miðvikudagur, mars 28, 2007

Arcade Fire

Og þá er helgi hinnar íslensku drengja yfirstaðin. Það voru heldur mikill vonbrigði að Arcade Fire tónleikunum hefði verið aflýst því það var jú ástæða þess að flokkurinn hélt til Kóngsins. Í staðinn var mikið um söng, bjór og aðra gleði. Vei!

Mikil umræða spannst sökum klósettpappírsleysis heima hjá okkur Lólu sem og heima hjá Kakó og Clooney. Sérstaklega þegar partýið hjá Kakó og Clooney var í fullum gangi og fólk þurfti að skeina sér með nýjasta tölublaði Eurowoman. Klósettpappírinn er ekki rándýr í Danmörku, þvert á það sem margir virðast halda. Það er svo sem skiljanlegt þar sem við kaupum okkur aldrei pappír, en fyrir okkur er þetta einskonar lífsmottó. Afhverju að kaupa klósettpappírinn þegar við getum fengið hann frítt? Og þess vegna vil ég leggja ykkur línurnar í þessum klósettpappírstuldursbransa..

The Five Golden Rules of Stealing Toilet Paper

1. Það er allt í lagi að stela klósettpappír. Flestir opinberir staðir kaupa klósettpappír í magninnkaupum og engan úrvalspappír svo að það er ekki mikið peningatap að ein og ein rúlla hverfi. Ekki vera of gróf í stuldrinum þó, eins og að taka allar rúllurnar sem þið finnið á einum stað.

2. Helst á að stela frá kaffihúsum þar sem þjónustan hefur verið afburðar léleg, skemmtistöðum sem hefur þurft að borga morðfjár inná eða frá stöðum þar sem eingöngu er ljótt fólk, vond lykt eða starfsfólkið á barnum er fullt. Þ.e.a.s. á stöðum sem eiga það skilið.

3. Reynið helst að komast yfir svokallaðar verkamannarúllur, þ.e.a.s. stórar klósettrúllur sem eru í þar til gerðum klósettkössum. Þær endast lengst.

4. Skemmtilegt er að gera þetta að leik. T.d. að fara á ákveðnum kvöldum í klósettpappírsleiðangur á bodegu í nágrenninu, fara á klósettið án tösku og reyna að koma rúllunni aftur að borðinu óséður. T.d. með því að setja rúlluni á milli lappanna sértu í kjól, ofaní sokkabuxurnar, í brjóstahaldarann (búiru að svo góðum barmi) eða þar fram eftir götunum.

5. Þegar þú færð gesti skaltu segja þeim að stela a.m.k. einni rúllu fyrir þig. Svo er hægt að halda keppni hvaða gestur stelur flestum rúllum.

þriðjudagur, mars 20, 2007

Af mekanisma og öðrum mikilvægum hlutum

Flest allir veraldlegir hlutir sem ég á sem ganga fyrir einhverskonar mekanisma eru í ólagi. Tölvan mín er í gíslingu í Apple-búðinni á Vesterbrogade þar sem viðgerðarmaðurinn hefur átt ömurlegt líf og ákveðið að láta það bitna á viðskiptavinum búðarinnar (án gríns, ég er búin að sálgreina hann).
Hjólið mitt datt í roki og heldur stundum að það sé fugl. Ekki bara einn fugl. Að framan er það þröstur, hjólakeðjan heldur að hún sé önd og afturdekkið heldur að það sé einhver vorfugl. Stundum þegar ég er að hjóla á fuglaflokknum mínum fram hjá Fælledsparken þá byrja allir fuglarnir í trjánum að syngja, mér til samlætis. Það er upplífgandi.
Fyrir jól stal einhver hommi (ég er ekki fordómafull, það var í alvöru hommi) iPóðanum mínum og hef ég því verið meira og minna tónlistarlaus síðan tölvan mín bilaði. Það hefur verið glatað en núna er ég búin að fá nýjan póða beint frá New York. Það er ekki glatað. Það er geðveikt. Megaplús til Karólar.

Á fimmtudaginn kemur helmingur íslenskra karlmanna hingað til Kóngsins til að sjá Arcade Fire. Fremstur í flokki er það hjartkær Þorleifur og verður þessi helgi því tryllingur. Partý, hyggerí, almenn vitleysa, tónleikar og þar fram eftir götunum. Mest hlakka ég þó til að fara á barinn með Tobba og ræða heimsmálin. Eða bara veðrið.

