úr hlaðborðinu í þó nokkurn tíma.
5. Ef að búið er að klára allan mat á disknum og þess er óskað að diskurinn sér fjarlægður þá er tvennt hægt að gera í stöðunni:
a) Láta hnífapörin vísa á kl. 3
b) Leggja hnífapörin á servéttuna
Hins vegar skal taka fram að það er ekki bráðnausynlegt að fá sér nýjan disk. Hafi t.d. eitt laufabrauð verið snætt af disknum þá má nota hann aftur.
6. Ef tvenn sett af hnífapörum eru þegar lögð á borðið skal muna að taka hnífapörin af disknum ef aðeins eitt sett er eftir og áframhaldandi át er á dagskrá. Hinsvegar er sjálfsagt að útvega ný hnífapör er hinn notuðu eru kámug og ógeðsleg.
7. Sé önnur ferð áætluð í hlaðborðið og diskurinn hefur enn ekki verið fjarlægður þá á að vera nóg að standa upp frá borðinu. Það er ekki æskilegt að taka diskinn með og leita þjóninn uppi til þess að afhenda honum óhreina diskinn. Það er þó enginn regla sem segir að diskurinn skuli aðeins notast einu sinni.
8. Öllum ber að njóta þess að borða góðan mat. Það á því helst að borða hann hægt og rólega en ekki skófla öllu í sig með skeiðinni sem fylgdi súpuskálinni.
9. Öllum ber að njóta þess að drekka gott borðvín. Borðvín er kallað borðvín vegna þess að það er til þess að skola niður mat og gefa annað og öðruvísi eftirbragð, örva bragðlaukana til þess að njóta matarins betur. Borðvín á því ekki að svolgra af stút um leið og flaskan kemur á borðið. Borðvín er ekki landi. Þetta virðist vera algengur miskilningur hérlendis
10. Ávallt skal sýna þjóninum mikla virðingu. Hann er viðkvæm sál. Í langflestum tilfellum má rekja dónalega og leiðinlega þjónstu til þess að viðskiptavinurinn er dónalegur og leiðinlegur.

Takk fyrir.

laugardagur, desember 06, 2003

Ég geri eins og Atli Bollason og mæli með pólitíska áttavitanum. Hins vegar kann ég ekki að birta myndina af áttavitanum sjálfum en hún var nú ekkert ólík Atla mynd. Ég er s.s.

Economic Left/Right: -5.62
Libertarian/Authoritarian: -4.31


Já já, gaman að þessu. Annars er lífið bara þó nokkuð gott þessa dagana.

fimmtudagur, desember 04, 2003

Af hinu og þessu

Ég bjó til nýyrði um daginn. Það er eiginlega ekki nýyrði heldur frekar hugtak eða orðasamband. Að vera gargandi fullur þýðir að vera í því áfengisástandi að öskra allt sem maður segir. Þetta er heldur leiðigjarnt ástand.
Þetta er tileinkað Sillu og Korku og samræðum okkar síðasta föstudagskvöld á Dillon

Á meðan Anna át Boxy strokleðrið sitt át ég ónýtt jógúrt. Uppúr sex eða sjö á miðvikudagsmorguninn vaknaði ég ákaflega svöng og ákvað að fá mér jógúrt til að geta sofið meira. Ég var svo þreytt að ég nennti ekki að opna augun almennilega. Ég gerði það reyndar þegar ég hafi tekið fyrstu skeiðina af jógúrtinu, ónýta jógúrtinu. Og ég glaðvaknaði og svaf ekki mikið meira, skiljanlega.

Bless, farin að framkalla og stækka subbumyndir af Elínu og Atla. Þær verða skondnar.

miðvikudagur, desember 03, 2003

Mamma mín

Um daginn þurfti mamma mín að hringja í móður eins nemanda síns. Ekki veit ég hvert erindið var né hvað móðirin eða sonurinn/nemandinn hétu. Köllum þau bara Rósu og Gunnar. Samtalið byrjaði víst á þessa leið:

Mamma mín: "Sæl Rósa, ég heiti Steinunn og er mamma hans Gunnars"
Rósa: "Já, komdu sæl"

Þessi (freudísku?) mismæli uppgötuðust ekki fyrr en mamma (mín þá) var búin að leggja á og samkennari hennar benti henni þá þetta. Eitthvað fær mig um að efast um að Rósa hafi í alvöru verið að hlusta.

mánudagur, desember 01, 2003

Internetið stækkar

Ég bætti við nýjum sem og gömlum bloggurum á linkalistann. Þeir eru allir úr MH og fá smá umsögn í tilefni dagsins (fyrir þá sem ekki vita þá er mánudagur)

Í Hall of Fame fara:
- Níels Garlakall sem er í Rússlandi og á eitt skemmtilegast blogg í heimi. Ég fer alltaf að hlægja þegar ég les það. Gaman gaman
- Steini Tík sem er uppáhalds skáldið mitt. Hann hefur reyndar ekki gefið út bók en hann samdi t.d. einu sinni ljóð um fluguna sem dó og hitti Guð. Meira gaman gaman!

Í Gott blogg fara:
- Edda Kentish sem er orðheppin ung hnáta sem dansar mikið á milli þess sem hún málar auglýsingar
- Halldóra fiðlustelpa sem er af Nesinu. Við spiluðum saman á fiðlu í mörg ár og ég man helst eftir því þegar ég hjólaði heiman frá henni, um 6 ára aldurinn, á bleiku þríhjóli sem var allt of lítið fyrir mig.
- Inga Rolla sem er skáti með mikið krullað hár og spilar á gítar. Það lýsir henni best
- Orri gítarstrákur sem er merkilegur maður. Einu sinni klippti ég á honum hárið og honum fannst það svo ljótt að hann fór aftur í klippingu hjá alvöru klippikonu.
- Þura Pura sem er í einhverju flóknu námi í Háskólanum. Ég á sönnun á því að hún gæti verið lifandi eftirmynd Gretu Garbo ef rétt er horft á hana.

Megi bloggið ykkar lifa vel og lengi!
Tími fyrir meira mas

Um helgina reyndi ég með erfiði að rifja upp restina af vísunni "Grýla píla". Það tókst að lokum en nú get ég ómögulega munað hvernig leikurinn við vísuna er. Er einhver sem man?

Annars heyrði ég skondna sögu um helgina. Vouge var að taka myndir hér í sumar uppi á jökli og ljósmyndarinn og stílistinn (báðir ákaflega miklar hommsur) voru klæddir í nýjustu tísku (lesist: voru illa klæddir fyrir íslenskt veður). Þeir héldu sig víst inni í bíl alla tökuna, með miðstöðina í fullt og gáfu skipanir í gegnum ofurlitla rifu á glugganum. Skipanir stílistans voru á þessa leið: "Darling, the less you wear the more I care" sem og "The higher heel, the better I feel"

P.S. Fyrir þá sem ekki muna
"Grýla píla, appelsína/skítafýla
missti skóinn, ofaní sjóinn
þegar hann koma að landi, var skórinn fullur af sandi/hlandi
vaknaðu Grýla píla, appelsína/skítafýla"