miðvikudagur, nóvember 28, 2007Ég segi það ekki nógu oft, þó svo að ég segi það oft. Mikið er kaffi gott.

sunnudagur, nóvember 25, 2007

Svona eitthvað um það að eldast

Ég, skófríkið sjálft, er hætt að hugsa hversu mikinn pening ég á og hvað það þýði mörg skópör þann mánuðinn en horfi í staðin löngunaraugum til vínglasa, bókaskápa og hnífapara og reikna út stöðu bankareikningsins samkvæmt því. En það er þó væntanlega eðlilegur fylgifiskur þess að kaupa sér íbúð og eyða ómældum, óþolandi og óbærilega löngum tíma í að taka hana í gegn.

Ég er orðin mjög spennt fyrir því að kaupa mér mitt eigið jólatré. Mjög mjög spennt.

Það er gengið yfir, gullaldartímabilið þegar ég stíg danspor á öldurhúsum bæjararins langt fram undir morgun, sef í tvo tíma, mæti eiturhress í vinnuna og endurtek svo leikinn næsta kvöld, bara eins og drekka vatn (tjah, eða bjór í þessu tilfelli). Nú finnst mér huggulegt að leigja vídjó með Karól á föstudagsdagskvöldum, leysa SuDoku yfir kaffibolla á laugardagsmorgnum, fara á listasýningar og á tónleika. Fara í sund á sunnudagsmorgnum og taka til. Og lesa. Og hlusta á Billie.

Öll spjót beinast að ellinni. Nei, samt ekki. Áðurgreind helgi hefur einungis gerst einu sinni, í morgun mætti ég eiturhress á kóræfingu kl.12 þó að ég hafi komið heim kl.7. Og í dag keypti ég mér skópar.

laugardagur, nóvember 17, 2007

Af skífuþeytingum

Stundum er mjög fyndið að vera skífuþeytir (eða lagavalameistari.. hvað sem þú vilt kalla það).

Ég er að spila Don't stop me now með Queen.
Gaur að dansa: "Don't stop me now, I'm having such a good time I'm having a boy"

Klárlega uppáhalds óskalagaafsökunin mín
"Ég er hérna með mjög stórum hópi sem erum á reunioni / í fótboltaliði / úr Breiðholtinu / í saumklúbb / í vísindaferð / á fjölskyldumóti / í steggjapartý / ótrúlega töff / stór vinahópur.. os.frv. og okkur langar svo að heyra.."

Drukkin pía: "Heyðu, getuðu spiað hadna laið hadna úú óió íí me Víser hadna þúst hadna lagið"
Maísól: "Nei, ég á það ekki"
Drukkin pía: "Jaa, altæ."

Hún sendir kærastann, vinkonuna og einhvern mann sem hún þekkir ekki til að biðja um sama lag. "Þarna lagið Úú íí óó" með Weezer. Sem ég á ekki. Kemur aftur klukkutíma seinna.

Drukkin pía "Heu, ge spilah hadna húst hadna úúóóuuíí me vísr?"
Maísól: "Nei ég á það ekki"

10 min seinna

Drukking pía: "Gespilaúúúóóííímvírs?"
Maísól: "Nei, því miður. ég á það ekki.

Spurning um að gera bara eins og Atli Viðar sagði, að spila bara alltaf Hey Ya með Outkast.

mánudagur, nóvember 12, 2007

Af Mola og margbreytileika tilverunnarÉg var 7 ára og Ásta Sóley 12 og það hafði víst bortist til tals á lúðrasveitaræfingu að ein klarinettustelpan ætti kött sem væri nýbúin að eignast kettlinga. Við systurnar settum upp hvolpaaugun, héldum á fund foreldra okkar og lofuðum að sjá alfarið um að hugsa um kisu. Í kjallara, bakdyramegin í hvítu og grænu bárujárnshúsi völdum við svo lítinn, svartan og kafloðinn kettling. Gott ef það var ekki rigning þetta ágæta kvöld og ég í gulum stígvélum. Kolamoli hét hann svo, skírður eftir naggrís frá Hafnafirði, en þó alltaf kallaður Moli.

