þriðjudagur, október 26, 2004


Marilyn Monroe var hress og kyntokkafull í kvöld..
Picture blog sent by Ragga Plögg
Powered by Hex Blogphone
Airwaves

Það er alveg merkilegt með sumt fólk hvað það er ótrúlega leiðinlegt. Bara virkilega drepleiðinlegt fólk sem missir aldrei út úr sé svo mikið sem hálfa setningu sem er fyndin. Svo er líka til fólk sem lyktar ótrúlega illa, alltaf. Jafnvel þó að það sé nýstigið út úr sturtunni, þá lyktar það bara illa. Og svo er til fólk sem er bara ljótt. Bara virkilega ljótt.

En svo er til fólk sem er svo kúl að maður gæti dáið. Og það er kúl án þess að vera eitthvað mikið að reyna að vera geðveikt kúl. Það er bara svona virkilega kúl fólk. Og þegar maður er að tala um þetta fólk þá segir maður kannski "Já einmitt, hann / hún er svo kúl" bara vegna þess að það er satt.

Það var mikið af þannig fólki að spila á Airwaves. Og ég nenni ekki að fara telja það allt upp en verð þó að segja að mest kúl af öllum voru Gus Gus. Þau voru svo kúl að ég held bara að ég deyji.

Meira vil ég ekki segja um Ariwaves. Nema að þetta var allt frekar magnað. Bless

miðvikudagur, október 20, 2004

Óeðli

Suma daga fyllist ég einhverju óeðli. Óeðli sem ég bara skil ekki. Þá langar mig að gera eitthvað rosalega ljótt.
Í sumar var ég t.d. í sundi og þá langaði mig skyndilega til þess að pissa í laugina og fara svo upp úr. Bara vegna þess að í hálfa minútu fannst mér fyndið að ég myndi standa á bakkanum og horfa á fólk baða sig í pissi. Ég pissaði samt ekki í laugina. En ég hugsa að fólkið hafi hvort eð er verið að synda í örlitlu magni af pissi.
Eftir að hluti kórsins söng í sænska sendiráðinu þá voru sendiherrahjónin að kveðja alla með handabandi. Þau stóðu þarna virðuleg í útidyrahurðinni og sögðu að við hefðum sungið undursamlega. Þau voru óttalega sænsk og sæt. Og allt í einu langaði mig rosalega til þess að skyrpa í hendina á mér áður en röðin kæmi að mér að taka í hendina á sænska sendiherranum. En ég gerði það að sjálfsögðu ekki.
Og í gær beið ég á rauðum ljósum og þá fylltist ég skyndilega óstjórnlegri löngun til þess að keyra aftan á bílinn fyrir framan mig, og helst bakka á þennan fyrir aftan mig, algerlega að ástæðulausu. En ég gerði það ekki.

Það er spurning hvernær ég missi mig og geri hlutina..

þriðjudagur, október 19, 2004

Bloggað undir rós

Ég hef aldrei verið jafn fegin og nú að brjóstin skulu ekki vera staðsett á enninu. Takk fyrir það. Það er bókað mál að nú skal tekin pása á þessu rugli og í staðinn stríðinu sinnt almennilega. Og það væri fínt ef ég þyrfti ekki lengur að merkja hlutina. Þá væri hausverkurinn e.t.v. aðeins minni.

miðvikudagur, október 13, 2004

Hjólið mitt og ég

Í dag reyndi ég að gerast hjólakona. Það gekk ekki vel. Ég barðist við vindinn úti á Nesi sem var svo mikill að ég þurfti að leggja mig alla fram við að hjóla niður brekku. Á endanum gáfumst við hjólið upp og tókum strætó niður í bæ. Þegar ég hjólaði heim var rokið hætt. Í staðinn hjólaði ég á menn sem voru á gangi fyrir framan Jón Sigurðson og datt af hjólinu. Ég var heldur vandræðaleg þegar ég bað þá afsökuna. Þeir voru hressir. Ég heimta:

a) eilífan meðbyr
b) eilíft niður í móti, líka á bakaleiðinni. Það er miklu skemmtilegra
c) ekkert fólk sem hægt er að hjóla á
d) rautt hjól með brúnni bastkörfu

Annars ætla ég að geyma blogg í boði samtals okkar Mörtu og Hrafnhildar. Ég ætla að fá að útfæra það aðeins betur.
Bless

mánudagur, október 11, 2004

Ég mun aldrei...

