föstudagur, mars 28, 2008

Málsháttur
Eða svona semimálsháttur..

Ástin er eins konar geðtruflun, sem nær tökum á manni vegna ofmats á annari persónu.

miðvikudagur, mars 26, 2008

Frá Bolungarvík og til baka

Já hún virðist alltaf ætla að vera voðalega indæl, páskahelgin. Þrátt fyrir þá staðreynd að foreldrar mínir hafi ákveðið að afneita mér alfarið yfir heilaga páska. Ég hef ekki fengið páskaegg í hátt í áratug (sem er jú, eins og öll jesúbörn vita, hinn eiginlegi tilgangur páskanna). Mamma ætlaði eitt árið að sleppa steikinni og var mjög hissa þegar ég spurði, með tárin í augunum, hvort að ekkert yrði páskalambið. Jú, hún gæti nú s.s. alveg staðið í því veseni ef það myndi láta mér líða eitthvað betur. Síðan hafa þau oftast verið erlendis, foreldar mínir. Undanfarin ár hef ég því sjálf alltaf flúið erlendis, í von um ást og umhyggju.

Í ár flúði ég vestur, að sælukotinu Skriðu í eigu Gumma Kri. og fjölskyldu. Söfnuðurinn samanstóð af valinkunnum kempum. Fyrir utan húsbóndann og einn besta gestgjafa Vestfjarða, Guðmund sjálfan, voru þarna stödd ástkær unnusta hans, Ísa frægðarfrón, tvíburasystur hennar Saló Kastljós, Hrabba Sport og heitmaður, Ronni Steinn, MaHa í Melabúðinni, Catman, partýdýrið Harpa og Stikulás, sem kom eingöngu til að ljúga að okkur og sjá hversu ódýr og góður sopinn var. Jú og prumpa framan í Saló.

Samanlagt komum við öll með áfengismagn sem drepið hefði heila hesthjörð. Bíllinn var svo fullur af öli á leiðinni vestur að hefðum við lent í slysi þá hefðum við Hrabba drukknað í aftursætinu og látist áfengisdauða. Þar að auki mátti þarna m.a. finna landa, kampavín, romm, vodka, viskí og gin. Ennfremur var bíllinn, sem og bústaðurinn, fullur af nánast hvaða mat sem hugsast gæti. Við höfðum því um fátt annað að velja en að leggjast á beit og setjast að smá subbi. Og þá helst allt í bland. Fá okkur hafragraut og kampavín í morgunmat, hnallþóru og öl í hádegismat og tortilla og landa í kvöldmat. MaHa kom með slátur og blóðmör frá ömmu sinni. Það var soðið ásamt rófum og kartöflum í væna stöppu eitt kvöldið, í anda hinnar íslensku húsfreyju. Hrabba koma með grafinn lax, heimatilbúna graflaxsósu, gúrmei súkkulaði, páskaegg og annan munað frá mömmu sinni, sem hafði ákveðið að ganga okkur öllum í móðurstað yfir þessa helgi og hringdi oft til að athuga líðan og aðstöðu. Annað en móðir mín, sem hringdi aldrei. Á páskadag elduðum við páskalamb, kartöflur, salat, brownie og annað nammigott, sem við náðum ekki einu sinni að klára sökum ofáts.

Auk þess að eta og drekka horfðum við á stórkostlegar bíómyndir þó helst ef þær hétu eitthvað númer tvö og ef Kate Hudson lék aðalhlutverkið. Það kemur að sjálfsöðgu engin á Skriðu nema að fara í saunu til að leysa heimsvandann og ræða pólitík. Og þó, enginn vildi rífast við Guðmund Kristján fyrr en Harpa og Saló létu sjá sig. Þá var Guðmundur sáttari, enda finnst honum fátt jafn gott og smá vesen. Og fátt jafn slæmt og þetta bévítans agaleysi á ungdómnum. Við fórum líka í sund á Bolungarvík, "Nýjasta rennibraut landsins krakkar mínir" tilkynnti húsbóndinn stoltur. Svo reyndum við að spila, en Stikulás svindlaði svo mikið að við gáfumst upp á því. Nema strákarnir á Ólsen Ólsen.