Æ ágæta fólk. Ég biðst afsökunar, ég er búin að gleyma hvernig á að gera þetta. Ég skal koma mér í betra form.

laugardagur, mars 03, 2007

Working 9 to 5

Ég hafði gleymt því hvað það getur verið gaman að vinna á veitingarhúsi. Fastakúnnarnir á Borella, núverandi vinnustað mínum, eru margir hverjir stórskemmtilegar týpur. Hér eru nokkrar:

Listagagnrýnandinn er koma um fertugt sem kemur á hvaða tíma dags og fær sér hvítvínsglas, jafnvel þó klukkan sé 11.00 um morgun. Hún er mjög fabjúlöss, bæði í fasi og útliti, og reykir næstum heilan pakka af einhverjum sérinnfluttum sígarettum sem eiga vel við hana. Stundum kemur hún með köttinn sinn. Það finnst mér skemmtilegast. Ef mjög fáir eða enginn eru á staðnum, þá hleypir hún kettinum, sem heitir víst Morten, úr búrinu. Þegar hún fer byrjar hún svo að tala við köttinn eins og lítið barn "Jæja ástin mín, nú erum við að fara heim. Heyrðu, ekki setja upp svona svip. Við verðum að fara heim núna. Komdu í búrið þitt elskan mín." Þetta dregur skiljanlega örlítið úr fabjúlössleika listagagnrýnandans. Ég veit svo sem ekkert hvað hún starfar við en hef bara ákveðið að hún sé að vinna í listabransanum og sé mjög fær í því fagi.

Sænska konan utanaf landi er mjög skemmtilega halló týpa sem kemur alltaf með manninum sínum, sem er töluvert mikið hallærislegri en hún. Þau eru svona gamlir hippar sem borða mikið af ökólógísku og hugsa um náttúruna. Þau koma alltaf þegar er brjálað að gera, setjast við eitthvað af bestu borðunum og spila backgammon. Og það bregst ekki að í hvert einasta skipti kemur konan og segir okkur að kaffið sé of sterkt / of þunnt / of heitt / of kalt / of brúnt / of svart.. eða hvað sem henni dettur í hug

Bitri maðurinn kemur alltaf þegar hann er búin í eftirmiðdags-göngutúrnum sínum. Fyrst var hann ofsalega pirraður yfir því að ég væri ný. Café Au Lait-ið mitt var svo vont fannst honum. Svo að ég sagði honum að hann þyrfti ekki að borga fyrir það fyrr en ég gerði kaffið rétt. Það tókst í annari heimsókn. Svo hefur hann gert þetta að sérlegu verkefni sínu, að kenna mér að gera kaffi eftir sínu höfði.

Feiti maðurinn er alveg eins og Ríkarður Örn Pálsson, nema hann gengur um í smekkbuxum og er mjög hress. Hann kemur oft á laugardögum og fær nokkra stóra bakka af bökuðu grænmeti, sem ég veit ekkert hvað hann ætlar að gera við. Svo spyr hann alla sem eru að vinna hvort þeir vilji bjór og kaupir umgang á starfsfólkið. Skiljanlega er hann í miklu uppáhaldi hjá okkur, enda snillingur

Laurent er þó hiklaus uppáhaldið mitt. Hann er reyndar ekki fastúnni heldur kokkur. Hann er franskur, talar einhversslags hrogna-dönsk-frönsk-ensku (sem ég hef einsett mér að geta hermt eftir.. það gengur illa) og snarklikkaður. Stundum segir hann eithvað og hlær ofsalega mikið og þá hlægja bara allir með honum því að enginn veit við hvern hann er að tala né hvað hann er að segja. Svo finnst honum ofsalega gaman að standa í eldhúsinu og herma eftir hlátrinum í gestunum, helst þannig að þeir taki eftir því. Alltaf þegar hann fær drikkepengene sína hleypur hann út í kiosku og kaupir sér skafmiða, spilar í spilakassanum eða veðjar á eitthvað (því það er hægt í flest öllum kioskum á Österbro). Kærastan hans flutti til Þýsklands til þess fylgja framanum, en hún er go-go dansari. Í kvöld sýndi hann mér myndir af henni og þá skildi ég að hún var ekki svona pepp-up go-go dansari eins og á Spáni, heldur go-go dansari eins og í klám. Þegar einhver pantar lasagna þá verður hann ofsalega pirraður að fólk sé að koma á veitingarhús til að fá sér lasagna og ef einhver pantar t.d. kanínu þá verður hann ofsalega reiður yfir því að fólk geti ekki bara pantað sér lasagna.

Já, og þú, kæri lesendi er væntanlega að velta því fyrir þér hvort að ég, trúðaneminn sjálfur, tli mér ekki að segja frá einhverju merkilegra en vinnunni? Nei, það ætla ég mér ekki eins og er.. bara svona til að leiðrétta þann misskilning..