Það eru nokkrir hlutir í lífinu sem ég hef heitið að gera aldrei. Sumir eru reyndar of persónulegir til þess að ég fari að telja þá upp hér. Og aðrir hlutir eru þannig úr garði gerðir að ég þarf ekki að heita einu né neinu því að ég veit að ég mun aldrei gera þá. Ég þarf t.d. ekki að heita því að fara ekki í efnafræði í Háskólanum eða pissa ekki á Monu Lísu. Einfalega vegna þess að það er svo ólíklegt að það gerist (þó að maður eigi víst að segja að maður viti aldrei hvað framtíðin beri í skauti sér).

En ég er nokkuð viss um að ég muni aldrei fá mér hund. Ég hef ekkert á móti hundum þannig lagað, en mig langar bara ekki í hund. Að sama skapi er ég viss um að ég fái mér aldrei könguló, slöngu, kakkalakka eða önnur ógeðfelld skriðdýr (ekki að sú lýsing eigi einig við um hundinn).

En það er eitt sem ég er handviss um. Ég mun aldrei fjárfesta í PC tölvu eða öðrum tölvum með Windowsstýrikerfi. Og það er eins og með hundana. Ég hef ekkert á móti öðrum tölvum, en mig langar bara ekki í þær (og að sama skapi langar mig ekki að heyra komment um gæði PC fram yfir Makkann. Mér er eiginlega orðið alveg skítsama). Auk þess finnast mér Apple tölvurnar svo fallegar. Sem og aðrir Apple hlutir, eins og iPodinn minn.

Þetta blogg er í boði samtals okkar Tobba í bílnum áðan. Á morgun; blogg í boði samtals okkar Hrafnhildar og Mörtu á klósettinu í MH áðan
Hvað ertu að gera?

Ég er óskaplega þreytt á að svara þessari spurningu. Búin að svara henni í eitt og hálft ár. Ég spyr samt að þessu æði oft. Of oft kannski.

Ég er að vinna á Lækjarbrekku á kvöldin og er í næturvinnu á þremur skemmtistöðum (telst þó sem ein vinna). Auk þess er ég að taka myndir fyrir blað sem heitir Vera. Svo er ég að leita mér að dagvinnu. Eftir jól (e.t.v. í kringum 26. - 28. desember) þá ætla ég að fara til Brasilíu. Þar ætla ég að vera eins lengi og peningurinn minn leyfir. Í Brasilíu ætla ég að leika mér. Ég ætla að fara á ljósmyndaworkshop, læra að sörfa og dansa samba, skoða Amazonskóginn og hvítar strendur, læra Capoiera, taka fullt af myndum og fleira skemmtilegt. Ég er einnig búin að lofa að hitta vinkonu mína sem er í Guatemala og kannski fer ég líka og heimsæki Höllu. Þegar ég kem heim frá Brasilíu (ef ég kem einhvertíman heim) þá ætla ég kannski í ljósmyndaskóla í útlöndum.

Bara svona til þess að hafa hlutina á hreinu

þriðjudagur, október 05, 2004

Og ég man það núna.

Bifukollur er það víst.

Annars mæli ég með Carandiru. Mynd um Carandiru fangelsið í Brasilíu. Ótrúlega vel gerð og góð mynd. Er svo falleg á einhvern undarlegan hátt. Ég err að spá í að taka Brasilískar vídjóvikur. Veit bara ekki alveg hvar ég á að redda mér öllum vídjóspólunum. Spurning um að horfa bara á City of Gods alla daga. Það væri gott mál.
Sinn fífil fegurri..

Seint á sumrin verða fíflarnir að hvítum blómum. Ég hef reyndar aldrei skilið þá þörf hjá fólki í að eitra garðinn sinn með sérstöku fíflaeitri. Mér finnast fíflar bara ekkert ljót blóm. Það er gaman að búa til krans úr þeim og þeir eru fallegir á mannahausum. Auk þess eru svo fallegt að sjá risastóra. skærgula fíflabreiðu. Þá er sumarið komið.
En nóg um það, sumarið er farið. Ef það var ekki farið þá fauk það allavega burt í dag. En snúum okkur aftur að hvítu blómunum. Flestir hafa óskað einhvers með því að blása burt öllum fræjunum. Þetta virkar þó ekki svo vel, allavega ekki hjá mér. Ég fékk t.d. aldrei Nintendo tölvuna sem ég óskaði mér (þetta mun sitja brennt í mér þangað til ég dey. Helvítis Nintendo tölva), ég fékk ekki alla kærastana sem ég óskaði mér, ég fékk ekki stærra herbergi né stórt barbíhús, ég fékk ekki frið í heiminum né sól allan ársins hring o.s.frv. Og ef óskin hefði einhver tíman átt að rætast þá er ég búin að drepa það núna því maður á víst aldrei að segja hvers maður óskar sér.
En nóg um það. Ég veð víst alltaf úr einu í annað og tala miklu meira en æskilegt er. Upphaflegur tilgangur þessarar færslu var nafn þessara hvítu blóma. Fyrir mér hafa þau alltaf verið blásiblóm, blásturblóm eða dauður fífill. En hvað heita þau aftur í alvörunni. Samkvæmt fræðilegu heiti?

