miðvikudagur, febrúar 25, 2004

Bömmer

Það eru a.m.k. tveir hlutir í þjóðfélaginu sem að fær fólkið á bakvið hlutin til þess að fara á bömmer. Þetta hef ég uppgötað síðust daga. Þessir hlutir eru reyndar að verða óskaplega hversdagslegir (kannski einum of hversdagslegir).

Bömmer eitt
Að vera rithöfundur og sjá bókina sem að þú gafst út fyrir jólin á útsölu á 70% afslætti. Sérstaklega ef að þú hélst að þetta væri virkilega góð bók sem væri bara að seljast alveg þokkalega.

Bömmer tvö
Að vera foreldri og barnið þitt, yfir átján, tekur þá sjálfstæðu ákvörðum að fara í lýtaaðgerð. Ég færi allavega á bömmer yfir því að krakkabjáninn sé ekki ánægður með sköpun mína. Svona rétt eins og Eva hefði kannski sagt "Djöfull er asnalegt að vera með hendina hér. Ég ætla að skipta og setja hendurnar þar sem lappirnar eru og lappirnar þar sem hendurnar eru". Þá held ég að Guð hefði farið á bömmer.

föstudagur, febrúar 20, 2004

Ég hef mjög líklega brotið lög
Ég fullyrði að starf mitt sem ljósmyndari hefst ekki vel

Í dag fór ég í fyrstu tökuna fyrir blað sem ég er byrjuð að vinna aðeins fyrir. Myndatakan átti að fara fram í Laugarnesskóla og þeir sem hafa þangað komið vita eflaust að allar útidyrnar eru alveg eins. Fyrir "útlending" eins og mig er erfitt að átta sig á því hvaða dyr maður á að nota. Ég ákvað bara að elta einhverja litla stráka sem voru að koma út leikfimi og gekk því inn í skólann. Á veggnum hékk miði sem á stóð "Allir úr skónum!" og ég gerði mig líklega til þess að renna niður stígvélunum. Á því augnabliki rak ég augun í ungan dreng sem stóð á móti mér og starði á mig skelkaður. Og rúmlega hálfu augnabiliki síðar rak ég augun í leikfimiklefann sem að ég stóð nánast inni í og var fullur af hálfberrösuðum drengjum á grunnskólaaldri, og með grunnskólaaldri meina ég 9 ára og yngri. Ég hafði því ekki elt stráka sem voru að koma úr leikfimi heldur unga saklausa drengi sem voru á leiðinni í leikfimi. Ég dreif mig að sjálfsögðu út þegar ég hafði áttað mig á þessum vandræðalegu (og vafalaust ólöglegu) aðstæðum sem að ég hafði komið mér í. Hurðin var hafði varla lokast þegar heyrðist kallað hátt og snjallt "Oj! Það var kona hérna inni". Ég flúði öskrin sem á eftir fylgdu.
Ég vona innilega að enginn hafi hlotið varanlegan andlegan skaða af og að enginn muni segja foreldrum sínum frá þessu með nákvæmum útlistlýsingum á mér.

fimmtudagur, febrúar 19, 2004

Krónísk ritvilla

Ég stend í bankanum klukkan 15.59, eina mínúta í lokun. Ég sé að bankakonan er hundfúl út í mig fyrir að hafa ekki farið í annan banka þar sem er lokað klukkan 17.30. Í flýti krota ég nafnið mitt á framsalið á ávísunni. Ég verð nokkuð hissa við útkomunan. Þetta er ekki nafnið mitt, þetta er eitthvað allt annað nafn sem að ég skil ekki. Þarna standa saman Ghnaiðure Tórlistutudr í einhverri óskiljanlegri klessu og ég reyni í flýti að lagfæra párið svo að það líti nokkurn vegin út eins og nafnið mitt. Ég er svo hissa á þessu stafarugli að ég gleymi seinni hluta kennitölunnar, hvort kemur 7 fyrst eða 9? Og eftir þetta er mér svo um og ó að ég skrifa óvart húsnúmerið hjá Karól en ekki sjálfri mér. Ég krota yfir 23 og set 33 í staðinn. Og ég verð ekki hissa þegar bankakonan tekur við ávísuninni með ákaflega vafasömum svip, lítur á mig augnablik, slær inn kennitölu og biður mig svo um skilríki.
Ætli ég sé á freudískann hátt að afneita nafni mínu og ekki í fyrsta sinn!

Annars verð ég að bæta einu inn á æskulistann minn. Ég mundi þetta eftir nýlegt blogg hjá Tobba

- Smarties auglýsingin Það var einhver krakki sem ætlaði að fá sér Smarties en í staðinn fann hann risastóran Smartieshólk, fór inn í hann og inni fyrir var rosa diskótek. Allir voru í geðveikt flottum 80's fötum með tagl til hliðar og svoleiðis. Mér fannst þetta alveg geðveikt og vildi endilega fara á svona Smarties diskótek. Einnig man ég vel eftir litlu Smartieskössunum sem að voru í öllum barnaafmælum.

