þriðjudagur, desember 31, 2002

Áramótaheiti

Ég er búin að ákveða að ég ætla bara að borða melónur, mangó, ferskjur, jarðaber og fleiri góða ávexti það sem eftir er, það er áramótaheitið mitt. Ég var nefnilega að skera niður í ávaxtasalat og a.m.k. helmingurinn fór upp í mig en ekki ofaní skálina. Svo að ég ætla að flytja til Brasilíu á næsta ári með ískápinn minn til að verða ávaxtabóndakona. Ef einhver vill koma með þá er það alveg velkomið.. sá hinn sami verður bara að taka þátt í mínum flugkostnaði og uppihaldskostnaði, ég er nefnilega blönk. En ég get bætt upp fyrir það vegna þess að ég á nokkra vini í Brasilíu og þau voru búin að lofa að ef ég kæmi þá myndu þau fara með mig á svona strendur og á Kjötkveðjuhátíðina í Rio. Þannig að ef einhver hefur áhuga þá er ég bara byrjuð að pakka, þangað til...

Gleðilegt nýtt ár!
Bloggipása

Amm.. jólin eru góð. Ég er búin að sofa fyrir restina af árinu og leika mér mikið mikið í tölvunni. Einnig gaf hljómsveitin mín út sinn fyrsta disk. Amm.. ég er í hljómsveit og hún heitir Ladan úr Brúnadal. Hana skipa Halli, ég og Halla. Við vorum að gefa út nýjasta diskinn okkar Át amma tÁ á laugardaginn, en þá var einmitt fifties/afmælis/jólapartý hjá Jóhönnu og Árna fyrir leiklistina. Það var voðalega gaman.. og nú er voðalega gaman að við erum byrjuð að æfa leikritið á fullu. Við erum s.s. að sýna Wyrd Sisters (sem heitir á íslensku Örlagasystur) eftir Terry Pratchett. Í dag fórum við í fyrsta skipti inn í Austurbæ (en við sýnum einmitt þar) og þó að þetta hafi verið fyrsta æfingin sem við gengum í gegnum allt leikritið þá er ég strax öll orðin blá og marin. ég veit ekki hvernig en mér tókst að fá Alpana á vinstri sköflunginn, rak löppina í eitthvað og úr því urðu þrjár fínar kúlur! Gaman að þessu.

Ég er á leiðinni í háttinn en til þess að bæta upp fyrir bloggleysið þá vil ég mjög gjarnan leyfa ykkur að njóta þessa asnalega stráks sem er á myndinni með Steina. Hausinn á honum (ekki Steina) er eins og hneta!
Góða nótt...

P.S. látið mig bara vita ef að þið viljið panta diskinn át amma tá með Lödunni úr Brúnadal

miðvikudagur, desember 25, 2002

Jólin, Jólin alls staðar...

Vei vei, í dagurinn í dag heitir ekki-gera-neitt-nema-borða-nammi-og-horfa-á-vídjó-dagurinn. Ég er m.a.s. komin með jólanammibumbu! Vei! Jólasveinaþjónustan gekk vel. Það var óneitanlega mjög skemmtilegt að vera bílstjóri þriggja jólasveina, þeir skemmtu mér mjög vel. Ég fékk m.a.s. hreindýrahorn til að vera eins og Rúdólf.. reyndar ákvaðum við að það væri frekar við hæfi að ég héti Rúda, ekki af því að ég er jafn breið og stór eins og rúta.. æ ég ætla ekki að útskýra brandarann fyrir ykkur ef að þið skiljið hann ekki :) Annars er ég bara að leika mér í nýju tölvunni minni. Mér finnst hún mjög fín nema að það er ekki búið að setja íslensku takkana á hana og þessvegna er svolítið erfitt að skrifa á hana. Ég er samt að verða mjög góð. OK, ég er að skreyta svolítið. ÉG á ekki beint tölvuna, heldur pabbi, ég er bara að leika mér í henni og ímynda mér að ég eigi hana.

Voru ekki allir fyrir framan sjónvarpið klukkan 22.00 í gær til þess að horfa á hina ægifögru kóra Hamrahlíðarkórinn og kór menntaskólans við Hamrhlíð syngja aptansöng? Við erum sko strax búin að fá fullt að tilboðum, að leika í nýju LOTR myndinni og margt fleira.. bíðið spennt eftir framhaldinu..