laugardagur, október 02, 2004

Bull

Var að koma heim úr vinnunni. Líður eins og ég þurfi að gubba. Kannski morgunógleði. Var allavega spurð að því áðan hvort ég væri ólétt (annað skiptið á stuttum tíma, spurning um að taka aðhaldið aðeins alvarlegra. Þetta er ekki sjovt eins og Daninn segir). Í staðinn fyrir að hlægja svaraði ég manninum bara játandi. Komin fjóra mánuði á leið. Þá sagði hann að það sæjist nú ekkert á mér (undarlegt, þar sem ég er nú einu sinni ekki ólétt) en ég hefði þessa óléttuútgeislun. Síðan eyddi hann löngum tíma (kannski 6 min.) í að hössla konu, fór með henni inn á klósett og kom aftur. Þau voru áhugasöm um aldur minn (21 árs), barnsföðurinn (hin fullkomni kærasti - ímyndaði kærastinn minn til 4 ára), hvar ég ætlaði að búa (í íbúðinni okkar í Norðurmýrinni), hvernig ég ætlaði að lifa af (er að vinna hjá útgáfufyrirtæki, góð vinna) og svo framvegis. Þegar þau fóru þá óskuðu þau mer alls í hins besta með barnið mitt og meðgönguna auk þess sem konan hélt kortersræðu um brjóstagjöf, uppeldi barna, fyrsta skóladaginn, bleyjuverð, hættur á heimilinu, besta barnamatinn og ýmislegt annað nytsamlegt.
Skemmtilegt.

Og talandi um að gubba. Á morgun ælta ég að póstleggja bréf sem ég skrifaði Uglu um daginn. Það er mjög langt. Og kannski skemmtilegt. Og á morgun ætla ég líka að byrja á turbotiltekt (þetta orð minnir mig á túrtappa) í herberginu. Einu sinni stóð svoleiðis tiltekt í tvö ár (frá desember 1998-janúar 1999). Svo tekur við endurskipulagnning á lífnu, sem gerist ávallt með haustinu en fer einhvern vegin alltaf í vaskinn aðeins seinna með haustinu.

Þetta er rugl. Bless

föstudagur, október 01, 2004

Ljótt

Skemmdi bloggið mitt. Kann ekki að laga það. Hjálpa mér..

Var að horfa á kappræður Kerry og Bush. Fyrir stundu síðan var Bush (a.k.a. big stupid potatohead) að gagnrýna fyrrverandi forseta Bandaríkjana (a.k.a. Clinton) fyrir innrás sem hann stóð fyrir í ákveðið land (a.k.a. sem ég missti af hvað hét). Bush taldi að Clinton hefði farið ranga leið og sagði: "He had innocent schoolchildren gunned down" (fyrir þá sem ekki skilja, sem eru engir: "Hann lét skjót saklaus skólabörn"). Er ég að misskilja eitthvað en lét Bush ekki skjóta saklaus skólabörn líka? Og reyndar bara aðallega saklaust fólk ef út í það er farið? Einnig var skemmtilegt að heyra þá bara tala um hvernig þeir ætluðu að afvopna önnur lönd, koma í veg fyrir framleiðsu á kjarnorkuvopnun (.e.t.v. svo að Bandaríkin geti yfirtekið framleiðsu á kjarnokruvopnum?), bæta og styrkja herinn, uppræta hryðjuverk í útlöndum til þess að Bandaríkjamenn gætu lifað friðsælu lífi heima fyrir, halda áfram öflugum þjóðarvörnum (líklegast með því að halda áfram að dæla pening í vopnaframleiðsu Bandaríkjanna) og fleira ofbeldisfullt, blóðugt og hræðilegt. Skemmtilegt tilbreyting því þeir minntust ekkert á þessi venjulegu heiti; lækka skatta, bæta heilbrigðiskerfið, leikskólapláss fyrir öll börn, betra skólakerfi, vernda nátturuna o.s.frv.

Eða bíddu. Nei það var ekki skemmtilegt. Það gerði mig eiginlega bara hrædda.