miðvikudagur, desember 17, 2008

Í fréttunum í dag var skýrt frá því að danski fjársvikamaðurinn Stein Bagger hefði gefið sig fram. Bagger var víst forstjóri tölvufyrirtækis á sínum tíma, áður en hann hóf feril sem fjársvikamaður. Mér fannst svo skemmtilegt að hann væri titlaður sem fjársvikamaður, svona rétt eins og það væri atvinnutitill. Ég sá svo marga grínmöguleika í símaskránni fyrir mér.

Ragnheiður Sturludóttir, svikari
Ragnheiður Sturludóttir, ruplari
Ragnheiður Sturludóttir, lygamörður

Annars er það helst að frétta að húsmóðir á Leifsgötu er að missa sig í jólunum. Búin að skreyta, búin að þrífa, búin að búa til jólkonfekt, er að klára að búa til jólagjafirnar, búin að græja jólaglöggspartý, mjög spennt fyrir fyrrnefndu jólaglöggspartýi, svakalega sátt við snjóinn og almennt til í að ræða smákökur og kakógerð á hvaða tíma sólahrings.

P.S. Listarnir Topp 10 sætustu og ljótustu vinir Ragnheiðar bíða til örlítið ókristilegri tíma

miðvikudagur, desember 10, 2008

Einhver menntaskóli hér í borg gefur út blað þar sem má m.a. finna tvo lista yfir topp 10 sætustu nemendur skólans, einn yfir stráka og einn yfir stelpur. Ég var að spá í að gera slíkt hið sama. Topp 10 sætustu vinir Ragnheiðar og kannski fylgja því eftir með Topp 10 ljótustu vinir Ragnheiðar.

Er það nokkuð ósiðferðislegt?

þriðjudagur, desember 09, 2008

Að læra

Þögn er betra en innantómt bull, ekki satt? Undanfarnar vikur hef ég byrjað á frásögn frá París, sögum úr sveitinni, hugrenningum um kreppuna og öðru álíka merkilegu. Ekkert var þó að gera sig og liggja öll bloggin ókláruð í viðjum internetsins. Ég hef einnig ákveðið með sjálfri mér að þetta blogg skal vera kreppulaust, nema um sé að ræða kreppu eins og í crêpe eins og í París. Það er því á þessum síðustu og verstu um fátt að velja..

Í haust hef ég verið í smá persónulegu side-prójekti sem krefst þess að ég á að læra. Það átti ég t.d. að gera síðustu daga. En, eins og öllum góðum námsmönnum sæmir, gerði ég að sjálfsögðu allt annað en það að læra. Í staðinn gerði ég smá vídjó. Það er víst í tísku að vlogga eins og mér skilst að það sé kallað.