fimmtudagur, mars 12, 2009

Ég var mjög ánægð með frammistöðu DJ Nonna og Manna um helgina. Barbara byrjar vel og við verðum þar aftur næstu þrjá laugardaga í það minnsta.

Fyrst og fremst náði ég þó að afsanna kenningu mína um það að nú væri ég orðin gömul. Undanfarnar vikur hef ég nefnilega veirð sjúk í að prjóna, líkt og margur íslendingurinn. En þar að auki hef ég uppgötað hljóðbækur á internetinu. Ég sat því eitt kvöld mað kisu mér til vinstri og te til hægri, prjónandi og að hlusta á hljóðbók. Þá datt mér nú í hug að hringja bara niður á elliheimili og athuga hvort að það væri ekki laus ein íbúð handa mér.

fimmtudagur, mars 05, 2009

Smá plögg fyrir mögulega þessa tvo sem enn kíkja við hér á síðuna mína.

Ef þér finnst gaman að dansa, grína, hlægja, brosa, drekka og ekki drekka, elskar glimmer, gleði, hamingju eða einfaldlega vilt gott partý, þá mæli ég með þessu..



sunnudagur, febrúar 22, 2009

Nokkrir hlutir sem ég ætla að gera áður en 2009 lýkur:

- Halda sushi matarboð
- Halda gourmet matarboð
- Fara í kaffi til Einars
- Byrja í námi
- Ákveða hvaða nám ég ætla að fara í
- Gera mikið af partýstuði með Nonna og Manna. Árið byrjar allavega vel
- Flytja aftur heim til mín á Leifsgötu, ef Guð lofar.
- Semja popplag
- Klára að prjóna lopakjólinn
- Fara a.m.k. þrisvar í sleik, helst oftar samt
- Klára jólagjafirnar 2008 fyrir jólin 2009
- Klára heimildarmyndina "Kórus í París - saga af kreppuðum kórsöngvurum"
- Labba uppá Esjuna

föstudagur, janúar 23, 2009

Til minnis fyrir mig sjálfa í framtíðinni:

Ekki strengja áramótaheit opinberlega. Þú ert dæmd til að brjóta þau áður en nýja árið kemur. (Er þó búin að gera flest allt vel og með elegans).

Að svo sögðu er best að hefja miðjan janúar sem nýtt ár með enn fleiri fögrum fyrirheitum á opinberum vettvangi um að blogga oftar. Þó fyrir engann annan en sjálfan mig. Kosturinn við bloggið, fram yfir hina gömlu góðu dagbók með pappírblöðum og tilheyrandi, er hiklaust sá að maður vandar sig meira, ritskoðar sig og vandar frásögnina með tilheyrandi kryddi, skreytingum og krúsídúllum, svo að sagan verði betri.

Af árinu 2009 er það helst að frétta að ég hef fengið mér kött og flutt tímabundið heim til foreldra minna. Í ljós kom að Leifur var ekki allur þar sem hann var séður og undir forljótum baðherbergisveggnum komi í ljós mein sem þurfti að fjarlæga hið snarasta. Baðherbergið er því fokhelt í augnablikinu og nágrannarnir alveg að tryllast yfir föður mínum sem er sjúkur í að brjóta niður veggi á milli kl. 20 og 23. Þetta er þó mjög tímabundið og gengur vonandi brátt yfir þar sem ég hugsa að ég hafi ekki mikið meira úthald að vera aftur orðin 17 ára með tilheyrandi tilkynningaskyldu um hvort ég komi í mat, hvort að ég sé með lykla, hvort að ég sé búin að snýta mér o.s.frv.
Kötturinn er snilli. Mér skildist fyrst að um fress væri að ræða og skírði hann því Leif (afhverju að eyða tímanum í að koma með nýjar ferskar hugmyndir þegar maður getur stuðst við einhverja gamla góða?). Við nánari athugun sýndist mér þó að þetta væri læða og skírði hana Míu. Núna er ég alls ekki viss og kallast hún því bara ýmislegt krúttlegt sem ekki verður upptalið hér. Kötturinn hefur nefnilega breytt mér í væmna húsfrú og við móðir mín skiptumst á sögum um hvað kisan gerði á meðan önnur okkar var í burtu (mánaðaheit fyrir febrúar: hætta að skiptast á kattasögum við móður mína og tala í dúllurödd um hvað kisan er mikil krúttsprengja).