Eftir að hafa eytt viku undir ískápnum eða inní pottaskáp fór hann að þora að koma fram. Og fljótlega hætti hann að passa undir ískápinn og hvað þá inní pottaskáp því þvert á öll fögur loforð okkar systranna var það alfarið í höndum mömmu og pabba að gefa Mola að borða. Það dugði að sjálfsögðu ekkert annað en sérstakur Molafiskur, heimagerður kattamatur, sem sá til þess að Moli stækkaði og stækkaði og varð svo stór að fólk hélt stundum að hann væri hundur. Við kölluðum hann bara heimilisljón.

Moli var svo að segja örverpið á heimilinu og eftir því mesta frekjan. Hann fék sérpantaða, segulstýrða kattalúgu úr þýskum katalóg, sem þá var algjört nýbreytni á Íslandi. Þó með tímanum hætti hann að nota lúguna og vældi fyrir utan þar til einhver kom og opnaði útidyrahurðina fyrir honum. Jafnvel um miðja nótt. Hann varð sármóðgaður ef ekki var til fiskur og ætlast var til þess að hann borðaði Whiskas í eitt og eitt skipti. Hann átti sérstól og á seinni árum m.a.s. sérherbergi. Svo var auðvitað slegist um að fá að knúsa hann og kjamsa og grátið sáran yfir því að hann mætti ekki gista til fóta.

Hið stórundarlega gerðist að þegar fólkið á efri hæðinni flutti inn kom annar köttur, Maríus, í húsið. Hann var alveg eins og Moli. Stór, svartur og loðinn. Svo kom í ljós að þeir væru bræður. Fólk rak oft upp stór augu þegar það hafði mætt Maríusi úti á tröppum og hitti svo Mola, sem var alveg eins, inni í stofu örfáum sekúndum seinna. Og þess vegna einkenndi það alltaf Valhúsbraut 33, heimilisljónin tvö í tröppunum. Annar tignarlegur og hugrakkur (það var að sjálfsögðu Moli) og hinn skræfa með grátt í makkanum.

Og mikið skipti hann þó miklu máli. Í nokkur ár þjónaði hann tilgangi vekjaraklukku. Á morgnanna, þegar ég hafði slökkt á klukkunni, kom hann uppí og beit mig í tærnar þar til ég fór fram úr. Hann gafst reyndar uppá því, enda örugglega eitt vanþakklátasta starf heimilisins. Án minnar vitundar fylgi hann mér alltaf til Karólar á yngri árum og sat og beið svo í nálægð við húsið svo hann gæti fylgt mér aftur heim. Oft skældi ég líka á hinum stórkostlegu dramatísku unglingsárum með Mola í fanginu, skilingsríkari en allt. Og þegar ég var alein heima var hann algjörlega ómissandi sem varðköttur.

En svo varð hann gamall og blindur, enda orðin 18 ára. Hann hætti að vera stór og feitur, varð lítill og renglulegur og mátti ekki lengur fá Molafisk heldur var settur á sérfæði. Hann svaf allan daginn og vældi með sjálfum sér eins og gamla fólkið gerir. Stundum varð ég m.a.s. að lyfta honum uppí sófa, því hann gat ekki stokkið þangað sjálfur.
Svo fór ég til Kína og þá dó Moli minn. Mikið er það undarlegt, heimilislífið, án hans. Það er skrítið að hitta Maríus fyrir utan. Ósjálfrátt skil ég útidyrahurðina eftir opna því ég býst við því að Moli fylgi í humátt á eftir mér inn. Stundum verð ég hissa þegar ég finn hann hvorki inní í herberginu sínu né frammi í stól. Það er þó verst að vera ein heima, því nú er ég alveg alein heima. Ef ég horfi t.d. á of mikið af sakamálaþáttum um blóðug morð og hrottalegar nauðganir verð ég vænusjúk og viss um að fyrir utan leynist einhver sem hefur einsett sér að drepa mig, sér til yndisauka. Vanalega, undir slíkum kringumstæðum, hefði ég læst mig inní herbergi með Mola til fóta og fylgst vel með, hvort hann tæki eftir einhverju. En nú ligg ég alveg ein með sængina uppað nefi og hver vindkviða vekur hjá mér ugg um að nú komu hann, vondi kallinn. Og þegar mamma og pabbi voru í Danmörku um daginn var það ekki fyrr en ég var búin að keyra alla leið að Eiðistorgi frá Leifi í málingargallanum, að ég uppgötaði að ég þyrfti ekkert að fara heim að gefa Mola.

