miðvikudagur, ágúst 27, 2008

Á Menningarnótt hitti ég litla 3 ára stelpu á Miklatúni. Þegar ég sagði henni að ég héti Maísól þá sagðist hún eiga vinkonu sem heitir líka Maísól. Kindin Maísól sem hún á reyndar og skírði sjálf. Maísól, því hún er fædd í maí. Ég varð mjög spennt og vildi ólm fá að vita hvenær hún ætti afmæli. Kindin er því miður fædd 9. maí en ekki 25. þannig að allar vonir mínar um að halda næst afmæli með kindinni fuku út um gluggann. Ég sá þetta bara svo fyrir mér, Pálmi Gunn eitt árið og rolla það næsta.

mánudagur, ágúst 25, 2008

Í gær rakst ég af tilviljun á stórkostlega færslu hjá einhverri konu sem ég veit ekkert hver er. Ég hef sjaldan skemmt mér jafn vel yfir einni bloggfærslu og öllum athugasemdunum sem henni fylgja. Hér er fólk að viðra skoðanir sínar um Dorrit. Úff, það var svo margt sem langaði að vitna í. Einhver maður sem ásakar aðra konu um að vera ljóta. Ég veit eiginlega ekki afhverju. Konur sem vilja frekar hafa hefðardömur en Dorrit, sem kemur bara við allsbera karlmenn og fagnar þegar við vinnum. Æ, fólk. Mikið langar mig að klappa þeim á kollinn.

Ég á engan bíl, engan pening fyrir strætókorti og fæ ekkert nemakort. Svo að ég hjóla eiginlega hvert sem ég fer og er reyndar búin að gera það í allt sumar. Ég er reyndar alltaf svolítið hrædd að hjóla á Íslandi. Oft vil ég ekki hjóla á götunni, t.d. á Hringbrautinni og hjóla því á gangstéttinni. Þá verður gangandi fólk oft mjög reitt við mig. Ég hef grínlaust oft lent í því að það hefur verið gargað á mig að ég eigi að vera á götunni (sem er ekki rétt). En þegar ég er að hjóla á götunni, þá verða bílarnir oft mjög pirraðir líka og gera í því að keyra mjög nálægt mér mjög hratt. Og ég er alls enginn glanni, það get ég svo svarið, og passa mig alltaf að vera alveg útí kanti svo að ég sé ekki fyrir. En þrátt fyrir þetta finnst mér gott að hjóla. Og ég elska að hjóla fram hjá túristum. Þeir eru flestir vanir því að hjólin hafi sína sér hjólagötu og séu þess vegna ekki að flækjast á gangstéttinni.Túristarnir verða alltaf svo ótrúlega skelkaðir þegar maður hjólar fram hjá þeim. Frjósa alveg á staðnum eða grípa hvorn um annan til að passa að ég hjóli nú ekki á þá (ég á svo erfitt með að miða). Í morgun var ég að hjóla fram hjá Gamla kirkjugarðinum þar sem eldri hjón komu gangandi á móti mér, bæði í eins útivistarjökkum, hann með kortið uppi og hún með myndavélina um hálsinn. Ég mætti þeim akkúrat þar sem göngustígurinn og gangstéttinn sameinast og gangstéttinn er ca. 3 metra breið. Þegar ég var eitthvað um 5 metrum frá því að mæta þeim sé ég að konan verður skelfingu lostin, snýr sér við og stekkur á manninn, sem var fyrir aftan hana og hendir honum upp að steinveggnum hjá kirkjugarðinum. Svo hendir hún sér sjálf að veggnum með bakið í vegginn og hendur upp með síðum og lokar augunum... Ég réð ekkert við mig og fór bara að skellihlægja. Þetta var svo fáránlegt, sérstaklega þar sem konan var ekki að grínast. Mig langaði helst til að klappa henni líka á kollinn.

fimmtudagur, ágúst 21, 2008


Með eitthvað um 100 kg. af farangri ásamt einu hjóli, crashpad klifurgræju og einum bláum gítar, inpökkuðum í bubblewrap, snérum við Karól aftur frá New York í gærmorgun. Vitaskuld tilheyrði flest allur farangurinn Karól þar sem hún var jú að flytja heim eftir 7 mánaða dvöl í stórborginni en öll mín stóru orð um "að ég ætlaði ekkert að kaupa mikið" urðu að engu. Kreditkortið mitt starir á mig raunamæddum fátæktar augum uppúr galtómu veskinu mínu (ég er nú þegar búin að setja kortið aftast í nærfataskúffuna mína) og ég er alvarlega að íhuga að breyta svefnherberginu í fataherbergi númer tvö. En nú á ég fullt af úrvals nýjum hlutum og þarf bara að hætta að borða og lifa í nokkra mánuði. Það er svosem líka allt í lagi því að ég borðaði mikið af góðum mat, fór á listasöfn, lifði og naut í New York, nóg fyrir næstu mánuði. Mikið var stórkostlegt að vera símalaus og klukkulaus og þurfa bara að hugsa um að borða, sofa og hvort ég ætti að kaupa eitt eða tvö pör af skóm (þau urðu á endanum þó nokkuð fleiri en tvö).