Meira hefur gerst á þessu annars viðburðarlitla ári 2009. Við Valdís hofum stofnað óbrugðult DJ teymi og stefnum á heimsyfirráð. Við höfum ákveðið að snúa vörn í sókn við annars útbrunnum remixuðum minimalískum teknóbítum og höfum það eitt að markmiði að spila stuðtónlist. Það er ýmislegt í bígerð og pokahorninu en ef þið viljið bóka okkur þá bendi ég á síðuna okkar, DJ Nonni og Manni. Við erum snilld, ég lofa.

fimmtudagur, janúar 01, 2009

Persónulegur annáll Ragnheiðar árið 2008
Kreppulaus með öllu

Margt bar á góma á þessu ári. Margt mjög gott, margt gott, margt allt í lagi og sumt ekkert spes. Hér er einungis brotabrot af öllu því sem gerðist á þessu ári.

Gleði ársins
Elsku Pálmi Gunn. Það mun aldrei gerast að ég muni ekki hugsa til baka og fara að brosa


Fréttir ársins
Björg og Binni eru par,
kyssast bæði hér og þar
og eignast bráðum eitt lítið

Verstu fréttirnar
Litli frændi minn, hann Bjarni Páll, féll frá á þessu ári. Hann var og verður fegursta hetja sem ég hef þekkt.

Myndasería ársins
Engar myndir hafa slegið jafn mikið í gegn og maddömumyndinar, enda eru þær snilld


Vefsíða ársins
Facebook hefur gert mannleg samskipti gjörsamlega óþörf. "Já ég vissi það, ég sá það á Facebook"

Tónleikar ársins
Að vanda hafa þeir verið ófáir. Náttúrutónleikarnir koma vissulega sterkir inn en enn eitt árið sigrar Hamrahlíðarkórinn. Ég á erfitt að gera upp á milli Konunglegu óperunnar í Kaupmannahöfn eða Notre Dame og Invalides í París. Þó verð ég að segja að það gerist sjaldan en það gerðist í Invalides að ég sjálf fékk gæsahúð á tónleikum.

Pólítík ársins
Þó að það sé úr mörgu að velja þá stendur Obama klárlega uppúr.

Slott ársins

Hér er enginn tilnefnd nema Leifsgata 10, að sjálfsögðu. Fyrst í umsjá okkar Vignis en svo ákvað ég að gerast einstæð móðir og er það gott. Sambúðin er sæt, enda er Leifur þægur og góður, nema þegar hann baðar sig ekki.

Nágrannar ársins
Þó svo að flest allir mínir nánustu vinir búi í innan við 7 min. göngufæri frá mér þá eru nágrannarnir á Leifsgötu 5, 3.h. t.h. í sérstöku uppáhaldi. Þær eru svo nálægt og leyfa mér, öryrkjanum, að koma og baða mig og borða allt nammið þeirra

Drykkur ársins
Comsó blandað af homma-elegans

Helgi ársins
Páskahelgin stórgóða á Vestfjörðum í samfloti við Valdísi, G.Kri, Saló, MaHa, Aron, Hrafnhildi, Hörpu og Aldrei fór ég suður. Eftirköstin voru þó ekki jafn gleðileg en útséð er hver fær ekki að elda á næsta ári.

Kombó ársins
Maddömukvartett og maddömutríó Hamrahlíðarkórsins.

Grín ársins
Morgunblaðið, 19. nóvember 2008
Guðmundur Kristján Jónsson, 40 ára



Guðmundur verður erlendis á afmælisdaginn, föstudaginn 14. nóvember. Allar gjafir og öll blóm eru afþökkuð, en bent er á Tröllin, Vini kóranna í Hamrahlíð.

Uppgötun ársins
Þrátt fyrir alla lífsgleði er ég orðin of gömul til þess að vera í unglingapartý og er það miður.

Vídjó ársins
Já já, Kakó verður örugglega brjáluð. En ef þið þekkið Kakó þá er þetta mögulega það fyndasta sem nokkru sinni hefur stigið fæti inn fyrir dyr veraldarvefsins



Orð ársins
Æ, þetta átti að vera alfarið kreppulaus póstur en hvaða orð gæti mögulega unnið "Kreppa" í keppninni orð árins?