Aldrei mun nokkur kisa fylla í skarð heimilisljónsins.

sunnudagur, nóvember 11, 2007

OK skiluru!

Einhvern vegin hafa öll tækjamál endað á mér í vinnunni undanfarna mánuði. Kannski vegna þess að ég kunni þessa basic hluti; XLR snúra, rca snúra, Jack snúra, input/output, treble.. Svo ég vílaði það ekki fyrir mér að læra á risa 16 rása mixer með allavega 107 mismunandi tökkum og græja söngkeppnina með hljóðfærum og öllu tilheyrandi. Það gekk svona, allavega klikkaði ekkert og hljóðið var s.s allt í lagi, svona allavega fyrir byrjanda. Svo kepptum við í undankeppni söngkeppni Samfés í gær og allt fór í fokk. Það heyrðist ekkert í Korgnum, tölvan hljómaði eins og úr dós, söngurinn var of lágt stilltur, gítarinn of hár og allt alveg ömurlegt. Svo mínir menn (sem eru algjör krútt og í fáránlega töff elektróbandi sem er bound to be famous) fengu að spila aftur í lok kvölds, í þetta skiptið tengdi ég tölvuna og sagði svitalyktinni, sem hafði tekið á sig form hljóðmanns, að hækka í þessu og lækka í hinu. Svo byrjaði að ískra í gítarnum "Þú verður að lækka í gain-inu" segi ég, "Gaininu? OK". Svitahljóðmaðurinn byrjar að fikta í einhverjum tökkum. "Nei, ekki í bassanum, í gain-inu" "Já einmitt" svarar hann og heldur áfram að snúa hinum og þessum tökkum, þó aðallega á öðrum rásum. "Gain-ið er sko hér" segi ég og bendi honum á takkann. "Ha. Já. Ok." Ég fann hvernig ég er að breytast hægt og smátt í sveittan mann í kakhi buxum, bol merktum Landsbankahlaupinu 1998, íþróttaskóm úr Hagkaup, með gleraugu, fitugt hár, farsímann í beltinu og byrgðir af tómum kókfloskum í aftursætinu á bílnum.

Djöfull er ég með fine krakka sem eru sjúklega skemmtileg. Hugsa að ég gefi bara þetta 24 ára rugl uppá bátinn og gangi aftur í 9. bekk. Ég er kannski ekki besti starfsmaður í heimi. Ég espi þau upp í gamnislag, borða allt nammið þeirra og stundum tala ég alls ekki fallega við þau. Það var t.d. hreystikeppni á laugardagsmorguninn og þau vildu ekki út að styðja við sína keppendur og voru öll með væluna. Ég var að fara á fund og nennti ekki þessu rugli "Ef þið drullið ykkur ekki út núna og öskrið úr ykkur lungun til að styðja strákana, þá fokking drep ég ykkur!" Þau unnu að sjálfsögðu bikar fyrir að vera besta stuðningsliðið!