Við Karól gerðum heilan helling í sumarfríinu. Fórum á t.d. All Points West tónleikahátíðina í Liberty State Park. Þar voru m.a. CSS, Grizzly Bear, Underworld og Radiohead að spila. Við áttum bara passa á fyrsta kvöldið en Radiohead var að spila tvö kvöld í röð svo að fyrri tónleikarnir voru í raun "Greatest hits" tónleikar með Radiohead og þeir spiluðu í næstum 3 tíma. Þeir hafa væntalega spilað meira af nýju plötunni seinna kvöldið. En Jees Louise (svona segja þeir sko í Ameríku), þeir voru rosalegir!
Stóri bróðir passaði vel uppá okkur tónleikagesti. Það voru að sjálfsögðu bara sérstökt afgirt svæði sem mátti drekka bjór á. Til að fara þangað þurfti maður að bíða í langri ID röð. Þá fékk maður armband. Á armbandi voru 5 flipar og í hvert skipti sem maður keypti sér bjór var einn flipi tekinn. S.s. obbobbobb, enginn má fá meira en 5 bjóra á dag. Og til að passa að maður tæki ekki armbandi af og fengi sér nýtt á öðru bjórsvæði fékk maður strik með permenent tússpenna í ID röðinni. Æ, það er gott að einhver hefur vit fyrir mér. Guð veit að ég, 25 ára stúlkan, get það alls ekki sjálf.

Við vorum líka duglegar að fara á listasöfn. Á einu safninu var ótrúlega skemmtilegt vídjóverk eftir finnskan mann, Reijo Kela. Okkur Karól fannst verkið geðveikt. Í nokkrum skotum sést glitta í hann berrassaðan (það var ekki bara þess vegna sem okkur fannst það geðveikt). Það sést bara svona rétt í rassinn á honum, varla það, því hann er að hlaupa í átt frá myndavélinni. Í einu slíku skoti gengur ammrísk kona framhjá og missir andlitið "Oh my God! That guy was just buttnaked! Completly naked! Oh my God! I can't believe it! God! Jees!" (hér birtist Reijo aftur berassaður í vídjóinu, nú að fara í kollhnís) "Oh! Look! God! Oh my God! He's naked! Oh my God!" Á sama safni var verið að sýna meðal annars verk með ameríska fánanum. Þar var líka vídjóverk með ungum konum íklæddum ameríska fánanum að humma þjóðsönginn sem fóru svo ein og ein úr fánanum og löbbuðu allsberar burt. Einni konu var mjög misboðið. En þar var líka fáni búin til úr álpappír, fram og bakhliðin notuð til skiptis til að gera renndur of stjörnur. Tvær konur stóðu fyrir framan fánann og virtu hann fyrir sér

Kona eitt: "Wait.. Oh my God, this is made out of alumnium foil!"
Kona tvö: "Really? No, it can't be!"
Kona eitt: "It must be made out of something else. I mean, how is it possible to get such different texture out of alumnium foil?"

Listasöfnin voru skemmtileg. Þó að það væri oft bannað að sitja. Eða standa. Eða labba í öfuga átt. Eða labba í rétta átt.

Við fórum mikið út að borða. Mmm og það er gott að borða í NY. T.d. rúgbrauðsbeyglur með rjómaosti, nautsteik, foie gras, taquitos, sushi, banana-guacamole, amerískar pönnukökur, sushi, nachos á Piano's (eins og Mokki segir, skylda ef maður fer til NY), french toast, þistilhjartadip, súkkulaðikökur, hamborga á Ear Inn (önnur skylda ef maður fer til NY), allt með geitaosti, sveppaquinotto, ostafondú, ostabakka..

New York er vissulega borg borganna. Allt er hægt og allt er til. Allt iðar af lífi og manni leiðist ekki eina einustu mínútu. En ég er ekk viss um að ég gæti búið í New York. Það er svo lítið af náttúru og mikið af fólki og bílum. Og merki allstaðar um hvað má og má ekki (má ekki ekki þvo hendur, má ekki flauta). Og svo mikið spurt hvernig maður hafi það og hvernig maturinn er að stundum nær maður varla að kyngja á milli spurninga. Og þó, eftir því sem á leið líkaði mér betur við New York. Ég þyrfti kannski frekar að venjast Ameríkönum ef ég myndi flytja til New York.

miðvikudagur, ágúst 06, 2008

Sumarvinnan mín er alveg að verða búin. Sem þýðir að ég þarf að skrifa langa skýrslu um allskonar mikilvæga hluti eins of t.d. að það sé betra að nota mjúka skotbolta fram yfir þessa klassísku hörðu, að mér finnist hentugra að skrifstofan snúi á móti glerganginum í stað þess að vísa út í port, að gsm-posi sé nauðsynlegur og allskonar annað mjög gefandi. Nei annars, mikið ofboðslega er það leiðinlegt.

[Innskot: Nú er klukkan er verða hálftvö á miðvikudagsnóttu. Mikið ofsalega finnst mér nágranni minn hafa valið sér undarlegan tíma til að hlusta á harða elektrómjúsík í sínu allra hæsta.]

En fyrst sumarvinnan mín er að verða búin þá þýðir það að ég er búin að fara til elsku Kóngsins með elsku Kórus. Sjá dæmi:

Maddömukvartett Hamrahlíðarkórsins grínar fyrir utan Óperuna


Sópranmafían leggur á ráðin


Nokkrir vel valdir tenórar og hreinn afbragðsbassi


Og fyrst að ég er búin að fara til Kóngsins og sumarvinnan er alveg að verða búin þá hlýtur það að þýða að á fimmtudagsmorgun muni ég halda á vita enn meiri ævintýra í örmum Karólar og New York. Þið hin verðið víst að bíða heima á meðan.