Allavega, klukkan er að verða 20.00 á jóldag og ég er ekki búin að horfa á eina teiknimynd! Skammi skamm! Ég hugsa að ég dragi fram Pétur Pan og fari að glápa með macintosh (fartölvu og nammi) og jólaöl.
Bless bless og gleðileg jól.. :)

þriðjudagur, desember 24, 2002

*geisp*

Ég er þreytt og ég lykta eins og skata. Ég er svo þreytt að ég gæti alveg trúað því að ég væri skata.. Ég er skata. Ég var nefnilega að vinna í skötuhlaðborði frá því klukkan 10.00 í morgun. Það byrjaði reyndar ekki klukkan 10 í morgun en ég lykta samt eins og skata þrátt fyrir það. Það er vond lykt af skötu. Og það er vond lykt af mér. Mér finnst að jólin eigi að vera þannig að maður vaknar klukkan 10.00 og horfir á teiknimyndir til 15.00. En ekki að vakna klukkan 8:30 til að stunda fjáröflun fyrir leikfélagið. Ef að einhver er á síðustu stundu þá er hægt að panta jólasvein núna og til 13:30 á morgun á lfmh@nfmh.is (allir að panta).

Ég fór á æfingu uppí dómkirkju á sunnudagskvöldið. Ég hugsaði "þarna er Björg. Auðvitað, hún er hér en ekki í Brussel." Svo hugsaði ég "Björg!!" og svo gólaði ég "Björg!!" Þá hafði Björg barnapía komið heim um jólin og enginn vissi. Gaman gaman. Við fórum að rölta á Laugaveginum í leit að jólagjöfum en enduðum að máta föt fyrir okkur sjálfar. Skrítið þetta stelpu líf!

Jæja börnin góð, minns vill lúlla en fyrst... Gleðileg jól og megi þið hafa það gott, borða mikið og horfa á mikið að teiknimyndum!

P.S. ég vil sko taka fram að myndin af mér og Björgu gefur einstaklega óraunhæfa mynd af mér og Björgu í lifanda lífi.. svona lítum við bara út í Skotlandi hellidembu og hopp í hvern einasta poll... bara svo allt sé á hreinu!

laugardagur, desember 21, 2002

Mér finnst eiginlega eins og jólin séu búin því að kórinn var að syngja í jólamessu fyrir sjónvarpið á miðvikudaginn. Mér líður svona eiginlega eins og ég hafi verið mjög leiðinleg þetta árið og enginn vildi gefa mér jólagjafir og þess vegna séu jólinn bara búin!

Annars fór ég á Coldplay í Höllinni á fimmtudagin. Það var gaman þó að rokkfélaginn minn hún Anna Pála hafi komið eftir eitt og hálft lag hjá Coldplay og Yngvi, ekki lengur verðandi rokkfélagi, hafi svikið Rokkfélagið. Crowdið var mjög skrítið, ég og Anna Pála vorum að troða okkur í gegnum allt og þá pikkaði einhver stelpa í mig og bað mig að færa mig "Ég var sko ekki að hleypa ykkur til þess að þú gætir staða fyrir mér". Ég var ekki alveg að skilja en ákvað svo að þetta hefðu verið fyrstu tónleikarnir hennar þar sem ekki voru sæti og enginn var að spila á blokkflautu og brosti þess vegna mjög fallega til hennar. Svo stóð gamall kall við hliðina á okkur og söng hástöfum með öllum lögunum.. eða já söng ekki, frekar svona rammfalskt jóðl. En Coldplay voru mjög góðir og Chris Martin mjög sætur (slefi slefi) og allir mjög glaðir held ég (nema kannski stelpan sem hefur bara farið á blokkflaututónleika).

Jæja, ég er farin að kaupa jólagjafir og að vinna.
Bless kex ekkert rex...

miðvikudagur, desember 18, 2002

10 hlutir sem að bæta hversdagsleikann

1 Mjög illa uppsettar jólaseríur
2 Tenórar sem eru að rembast við að ná upp á hæsta tóninn og líta kjánalega út við þá iðju
3 Fólk sem er lengi að fatta eða gjarnt á að mismæla sig skemmtilega
4 Fólk með koddafar... allan dagin
5 Svona bílar að keyra um
6 Þegar maður er rosalega þreyttur og allt í heiminum verður fyndið
7 Svona hallærislegar myndir af fólki að dansa eins og mér og Halla
8 Kitla Halla. Sérstaklega þegar hann er málaður eftir sýningu eins og þarna!
9 Finna pening í vasanum sínum sem maður veit ekki af
10 Vakna og það er byrjað að snjóa (nema að maður sé ekki á vetrardekkjum).

mánudagur, desember 16, 2002

Þetta er bara ryk
Í dag er ég að hugsa um að blogga ekki um neitt..

