föstudagur, júlí 18, 2008

Langt bloggsumarfrí að baki. Ýmislegt hefur drifið á daga mína síðasta mánuð og hafið þið flest öll fléttast inní daglegt amstur mitt á einn eða annan hátt; kaffibolli í síðdegissólinni, vinnugilli, tónleikar, útilega, afmæli, kórgilli, kóræfingar, rölt um miðbæinn, grill í bakgarðinum o.fl. Allt hefur þetta verið fagurt og gott.

En sólin missti birtuna og fuglar sinn fegursta söng á þriðjudaginn þegar kom að leiðarlokum í lífi litla frænda míns, Bjarna Páls. Hann var hvunndagshetjan; hugrakkur, sterkur og æðrulaus og tókst á við lífsins þrautir af ólýsanlegri hetjudáð, dugnaði og jákvæðni. Mikið ofboðslega er ég stolt af honum. Engin orð eru nógu sterk til að lýsa þessum vel gerða og fallega dreng. Ég veit að lífið, gleðin og fólkið sem stendur mér næst eru ekki sjálfsagður hlutur en þeir dýrmætustu sem ég á. Ég vona að þið vitið það líka.
Dreymi þig ljósið, sofðu rótt.