Man einhvern annar gamlingi á mínum aldri eftir þessu?

mánudagur, febrúar 16, 2004

Innanbæjarpólitík

Allt í lagi, þetta er síðasta færslan í febrúarmánuði sem fjallar eingöngu um pólitík en ég bara get ekki orða bundist! Nú hef ég búið rúmlega 85% af ævinni á Seltjarnarnesinu. Ég er reyndar ekki hin týpíski Seltjarnarnesbúi. Ég er ekki í Gróttu og mér hefur ekki einu sinni komið til hugar að ganga til liðs við Gróttu. Ég hef aldrei verið í lúðrasveitinni. Ég styrki ekki Gróttu um dósir, ég kaupi ekki af þeim klósettpappír (versla hann af Hamrahlíðarkórnum), ég fer ekki á þorrablót, konukvöld, kökubasar, golfdag eða neitt slíkt. Ég hef aldrei verið í Nesfréttum og ég veit ekki hvað allir á Nesinu heita. Og síðast en ekki síst þá er ég ekki hægrisinnuð. Það er hins vegar stór hluti bæjarbúa. Og í Nesfréttum, sem kom inn um lúguna í dag, skrifar fyrrverandi forseti bæjarstjórnar grein sem er svo uppfull af staðreyndarvillum að það er alveg ótrúlegt. Það má reyndar deila um hvort þær séu staðreyndar villur eður ei, en að mínu mati eru þær það. Og hér kemur dæmi:

"Það er flestum ljóst sem búa hér í bæ að um stjórnvölinn heldur traustur og öflugur meirihluti í bæjarstjórn. Framkvæmdir bera þess merki að hann fer að óskum bæjarbúa og vinnur skipulega að því að gera góðan bæ betri. [...] Unnið er markvisst að endurbótum á ýmsum málaflokkum eins á skóla- og öldrunarmálum"

Skólamálið hef ég lítillega minnst á áður. En bara svo allt sé á hreinu þá ætla ég að fræða ykkur lítillega um það. Bæjarstjórn (eða réttarasagt þessi trausti og öflugi meirihluti bæjarstjórnar) , ákvað að sameina skildi báða skólana. Þetta ákvað bæjarstjórnin án þess að gerð yrði nokkur athugun á því að þetta myndi ganga. Og þetta ákvað bæjarstjórnin án þess að bera þetta undir skólastjórana, kennarana né nokkura starfsmenn skólanna. Þessa ákvörðun sína rökstuddi bæjarstjórn með broti úr setningu sem tekin er úr skýrslu um skólana sem gerð var fyrir fjórum árum. Þar segir "... jafnvel má athuga nánara samstarf skólanna". Eins og gefur að skilja eru kennarar og bæjarbúar yfir höfuð heldur ósáttir við ákvörðunina. En engu að síður skal hún standa, skólastjórarnir reknir og einn skólastjóri ráðinn í staðinn. Þetta væri e.t.v. skiljanlegt ef að tilgangurinn væri að spara en svo á víst ekki að vera. Þess vegna þykir mér merkilegt að fyrrverandi forseti bæjarstjórnar þori að fara með slíka staðreyndarvillu í mest lesna fréttablaði Seltjarnarness
þar sem oft hefur komið fram að ósk bæjarbúa er að gerð verði rannsókn á málinu áður en skólarnir verða sameinaðir.

Seinna í greininni fer þessi ágæti fyrrverandi forseti að tala um fólksfækkun á Nesinu og stafi hún af því að yngra fólkið er að flytjast á brott (ekki skrítið miðað við fasteigna- og leiguverð) og eldra fólkið sitji eftir. Eitthvað þurfi að gera fyrir eldra fólkið.

"Það er mjög athyglisvert hvernig Jónmundur Guðmarsson, bæjarstjóri, hefur lagt til lausn á byggingu hjúkrunarheimilis handa öldruðum bæjarbúum sem sem þurfa góða umhyggju. Hann hefur lagt til að slíkt heimili verði beyggt með Reykjarvíkurborg, Íslenskum aðalverktökum og fleiri aðilum á Lýsislóðinni við Eiðisgranda. Með þessum hætti er hægt að koma í veg fyrir að bærinn myndi sligast undan kostnaði við að byggja og reka of lítið og óhagstætt heimili innanbæjar."

