Sérdeilis prýðilegt
En sú gleði! Eftir að hafa legið í bókum og ritgerðarskrifum var sálartetrið glatt með kórárshátíð. Þar var mikið borðað, drukkið og hlegið. Ungir menn kysstu hendur og kinnar ungra kvenna þeim báðum til ánægju og yndisauka. Mörg danskort voru fyllt og stundum slógust konur um dansherra. Guðrún Lára kleif frægðarstigann með sínu danskorti (sem mátti húka á milli brjósta stúlkunnar allt kvöldið) fegurðardrottningar, leikkonur og útvarpskonur rituðu nafn sitt á hennar danskort og er það nú í innrömmun Hjá Hirti. Skúli eldri og Marta yngri sýndu áhættuatriði á heimsmælikvarða (og í atriðinu sýndi Marta líka eilítið af undirbrókunum). Nokkrar eldri dömur rökræddu um hver væri fríðasti nýnemi skólans um þessar mundir, ekki náðist sameiginleg ákvörðun. Svo var skundað í leigubíl til Skúla eldri. Þar komumst við að því að Mummi er með stærri haus en flestir, ef miðað er við stúdentshúfu piltsins. Einnig fundum við málverk í eldhúsinu af tveimur reiðum kínverjum, Elvis Presley og húsi. Kalli ákvað, stuttu eftir að hafa skyrpt kveikjaranum sínum út í runna, að halda skildi uppboð á þeim hlutum sem geymdir hefðu verið á milli brjóstanna á Guðrúnu Láru. Hún sýnir það og sannar að það sparar pening fyrir okkur sem eru brjóstgóðar (eða brjóstgóðir) að vera brjóstgóðar (eða brjóstgóðir) því að við þurfum ekki að kaupa okkur veski. Eftir að hafa stórslasað Viggu með kókflösku (ekkert gott kemur frá Bandaríkjunum!) og lent í samræðum við Skúla eldri um eitthvað sem ég man ekki (Skúlafur sonur var ekki viðræðuhæfur sökum vökva sem hann hafði innbyrgt fyrr um kvöldið) héldum við Karól heim á leið. Sálartetrið var svo sannarlega hamingjusamt!
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
0 ummæli:
Skrifa ummæli