Einu sinni var lítill strákur sem bjó í fínu húsi. Hann átti góða mömmu og góðan pabba. Hann átti eina góða systur og einn góðan bróður. Hann átti líka hund. Hann var oft góður en stundum beit hann, bara ef að maður togaði í skottið á honum. En það gerði litli strákurinn aldrei því að honum fannst vont að láta bíta sig.

Og þar hafiði það..

laugardagur, desember 14, 2002

Ég fór í próf í morgun. Svo fór ég að verðlauna sjálfan mig fyrir að vera búin í prófum, ekki samkvæmt því hvernig mér gekk. Muniði eftir því þegar maður var lítill og fór með 500 kall í kolaportið og keypti allskonar rusl sem að manni fannst flott? Ég gerði það nema bara að mér fannst ruslið ljótt. Þetta er einn af mínum stærstu göllum. Ég vil oft kaupa hluti sem að mér finnt forljótir, bara af því að þeir eru ljótir á einstaklega fyndin hátt. Ég keypti t.d. gleraugu með +1 í styrk. Þau eru mjög blá og mjög stór og mjög ljót. Svo keypti ég líka hatt, hann er reyndar ekki ljótur. Mig langar samt mest í hamborgarapressuna. Það er svona rautt plast sem að maður setur nautahakk í og pressar og þá verður það í laginu eins og hamborgari. Svo var líka hægt að kaupa svona dót einsog var í sjónvarpskringlunni þegar hún byrjaði.. nei ekki rúðuþurrkurnar sem þurrka allt í burtu heldur litlu plast formin sem gera "snittur." Bara setja fullt af brauði og áleggi saman, pressu öllu í plasthólka sem eru mismunandi í laginu og stinga tannstöngli í gegnum. Og þetta tvennt samtals 300 kr. Gæðainnkaup alveg hreint!

Jæja, litla kompuherbergið mitt er að lifna við af ýmsum óhreinindum.. kannski maður létti aðeins á því. Svo bara að vinna á eftir..
Shhhh
Sigurrós er alveg frábær. Nei eitthvað meira en það, eitthvað sem að ég get ekki útskýrt. Mig langaði ekki að tala þegar ég labbaði út af tónleikunum. Ekki tala, bara vera. Heimspekin alveg í hámarki.

Húsið mitt er að verða voða fínt. Nú er verið að gera allt sem átti að gera þegar við fluttum inn... þegar ég var 3 ára. Ég meina 16 ár er ekkert svo langur tími til að byrja að framkvæma er það nokkuð? Það er s.s. búið að skipta um eldhús, setja nýtt teppi, rífa niður veggi, mála aðra veggi, setja nýjar flísar, brjóta græna klósettið og kaupa hvítt, setja það upp og nú er verið að tala um herbergjaskipti. Þar sem ég er ein eftir í kotinu hjá foreldrunum eru þau að hugsa um að láta mig fá sitt herbergi og nota mitt herbergi til svefns og systur minnar (sem er s.s. farin burt) undir drasl. Ég hugsa bara að ég flytji aldrei að heiman!

fimmtudagur, desember 12, 2002

mér er kalt í blóðinu, ef það er hægt. Allavega er mér kalt allstaðar nema á tánum! Ég tölti heim frá Gráa kubbnum eftir sálfræðipróf með henni Uglu ruglu sem var á barmi taugaáfalls, eða allaveg að jafna sig eftir að hafa verið á barmi taugaáfalls. Það var nokkuð skondið enda talar hún e.t.v. meira en ég.. Já það er víst hægt! Á miðju rölteríi hittum við Arnór nokkurn, son Boga þeirra bókar er situr um 4. sæti metsölubókalista Pennans. Hann (Arnór, ekki rithöfundapabbinn) er búin að lofa að hjálpa lúðamér með commentið asnalega og fleira. Vei fyrir því!
Svarti sauðurinn í familíunni minni var heimt úr helju í dag sama dag og hún varð tvítug. Hún fór í svaðilför til Egyptarlands í september og endaði í Indlandi fyrir viku. Vei fyrir því líka! Ef að ég hefði verið dugleg stúlkukind og drifið landsprófið af í vorinu er leið þá væri ég líka að koma heim úr ævintýraför. En maður fær víst ekki allt.
"... búin að gera ýmislegt, sofa undir berum himni með Bedúvínum, sjá pýramída, Súezskurðinn og Sínaískaga, klöngrast upp á Sínaífjall um miðja nótt og horfa á sólarupprásina af toppnum.."
Svona kort skal ég líka senda einn daginn (á náinni framtíð) Vei fyrir því líka!

