mánudagur, desember 08, 2003

Að gefnu tilefni langar mig að birta hér blogg sem að ég birti fyrir einu ári og einum degi síðan. Þetta blogg er einmitt svona smá sýnishorn af bókinni sem ég er að skrifi sem ber vinnutitlana "Listin að vera góður viðskiptavinur" og "Dining Out For Dummies".

10 reglur þegar borðað er í hlaðborði

1. Það á alltaf að vera til nóg af mat þannig að enginn þarf að örvænta að koma síðastur og þá verði allt búið. Þetta kerfi kallast áfyllingar.
2. Það á ekki, ég endurtek, alls ekki að fara aftur að borðinu fyrr en allir hafa farið einu sinni. Þetta kerfi kallast kurteisi. Einnig er ekki ráðlagt að allir fari í einu. Séu t.d. 78 manns saman í jólahlaðborði þá þýðir það einfaldlega að fólk bíður í langri röð í langan tíma. Best er að 5-7 manns séu við hlaðborðið hverju sinni.
3. Ef það er súpa í boði þá er hún nær alltaf til þess að borða fyrst, ekki síðast á eftir öllu.
4. Það er nóg að taka 2-3 tegundir á diskinn í hvert skipti en ekki graflax, nautatungu, kalkún, rauðvínssósu, eplaköku, rúgbrauð, súpu, skinku, grænar baunir, síld, grjónagraut, kartöflusalat, brauð, andalundir, berneisósu, hreindýrakjöt, purusteik, vanillusósu og ost og hræra öllu saman. Í hlaðborði er ætlast til þess að fólk sé á stöðugu rápi fram og til baka úr hlaðborðinu í þó nokkurn tíma.
5. Ef að búið er að klára allan mat á disknum og þess er óskað að diskurinn sér fjarlægður þá er tvennt hægt að gera í stöðunni:
a) Láta hnífapörin vísa á kl. 3
b) Leggja hnífapörin á servéttuna
Hins vegar skal taka fram að það er ekki bráðnausynlegt að fá sér nýjan disk. Hafi t.d. eitt laufabrauð verið snætt af disknum þá má nota hann aftur.
6. Ef tvenn sett af hnífapörum eru þegar lögð á borðið skal muna að taka hnífapörin af disknum ef aðeins eitt sett er eftir og áframhaldandi át er á dagskrá. Hinsvegar er sjálfsagt að útvega ný hnífapör er hinn notuðu eru kámug og ógeðsleg.
7. Sé önnur ferð áætluð í hlaðborðið og diskurinn hefur enn ekki verið fjarlægður þá á að vera nóg að standa upp frá borðinu. Það er ekki æskilegt að taka diskinn með og leita þjóninn uppi til þess að afhenda honum óhreina diskinn. Það er þó enginn regla sem segir að diskurinn skuli aðeins notast einu sinni.
8. Öllum ber að njóta þess að borða góðan mat. Það á því helst að borða hann hægt og rólega en ekki skófla öllu í sig með skeiðinni sem fylgdi súpuskálinni.
9. Öllum ber að njóta þess að drekka gott borðvín. Borðvín er kallað borðvín vegna þess að það er til þess að skola niður mat og gefa annað og öðruvísi eftirbragð, örva bragðlaukana til þess að njóta matarins betur. Borðvín á því ekki að svolgra af stút um leið og flaskan kemur á borðið. Borðvín er ekki landi. Þetta virðist vera algengur miskilningur hérlendis
10. Ávallt skal sýna þjóninum mikla virðingu. Hann er viðkvæm sál. Í langflestum tilfellum má rekja dónalega og leiðinlega þjónstu til þess að viðskiptavinurinn er dónalegur og leiðinlegur.

Takk fyrir.

0 ummæli: