föstudagur, júní 30, 2006

Þetta er gleðidagur í mínu lífi. Ég vona að að Argentínska liðið verði ekki myrt á flugvellinum þegar það kemur heim. Trúið mér, það gæti vel gerst.

Sjit.. eintóm hamingja
Vinnan

Í dag var mjög gaman í hvísluleik. Þegar að krakkarnir máttu sjálfir velja orð til þess að hvísla völdu þau fyrst Ragnheiður er best og svo Ragnheiður er albest. Ég var upp með mér, sérstaklega vegna þess að ég næ ekki að vera mikið með þeim vegna þess að ég þarf að ljósrita, prenta, fara að kaupa eitthvað, sækja lykla, panta pylsur o.s.frv. Og blessuð börnin, þau eru svo andskoti hreinskilin. Hér eru tvö dæmi.

Scenario one

Það er indjánadagur á leikjanámskeiðinu. Eitt barnið, sem á að fara heim í hádeginu, stendur og grenjar úti á smíðavelli. Eftir að hafa huggað það af minni einskæru hjartahlýju, fylgi ég því heim, svo að allt verði nú örugglega í lagi.

Ragnheiður: góla eins og indjáni og bendi á indjánakórónuna "Er ég ekki alveg eins og Pocahontas?"
Barnið: "Nei, hún er ekki svona hvít"
Ragnheiður: Örlítið móðguð "Já, en þess fyrir utan er ég eins og Pocahontas.."
Barnið: Fer fyrir aftan mig og gerir mjööög langt bil með puttunum "Nei, þú ert svona.. " Minnkar bilið á milli puttana svo að það verður eins og blýantur ".. en Pocahontas er svona"
Ragnheiður: Örlítið meira móðguð "Heyrðu, ekki segja að ég sé feit!"
Barnið: "Ég er ekki að segja það, það er bara eins og þú sért með barn í maganum"
Ragnheiður: Mjög móðguð "Jæja, ég er allavega ógeðslega sæt"
Barnið: "Nei, eiginlega ekki, kannski aðeins"

Scenario two

Vakna seint og nenni ekki að fara í mjög útpælt dress um morguninn. Fer því í fínu og dýru WoodWood peysuna mína, yndislega þægilegar Adidas buxur sem ég fann kvöldið áður og bleika Vans skó. Mæti í vinnuna og fer inní stofu

Barn: "Heyrðu Ragnheiður, í hverju ertu eiginlega?"
Ragnheiður: "Hvað meinaru?"
Barn: "Afhverju ertu í svona furðulegum fötum?"
Ragnheiður: "Finnst þér þau furðuleg?"
Barn: "Já, þú ert alltaf svo fín og núna ertu bara í einhverju svona!"
Ragnheiður: í gríni "Já hva' á ég bara að fara heim að skipta um föt?"
Barn: alvarlega "Já, ég held að það væri kannski bara best"

Labba inní næstu stofu. Mæti öðru barni sem stoppar og horfið skringilega á mig.

Barn: "Ragnheiður! Afhverju ertu í svona ljótri peysu?"

Það er skemmst frá því að segja að ég ber nú á mig brúnkukrem á hverju kvöldi (sérstaklega í ljósi þess að allir aðrir starfsmennirnir eru orðnir brúnir og útiteknir á meðan ég er hvít sem næpa) og hef lesið bókina Franksar konur fitna ekki spjaldanna á milli..

föstudagur, júní 16, 2006

Pabbi minn - the popstar

Hér fyrir nokkrum vikum sátum við fjölskyldan við matarborðið og ræddum um mjúsík og gamla daga. Það er nefnilega svo margt við mjúsíkina og gamla daga sem að mér finnst svo heillandi. T.d. var það þannig að þegar að ný plata kom út, þá hljóp einn úr hópnum út í búð og keypti plötuna og síðan var hisst heima hjá einhverjum og allir hlustuðu saman á plötuna. Það var svo mikið félagssport að hlusta á tónlist í gamla daga
Pabbi var nefnilega poppstjarna hér í denn. Hann var í Bítlacoverbandi sem hét Sóló og var virkilega vinsæl á sínum tíma. Þeir og Hljómar voru aðalböndin og einu sinni, þegar Sóló spilaði í Keflavík, voru þeir grýttir af hörðum Hljómaaðdáendum. Sóló var m.a.s. svo vinsæl að þeir túruðu um Noreg (ég meina, let's face it, enginn hljómsveit er alvöru hljómsveit fyrr en hún hefur túrað um Noreg!). Pabbi gekk skólaus út af tónleikum í Noregi vegna þess að hann hafði farið að crowdsurfa (pæliði í því.. hefur pabbi þinn, lesandi góður, farið að crowdsurfa á tónleikum í Noregi?) og einhverjar ungmeyjar stálu af honum skónum. Pabbi var nefnilega yngstur og myndarlegastur og þær voru alveg trylltar í hann píurnar. Og þá er komið að því sem að mér finnst svo óendanlega töff, fyrir utan að pabbi hafi verið sólógítarleikari í Sóló, crowsurfer og hönk. Pabbi fékk víst heil ósköp að kveðjum í Lögum unga fólksins. Enginn í hljómsveitinni komst með tærnar þar sem hann hafði hælana.

"Stelpan í gula kjólnum með hvítu spöngina á tónleikunum á Silfurtunglinu síðasta laugardag sendir Sturla Má, gítarleikara í Sóló heitar kveðjur"

Annars verða kaflaskipti hjá mér sel Seltirningi á morgun. Meira um það seinna.

mánudagur, júní 05, 2006

Pálmi Gunn

Ég gerði stórinnkaup í Kolaportinu um helgina. Ég keypti rjómann af íslenskri popptónlist frá áttunda áratugnum, 23 vínylplötur allt í allt. Ég keypit m.a.s. Jóhann Helgason, Valgeir Guðjóns, Brunaliðið o.fl. Líkt og óð kona gekk ég á milli plötusala og leitaði að sólóplötum sem Pálmi elskulegur Gunnarsson gaf út á sínum tíma. Þar sem ég og Bó stóðum og flettum gegnum kassa á síðasta básnum, leit maðurinn, sem var að róta í gegnum kassann við hliðiná, á mig og sagðu "Fyrirgefðu, ert þú ekki að leita að Pálma?", dró upp forlátt, alveg heilt og syngjandi fallegt eintak af Hvers vegna varst' ekki kyrr? og rétti mér. Hálfri mínútu síðar lítur Björg á mig og spyr "Ragnheiður, ertu að gráta?" Það kom reyndar á daginn að nálin í plötuspilaranum mínum var brotin, sem var kannski ágætt því að ég hefði örugglega ekki farið út úr húsi. Og þetta er ekki í fyrsta sinn sem ég græt yfir Pálma. Eftir Júróvisjón fór ég á stórkostlegt ball á Nasa þar sem Meistari Páll Óskar þeytti skeifum og gamlar Júróvisjónkempur tróðu upp. Þegar Icy tríóið steig á svið stóð ég til hliðar og felldi tár af gleði. Æ, elsku Pálmi.

Annars þótti okkur það ansi skondið þegar einn plötusalinn spurði hvort að ég væri skyld honum Pálma. Annar sagði svo, þegar ég spurði um sólplöturnar hans "Nei því miður. Ég á nokkrar heima en ég bjóst bara ekki við jafn kúltíveruðum kaupendum og þér". Toppurinn á töffleikanum, hiklaust.