miðvikudagur, desember 11, 2002

Ég er lúði: a.m.k. 3 góðar ástæður
1) lærði bara pínu ponsu fyrir stærðfræðiprófið í dag.
2) stærðfræðiprófið var kl 13.00 í gær en ekki kl. 13.00 í dag eins og ég hélt
3) ég skil ekki rass í bala í html

takk fyrir, bless

þriðjudagur, desember 10, 2002

Ég skil alveg að 1+1 eru tveir og allt það og ég skil líka að 1*1 er einn en það sem ég skil hinsvegar ekki er að function er ekki function ef að f(x) er [1,2,5,78,3] vegna þess að domainið er ekki það sama og línurnar skerast saman en fara ekki í stigum... eða eitthvað.

mánudagur, desember 09, 2002

Nú hef ég mikið verið að spá og spekúlera (og því miður minna gert af því að læra eins og mér ber víst hálfgerð skilda til). Þessir auglýsingabæklingar sem við fáum ókeypis inn um póstlúguna eru boðberar hins illa (dadadadaaammm!). Já eða svoleiðis. Einhver sagði að Hagkaupsblöðin væru hálfgerð klámblöð, hálfnakatar konur og hálfnaktir karlar á brókunum að spóka sig um. Klámfíklar landsins sem hefðu farið í meðferð ættu því ekki annars kosta völ en að snú sér að iðjunni að nýju.
Það sem pirrar mig þó mest eru dótabæklingarnir. Ég er mikið barn í hjarta og þykir með eindæmum gaman að fletta í gegnum dótabæklingana til þess að rifja upp bernskubrekin (þó að ég hafi ekki átt gervihund né dúkku sem voru alveg nákvæmlega eins og lifandi hvolpur og kornabarn). Ef ójafnréttið byrjar einhverstaðar þá er það í dótabælkingunum. Það er að sjálfsögðu þekkt staðreynd að jafnréttissinnar landsins (þar með talin ég) eru alls ekki sammála stöðluðum leikföngum, stelpur strauja og strákar byggja. Í dótabæklingnum sem datt inn um lúguna í dag voru strákaleikföng á síðu með bláum bakgrunni og stelpuleikföng á síðu með bleikum bakgrunni. Stelpurnar léku sér í Barbie bílnum sem er dýrasnyrtistofa um leið (svoleiðis er ekki einu sinni til a.m.k. hér á landi!), straujuðu í plasteldhúsinu þar sem þvottavél og eldavél voru aðaltækin og léku sér með dúkku sem er eins og alvörubarn, kúkar, ropar og þarf svefn. Það er m.a.s. hægt að kaupa auka bleyjur handa dúkkunni. Strákarnir, á hinn bóginn, keyrðu grænan traktor, fengu action man sem á ekki gæludýrasnyrtistofubíl heldur byssu, borðuðu í vegg á plastvinnustofunni og keyrðu fjarstýrða trukka sem "geta komist yfir hvaða torfæru sem er!".
Satt að segja þá finnst mér miklu skemmtilegra að keyra traktor og bora í vegg heldur en að klippa hár á plasthundum og skipta á kúkableyjum!
Fussumsvei!

sunnudagur, desember 08, 2002

Jamm og já já. Maður bara að verða glæpamaður ha? Nei nei segi svona. Ég var sko að leika í stuttmynd áðan hjá stelpu sem er í Kvikmyndaskóla Íslands. Söguþráðurinn var svona: nokkrir vinir saman í tjilluðu partýi ákveða að fara í andaglas. Það kemur vondur andi í glasið segist ætla að drepa eina stelpuna, andinn segir alltaf, drepa, stökkva. Stelpan flippar og hleypur út. Eftir smá samræður ákveða vinirnir að fara á eftir henni og finna hana þá þar sem hún er búin að klifra uppí krana og segist vera þarna til þess að vera í friði. Löggan kemur og nær henni niður og svo veit ég ekki hvað gerist.
Ég er s.s. voða vitlaus og miskildi dæmið og þegar við vorum að fara af stað þá fattaði ég að þau voru í alvöru að fara að hringja á lögguna! Ég ákvað samt bara að segja ekki neitt og spilaði bara með, svo komu tveir löggubíll og sjúkrabíll og allt. Síðan sagði einn löggumanninn að við ættum að fara niður á stöð til þess að fá botn í málinu. Við sögðumst þurfa að fara aðeins heim til þess að ná í eitthvað dót og svoleiðis.. ég fór bara... mig langar nefnilega kannski að verða forseti og þá vil ég vera með hreina sakaskrá.. skiljú?
(p.s. ég bíð ennþá eftir html hjálp frá æðri máttarvöldum..)