Og Kaffibarinn my ass, þegar maður getur eytt laugardagskvöldi á balli með DJ Óla Geir og Andra Ramirez sem spila LoveGuru og allt heimsins versta teknó í sínu eigin fáránlega remixi (mér þó til mikillar skemmtunar). Ég var að reyna standa fyrir því að allir myndi öskra "Óli Geir, úr að ofan! Óli Geir, úr að ofan!" Ég var greinilega ein um þann áhuga.

fimmtudagur, nóvember 08, 2007

Af sjálfs síns heimsku - taka tvö

Ekki veit ég hvort að það sé vegna þess að ég hef mikið að gera. Ég skipulegg gleðigill. Ég fer á kóræfingar. Ég mála Leif og flyt sem betur fer til hans bráðlega. Ég vinn. Alltaf. Alla daga. Og nætur. Og kvöld. Og helgar. S.s. ég er alveg eins og hinn hefðbundni íslendingur sem labbar Bankastrætið með kaffi í röltbolla, talar í farsímann, með fullar hendur af pappírum og heilsar öðrum hverjum manni á götunni. En engu að síður held ég að ég sé endanlega orðin óviti.

Og hverjar eru ástæðurnar? Jú sjáiði til. Ég lagði af stað í vinnuna um daginn og áttaði mig á því, í tröppunum fyrir utan húsið mitt, að ég var í einum skó. Það var rigining. Þegar ég var komin langleiðina í vinnuna snéri ég við þegar ég uppgötaði að ég var brjóstahaldaralaus (fyrir ykkur sem eruð kunnug þrumutúttunum mínum þá er ekkert grín ef ég fer óafvitandi brjóstahaldaralaus út úr húsi). Nú, þegar ég komst svo loks í vinnuna, í öllum þeim flíkum sem ég átti að vera í, vildi ég að sjálfsögðu fara úr jakkanum. Það reyndist strembið og ég reyndi hvað eftir annað að draga mig úr annari erminni. "Ég skil þetta ekki! Ég kemst ekki úr jakkanum, í alvöru. Hann er bara fastur!" sagði ég við Nillu, samstarfskonu mína. Svo byrjaði ég að roðna og skammast mín. Jakkinn var renndur upp í háls og öllum 10 smellunum á hettupeysunni, sem ég var í innan undir, var kyrfilega smellt aftur.

Kannski ætti ég bara að hætta að klæða mig yfir höfuð (þetta er fyndin tvíræðni)?

fimmtudagur, nóvember 01, 2007

Af draumförum, ekki samförum

Það hefur komið fyrir þónokkuð oft undanfarið að þegar ég vakna [og er ekki að hugsa um hvað mig langar að gefa styttu af Jesús high-five] þá er ég óstjórnlega pirruð út í þýska konu. Kona þessi býr fyrir ofan mig í draumaþáttaröð sem mig dreymir þessa dagana. Aðalpersónur í henni erum við Þremenningasambandið sem búum saman í úthverfi í Hollywood á Spáni í pínulítilli íbúð sem hefur verið innréttuð af mikilli natni í stórkostlega ljótum seventies stíl. Í hverjum draumi erum við að skipuleggja eitthvað ótrúlegt, syngja á tónleikum með Leoncie og Ringo Starr, spila landsleik með ungverska fótboltaliðinu á Maracaná í Rio, fara í tökur á raunveruleikaþættinum okkar sem fjallar um bandarískar húsmæður sem giftast eþópískum þrælum og flytja til Kóreu o.s.frv.

En það bregst ekki að þegar við erum á leið á atburðinn sjálfan, erum tilbúnar í synchronized ofurhetjugöllunum okkar [sem ég hef ekki enn skilið hvernig okkur tekst alltaf að fá Kakó til að fara í], stöndum í hurðinni og bíðum eftir þyrlunni þá mætir nágranninn. "Maisol, you take ze baby now ja? Und ze dog ja? Very gut". Og ég fer inn, úr gallanum og upp að passa. Ég veit ekki hvort að þessi kona er einhvers konar landlord, en ég segi allavega aldrei annað en "Yes Catarina". Stundum lofar hún að vera komin í tæka tíð, svo ég ná ég nái nú á stórviðburðinn, en alltaf sit ég með barnið grenjandi í fanginu og helvítis smáhundinn geltandi að horfa á Lólu, Kakó, Ringo Starr og Leoncie í sjónvarpinu. Eða alveg þar til ég vakna, sjóðandi ill út í Catarinu, barnið og smáhundinn.