Hersingin hélt auðvitað á tónleika á Aldrei fór ég suður. Það er stórkostlega gaman, enda hálfgerður hápunktur helgarinnar. Hjaltalín var yndisleg að vanda, Megas fullur að vanda, Dísa fokking geðveik og tryllt, Rottweiler í partýstuði og Fóstbræðrakórinn og Óttar Proppé gott grín. Allir voru í útilegugallanum í frystihúsinu sáttir við útikamrana og ódýran bjór og plokkfisk, börnin fremst á sviðinu ásamt tómum bjórdósum og kempur Ísafjarðar á blekuðum skalla að dansa samkvæmisdansa við rappið. Partýin vörðu að sjálfsögðu langt fram eftir nóttu. Annaðhvort á Skriðu þar sem helmingur gesta vildi hlusta á Fósbræðradiskinn en hinn helmingurinn alls ekki, sem endaði með því að helmingurinn sem var á móti hóf að syngja grín-hetjutenór með lögunum, öllum öðrum til mikillar reiði (á endanum "hvarf" diskurinn víst), nú eða þá á Ísafirði þar sem ólíklegasta fólk dróg upp sleggjur til að henda óvelkomnum úr partý og annað fólk gekk um með umferðarkeilur á hausnum að syngja Elvis. Sjálf átti ég stórkostlega spretti og hef því útnefnt yðar einlæga (já, stolið frá Moses Hightower) sem atvinnuhelgaralkahólista Leifsgötu 10. Ég stend víst fyllilega undir þeim titli.

Ég lofa myndum bráðlega, enda helgin yndisleg með enn betra fólki um borð. Guðmundur hefur víst rétt fyrir sér í gestabókinni á Skriðu, en þar skrifar hann ávallt "Hér er best að vera".

þriðjudagur, mars 25, 2008

Af kennslu

Mamma er í útlöndum og ég er að kenna börnunum hennar í staðinn. Tímarnir mínir eru einhvern vegin svona:

Í náttúrufræði

Ragnheiður: ".. og þess vegna eru 17 rafeindir á ysta rafeindahvelinu"
Barn: "Afhverju?"
Ragnheiður: "Uuu.. hérna. Af því bara..?"

-------------


Ragnheiður: ".. og þeir heita þá jarðalkalímálmar. Eða nei. Eða jú. Nei djók. Jú bíddu. Já. Það er rétt. Eða.. jú. Það er rétt. Held ég."


Í kristnifræði
Í tilefni páskanna erum við að horfa á Jesus Christ Superstar

Barn: "Hver er þetta?"
Ragnheiður: "Já, hérna... Þetta er hann þarna.. vondi kallinn."

Töff. Annars var páskahelgin stórkostleg. Meira af henni og atvinnugleðimennsku seinna. Fyrst þarf ég að vera kennari.

þriðjudagur, mars 18, 2008

Aldrei fór ég suður

Aldrei fór ég vestur. Einhver tíman er allt fyrst.
Bless

mánudagur, mars 17, 2008

Af gömlu fólki

Tvo morgna í viku koma hér nokkrir eldri menn og spila billiard. Þeir hata mig. Í alvöru. Í haust fór ég til læknis einn morguninn og kom þess vegna í vinnuna seinna en venjulega, þó ekki of seint, og mætti einum þeirra í hurðinni. Hann er þessi stundvísa týpa sem er mættur a.m.k. 10 min. á undan öllum öðrum. Síðan þá hefur hann alltaf sagt eitthvað á þessa leið:

"Hva' bara harkan sex? Mín mætt í vinnuna?"
"Já væna, þú hefur bara ákveðið að drífa þig á lappir í morgun og kíkja á okkur? Flott hjá þér!"
"Nú, mátti prinsessan fara út í morgun?"
"Hvað, er eitthvað sérstakt tilefni?