Málið er s.s. það að það er alltof dýrt að hugsa um einhverja gamla kalla og kellingar, þau standi ekki undir kostnaði og þess vegna er bara fínt að skella þessu öllu á Reykjarvíkurborg. Þá losnum við endanlega við þetta gamla pakk. Áhugavert, sérstaklega í ljósi þess að þessi forseti var að tala um fólksfækkun í bænum fyrr í greininni. Flytjum bara alla yfir 67 ára á brott. Þá getur e.t.v. hraðari og fjölbreyttari fólksfjölgun átt sér stað. Ef að ég hefði búið að Seltjarnarnesi mestan hluta ævinnar, væri kominn á hin svokallaða elliheimilisaldur, hefði borgað skatta til bæjarins alla mína tíð og e.t.v. gefið Gróttu dósir, þá myndi ég vilja fá að flytja á elliheimili á Seltjarnarnesi. Ég myndi ekki vilja flytja til Reykjavíkur, sérstaklega á jafn óspennandi stað og við hliðina á JL húsinu.

Ég gæti haldið áfram í alla nótt því að mér þykir þetta svo kjánalegt. Það kostar blóð, svita og tár að búa á Nesinu börnin góð. Anna, ég heimta komment frá þér!
Bless
Guð minn góður!

Þið verðið að afsaka allt það magn af færslum sem að ég hef ritað síðustu daga! Andinn og hugmyndaflugið er bara gjörsamlega að drepa mig!

Takk fyrir og bless.

mánudagur, febrúar 09, 2004

Ef að ég réði öllu...

Ojú.. þetta var og er fastur liður hér á síðunni. E.t.v. ekki regulegur en fastur liður engu að síður. Og nú verður hann fluttur með örlitlu pólitísku ívafi.

- Ef að ég réði öllu þá myndi ég láta byggja stórt og fallegt tónlistarhús í Reykjavík. Það yrði svo stórt og fallegt að óperuhúsið í Sydney yrði ekki lengur merkilegt. Og hvernig ætla ég svo að hafa efni á þessu, gætir þú, ágæti lesandi verið að spyrja þig. Jú, ég ætla bara ekki að byggja fleiri íþróttahallir né gervigrasvelli í bili. Ekki það að ég vanmeti íþróttir, síður en svo, mikilvægt fyrir heilsuna. En mér finnst bara ósanngjarnt að íþróttafólk eigi a.m.k. 40 íþróttahús en tónlistarfólk einungis eitt tónlistarhús í Kópavogi (húrra fyrir Kópavogi).
- Ef að ég réði öllu þá myndi ég stytta grunnskólanám. Ég hef örsjaldan heyrt fólk kvarta undan því að því leiðist menntalega séð í menntaskóla. Hins vegar kvartar þriðja hver manneskja sem ég þekki undan því að hafa leiðst í grunnskóla.
- Ef að ég réði öllu þá myndi ég lækka virðisaukaskatt á íslenskri tónlist líkt og gert hefur verið við íslenskar bókmenntir.
- Ef að ég réði öllu þá myndi ég búa til plan til þess að útrýma öllru hungri og fátækt í þriðja heiminum. Já já, ég veit, feugðrardrottingarloforðið. En plan mitt yrði svo stórkoslegt að það myndi virka og þriðji heimurinn myndi að lokum hætta að framleiða föt sem eru seld í "fyrsta heiminum" fyrir andvirði margra vikna launa í "þriðja heiminum". Þriðji heimurinn yrði bara að "fyrsta heimi" líka. Það væri nú aldeilis prýðilegt!
- Ef að ég réði öllu þá myndi ég fara og sparka í sköflunginn á George W. Bush áður en ég sparkaði honum úr stóli. Þar að auki myndi ég skipta Bandaríkjunum niður í lönd, hver sýsla yrði land, með eigin forseta o.s.frv. Þar eru reyndar nokkrir íslenskir stjórnmálamenn sem að ég myndi líka sparka í sköfluginn á sem og sparka úr stóli, en þeir verða ónafngreindir hér.
Ef að ég réði öllu þá myndi ég flytja til Brasilíu og lifa á ljósmyndun.

Takk fyrir og bless.

sunnudagur, febrúar 08, 2004

Einhver leitaði að vegatable sex og síðan mín kom upp. Og a.m.k. fimm sinnum í viku eru einhverjir sem leita að ragga og fá mína síðu einnig upp. Mig langar afskaplega mikið að vita hvað ragga þýðir og hvaða tungumál þetta er.

Annars blogga ég á morgun. Var að kaupa skó og er að æfa mig að labba á þeim (hællinn er sko 9 cm.) Nei, ég á ekki of mikið af skóm, ég á aldrei nóg af skóm!

fimmtudagur, febrúar 05, 2004

Æskan líður ung og fjörleg..