laugardagur, desember 07, 2002

Við Bloggi Blogg erum ekki alveg að bonda hérna. Ég vil gera eitt og hann gerir þá allt annað. Eitthvað uppreisnagjarn greyið litla. Staðsetti t.d. linkinn á Inga fyrir ofan Archives kassan og neðan Blogger merkið (það var sko ekki mér að kenna. Ég vissi alveg hvað ég var að gera). Ef einhver hugrakkur getur gefið mér hjálparhönd við að hafa stjórn á Blogga þá má hinn sami gefa sig fram núna (það sakar ekki ef hinn sami hefur html kunnáttu).
10 reglur þegar borðað er í hlaðborði:

1. Það á alltaf að vera til nóg af mat þannig að enginn þarf að örvænta að koma síðastur og þá verði allt búið. Þetta kerfi kallast áfyllingar.
2. Það á ekki, ég endurtek, alls ekki að fara aftur að borðinu fyrr en allir hafa farið einu sinni. Þetta kerfi kallast kurteisi.
3. Ef það er súpa í boði þá er hún nær alltaf til þess að borða fyrst, ekki síðast á eftir öllu.
4. Það er nóg að taka 2-3 tegundir á diskinn í hvert skipti en ekki graflax, nautatungu, kalkún, rauðvínssósu, eplaköku, rúgbrauð, súpu, skinku, grænar baunir, síld, grjónagraut, kartöflusalat, brauð, andalundir, berneisósu, hreindýrakjöt, purusteik, vanillusósu og ost og hræra öllu saman (til þess að fyrirbyggja miskilning þá legg ég áherslu á að fyrra atriði gildir, hið seinna er synd)
5. Ef að búið er að klára allan mat á disknum og þess er óskað að diskurinn sér fjarlægður þá er tvennt hægt að gera í stöðunni:
a) Láta hnífapörin vísa á kl. 3
b) Leggja hnífapörin á servéttuna
6. Ef tvenn sett af hnífapörum eru þegar lögð á borðið skal muna að taka hnífapörin af disknum ef aðeins eitt sett er eftir og áframhaldandi át er á dagskrá. Hinsvegar er sjálfsagt að útvega ný hnífapör er hinn notuðu eru kámug, slímug og ógeðsleg.
7. Sé önnur ferð áætluð í hlaðborðið og diskurinn hefur enn ekki verið fjarlægður þá á að vera nóg að standa upp frá borðinu. Það er ekki æskilegt að taka diskinn með og leita þjóninn uppi til þess að afhenda honum óhreina diskinn. Það er þó enginn regla sem segir að diskurinn skuli aðeins notast einu sinni.
8. Öllum ber að njóta þess að borða góðan mat. Það á því helst að borða hann hægt og rólega en ekki skófla öllu í sig með skeiðinni sem fylgdi súpuskálinni.
9. Öllum ber að njóta þess að drekka gott borðvín. Borðvín er kallað borðvín vegna þess að það er til þess að skola niður mat og gefa annað og öðruvísi eftirbragð, örva bragðlaukana til þess að njóta matarins betur. Borðvín á því ekki að svolgra af stút um leið og flaskan kemur á borðið. Borðvín er ekki landi. Þetta virðist vera algengur miskilningur hérlendis
10. Ávallt skal sýna þjóninum mikla virðingu. Hann er viðkvæm sál. Í langflestum tilfellum má rekja dónalega og leiðinlega þjónstu til þess að viðskiptavinurinn er dónalegur og leiðinlegur.

Takk fyrir

miðvikudagur, desember 04, 2002

Ég held að ég sé orðin stefnulaus. Ég hafði allavega alltaf þá stefnu að þótt að mér þætti gaman að lesa ókunnug blogg þá ætlaði ég aldrei að verða ókunnugur bloggari. En ég er að reyna að líta á björtu hliðarnar. Sko ég tala meira en eðlilegt er í daglegu lífi svo ég hugsa sem svo að ef ég tjái mig hér þá hlýtur eðlilegt tal að minnka eilítið í prósentum þar sem þær prósentur fara í tjáningu hér.. skiljú?

Ég get ekki opnað bók og farið að læra, jafnvel þó svo að ég sé að fara í tvö stór próf á föstudaginn. Ég opnaði reyndar líffræðibókina í gær.. á Stjörnutorgi í Kringlunni. Mæli eindregið með staðnum ef að þið viljið læra lítið og hlusta með mikilli athygli á gelgjurnar á næsta borði...