Afskiptaleysi og kaldhæðni
Þar sem við gengnum tvær eftir skóla á leið í kvöldkaffi og ræddum um jólagjafir og komandi verkefni mættu okkur fleiri rónar en venjulega. Og þegar við beygðum inn Pósthússtrætið komu þrír gangandi á móti okkur og innan skamms voru tveir þeirra farnir að berja þann þriðja. Fólkið sem sat inni á Kaffi París horfði á út um gluggann og fylgdist með og hélt svo áfram að ræða um hvaða jólagjafir það átti eftir að kaupa. Svo virtist vera sem að okkur hefði einum dottið í hug að hringja á lögregluna. Það tók þrjár til fjórar mínútur að fá samband í gegnum 112, það tók alls sex hringingar þar til lögreglan svaraði og þá tók hana fimm mínútur að skilja að við þekktum mennina ekki neitt heldur vildum bara tilkynna að verið væri að berja mann í Pósthússtrætinu fyrir utan Apótekið. Þá var þriðji maðurinn orðinn alblóðugur og lá í götunni þar sem hinir tveir stóðu yfir honum og spörkuðu ákaft í andlitið á honum og maga. Tíu mínútum seinna kom lögreglan. Þá höfðu þessir tveir fengið útrás sinni fullnægt og voru horfnir á braut. Sá þriðji hafði staulast burt út í myrkrið á Austurvelli, haltrandi og blóðugur. Stéttin og húsið voru útötuð í blóði og fólk fór hinu megin við götuna til þess að skíta ekki út jólaskónna. Það var nú aldeilis gott að það var rigning svo að blóðið skolaðist burt og enginn rann á rassinn í blóðpollunum, svona mitt í jólastressinu!
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
0 ummæli:
Skrifa ummæli