Alltaf. Hvern einasta morgun. Í allan vetur. Alveg sama klukkan hvað ég er mætt.

Ég helli alltaf uppá kaffi fyrir þá. Það verður að vera komið inná borð í síðasta lagi 10 min. yfir 10. Annars riðlast öll dagskráin hjá þeim og það þarf að endursetja gangráðinn og gefa þeim hjartapillurnar. Um daginn var ekki til mjólk og var reyndar ekki búin að vera til í viku (því að við eigum aldrei neitt í ísskápnum vegna þess að við borðum aldrei hérna). Þetta var mjög erfitt tímabil fyrir gömlu mennina. Í fyrsta skiptið sagði ég þeim að það væri því miður ekki til mjólk í kaffið. Samt fóru þrír inní ísskáp að leita. Í annað skiptið sagðist ég ætla að fara fá lánað mjólk og einn hreytti í mig "Já, þó minna væri. Hún ætti nú auðvitað bara að vera til!". Þegar ég kom svo með mjólkina sagði sá hinn sami, mjög móðgaður "Afhverju ertu að stand í þessu bölvaða veseni fyrir okkur?". Svo fussaði hann og sveiaði. Og fékk sér mjólk í kaffið. Undanfarið hef ég bara komið með mjólk að heiman. Í pela. Já, ég veit. Það er mjög skrítið.

Þeir eru líka mjög duglegir við að láta mig vita þegar eitthvað er að. Dúkurinn er lélegur, battinn er glataður, vasinn er ónýtur, kaffið er ekki tilbúið, endabrettið er drasl, mjólkin er búin, hækjan er týnd, hækjan er ljót, hækjan er biluð o.s.frv. Þessi blessaða hækja var næstum búin að koma í veg fyrir hátíðlegt jólahald á sumum heimilum býst ég við. Hækjan sjálf (hækja er svona "hjálpartæki" í billiard) hafði dottið af kjuðanum og týnst. Ég fann hana í jólahreingerningunni á bak við ofn. Þá þurfti að laga hana. Venjulegt lím dugði ekki. Það þurfti trélím. Við stöllurna höfðum ekki komist í að kaupa trélím og einn morguninn spyr einn sá gamli, mjög góðlátlega "Á ég ekki bara að taka hækjuna með mér og laga hana?" "Ha, nei nei, það er nú algjör óþarfi. Við verðum búanr að laga þetta fyrir fimmtudaginn" svara ég. "Ja það er nú ekkert mál" segir hann, í hlýlegum afatóni. "Já þú mátt það gjarna ef þú vilt". Þá verður sá gamli skyndilega mjög önugur og hreytir í mig "Ja, ég myndi nú helst vilja sleppa því, ef ég gæti komist hjá því! Ha!"

Þetta hlýtur bara að vera partur af því að eldast. Nei, samt ekki. Þeir eru alltaf mjög indælir og afalegir. Þetta er frekar hluti af því að vera á gelgjunni. Ég er bara þreytt, veik, í fýlu og bitur á mánudagsmorgni. Húsmóðir á Leifsgötu fór í heimsreisu til Köben, Amsterdam og Barcelona, við Clooney fórum að sjá hryllingsmynd og ég sá afmynduð börn í hverju horni og óhreina diska og nærbuxur út um allt. Þau liggja bara svo vel við höggi, gamalmennin.

sunnudagur, mars 02, 2008

Fyrir ykkur sem vitið ekki hver Vignir, hér er hann, mjög fabjúlöss í París.

Þakkir dagsins

Partýstuð-róninn sem er svo svakalega sáttur við tónlistina mína að hann dansar eins og villtur partýstuð-róni hér gjörsamlega aleinn á dansgólfinu. Núna er hann t.d. að þykjast vera á surfbretti. Og núna er hann að líklega að taka reyna að taka "tjernóbíl-barnið". Ég þori bara ekki alveg að fara með það.