Ég ætlaði mér reyndar að blogga um hvernig ég væri ef að ég væri karlkyns en ég geymi það bara þar til seinna. Í dag eru tæpir 110 dagar þangað til að ég verð 21 árs. Ég kalla það Bandaríkjaaldurinn. Þá má ég kaupa áfengi í þeim löndum sem fara eftir Bandarísku lagakerfi. Ég má nánast gera allt nema e.t.v. fara inn á strippstaði og kannski að bjóða mig fram til forseta í sumum löndum. Engu að síðar er ég að nálgast fremur háan aldur. Það er að verða æði langt síðan ég var smákrakki, með hor í nös í gráum eitís snjógalla að renna mér á skíðum í Plútóbrekku (ég er reyndar enn með hor í nös en það er önnur saga). Og ég fór að hugsa hvað einkenndi mín æskuár. Og hér er listi yfir nokkra hluti sem einkenndi mín æsku- sem og unglingsár. Þó ekki í neinni númeraröð heldur bara í tilviljunnakenndri (er það eitt orð?) upprifjunnarröð.

- Kærleiksbirnirnir Ég var reyndar ekki með Stöð tvö en ég sá myndina alveg ótrúlega oft. A.m.k. 6 sinnum undanfarin ár hef ég líkt einhverjum sem ég þekki eða er að kynnast við vonda strákinn með rauðu augun. Innst inni, eftir að hann varð góður, var ég skotin í honum.
- Little Twin Stars Ég átti aldrei mikið af Hello Kitty dóti, bara þessa litlu engla.
- Oilily Já, ég var lítið bleikt Oilily barn. Ég var bleik, ég var mjög bleik.
- Uppblásið dót Ég átti t.d. kodda, tungl, maríuhænu (sem að Skúli erfði í sumar), myndaramma, blómavasa og hægindarstól.
- Hvítur eyeliner Bodyshop og Wet And Wilde (þökk sé foreldrum Maju) tröllriðu unglingsstúlkunum. Ég get ekki sagt að mér finnist þetta eins flott í dag og mér fannst það þá. Þá var þetta nefnilega ógisslia flott!
- HeartBreak High Mitt líf og yndi. Ef eitthvað var stöðugt í lífinu þá var það ég fyrir framan sjónvarpið á föstudögum kl. 19.00 (ef ég man rétt). Og Drazic var verðandi eiginmaður minn.
- Snuð og annað drasl úr plasti Flestir gengu með nokkur kíló um hálsinn. Ég átti reyndar bara örfá
- Loðið dót T.d. loðnar dagbækur (helst fjólubláar eða bleikar), geisladiskahulstur, pennar, myndarammar, spennur og fleiri óþarfa hlutir.
- Tamagotchi Þau sigruðu heiminn og ég fékk eitt í Danmörku sumarið 1997. Það var reyndar krakki og ég gleymdi honum í Danmörku, fékk það svo sent til Íslands og þá hafði það dáið af skít og hungri á leiðinni.
- Gangster Paradise Ég hlustaði reyndar ekki á þetta lag og fannst það ógeðslega leiðinlegt en þetta minnir mig alltaf við 7. bekk
- Scatman Þetta lag hlustaði ég hinsvegar oft á. Mjööööög oft. Líklegast til eina lagið sem að ég hlustaði á sumarið 1994 eða 1995. Flestum þætti það leiðinlegt til lengdar en það fannst mér ekki.
- Lukkutröll Vinsælasta afmælisgjöfin í barnaafmælum. Ég átti örfá, bara eitt golftröll ef að ég man rétt.
- Sápukörfurnar úr Bodyshop Vinsælasta afmælisgjöfin þegar barnaafmælin urðu meiri pæjuafmæli. Allar stelpur átti stórt safn að sápum, baðkúlum og körfum. Sápurnar voru reyndar aldrei notaðar og ég man að ég skellti einu sinni öllum baðkúlunum (þessum litlu) í eitt fótabað, ég á nefnilega ekkert baðkar. Ég hef aldrei verið jafn mjúk og illa ilmandi á löppunum.

Ahhh, those were the days. En núna, börnin góð, er klukkan orðin margt og ég þarf að fara að hvíla lúin bein. Af gefnu tilefni vil ég hinsvegar taka fram að ég talaði mun meira í gamla daga. Miklu miklu miklu meira. Þannig að þessi færsla er í rauninni ekkert löng.

mánudagur, febrúar 02, 2004

Ímyndunarfyllerí gærkvöldsins

Í gær eftir vinnu fórum við nokkur í heimahús til þess að sötra mojito og bjór. Ég fékk reyndar bara óáfengan mojito og sódavatn vegna þess að ég þurfti að keyra liðið heim. Engu að síður tókst mér að..

- skrifa nafnið mitt vitlaust. Ég skrifaði Ragnður en ekki Ragnheiður
- fá svo illt í magann að ég hélt að hann ætlaði að skila sér í heilu lagi
- sofna í sófanum og vakna ekki fyrr en í mig var sparkað

Í morgun fannst mér ég svo vera þunn. Spurning hvort að ég sé orðin svo mikil hæna að ég verði full af eplasafa?