Blogg árins
Tjah, klárlega ekki mitt eigið allavega..

Ég óska lesendum öllum gleðilegs nýs árs og strengi hér með tvö áramótaheiti á veraldarvefnum.

1. Ég heiti því, fyrir sjálfa mig, að blogga oftar. Það er gott að geta litið aftur í tíman og séð hvað hefur orðið á vegi mínum undanfarin ár

2. Yfirskrift ársins 2009 mun verða "Gerðu það vel. Gerðu það með elegans"

SKÁL!

miðvikudagur, desember 17, 2008

Í fréttunum í dag var skýrt frá því að danski fjársvikamaðurinn Stein Bagger hefði gefið sig fram. Bagger var víst forstjóri tölvufyrirtækis á sínum tíma, áður en hann hóf feril sem fjársvikamaður. Mér fannst svo skemmtilegt að hann væri titlaður sem fjársvikamaður, svona rétt eins og það væri atvinnutitill. Ég sá svo marga grínmöguleika í símaskránni fyrir mér.

Ragnheiður Sturludóttir, svikari
Ragnheiður Sturludóttir, ruplari
Ragnheiður Sturludóttir, lygamörður

Annars er það helst að frétta að húsmóðir á Leifsgötu er að missa sig í jólunum. Búin að skreyta, búin að þrífa, búin að búa til jólkonfekt, er að klára að búa til jólagjafirnar, búin að græja jólaglöggspartý, mjög spennt fyrir fyrrnefndu jólaglöggspartýi, svakalega sátt við snjóinn og almennt til í að ræða smákökur og kakógerð á hvaða tíma sólahrings.

P.S. Listarnir Topp 10 sætustu og ljótustu vinir Ragnheiðar bíða til örlítið ókristilegri tíma

miðvikudagur, desember 10, 2008

Einhver menntaskóli hér í borg gefur út blað þar sem má m.a. finna tvo lista yfir topp 10 sætustu nemendur skólans, einn yfir stráka og einn yfir stelpur. Ég var að spá í að gera slíkt hið sama. Topp 10 sætustu vinir Ragnheiðar og kannski fylgja því eftir með Topp 10 ljótustu vinir Ragnheiðar.

Er það nokkuð ósiðferðislegt?

þriðjudagur, desember 09, 2008

Að læra

Þögn er betra en innantómt bull, ekki satt? Undanfarnar vikur hef ég byrjað á frásögn frá París, sögum úr sveitinni, hugrenningum um kreppuna og öðru álíka merkilegu. Ekkert var þó að gera sig og liggja öll bloggin ókláruð í viðjum internetsins. Ég hef einnig ákveðið með sjálfri mér að þetta blogg skal vera kreppulaust, nema um sé að ræða kreppu eins og í crêpe eins og í París. Það er því á þessum síðustu og verstu um fátt að velja..

Í haust hef ég verið í smá persónulegu side-prójekti sem krefst þess að ég á að læra. Það átti ég t.d. að gera síðustu daga. En, eins og öllum góðum námsmönnum sæmir, gerði ég að sjálfsögðu allt annað en það að læra. Í staðinn gerði ég smá vídjó. Það er víst í tísku að vlogga eins og mér skilst að það sé kallað.

þriðjudagur, nóvember 11, 2008

Í nótt dreymdi mig að sambland af Barack Obama og Dizzee Rascal var kærastinn minn. Hann átti hins vegar svo ógeðslega leiðinlegan kött að ég hætti með honum. Þar að auki var hann alltaf berrassaður og ég meikaði það ekki. Í staðinn byrjaði ég með dvergi sem trommaði í heimsfrægri rokkhljómsveit. Bara vegna þess að hann bjó á þaki og þar voru haldin kokteilkvöld með opnum bar á hverju kvöldi.

Töff.

mánudagur, nóvember 03, 2008

Dear people of the United States of America.

Could you please be so kind and cast the right vote, that is, for Mr. Obama? I would be very thankful and as would a very big part of the world.

Thank you.
Yours,
Ragnheiður Sturludóttir