Ég hef mjög líklega brotið lög
Ég fullyrði að starf mitt sem ljósmyndari hefst ekki vel
Í dag fór ég í fyrstu tökuna fyrir blað sem ég er byrjuð að vinna aðeins fyrir. Myndatakan átti að fara fram í Laugarnesskóla og þeir sem hafa þangað komið vita eflaust að allar útidyrnar eru alveg eins. Fyrir "útlending" eins og mig er erfitt að átta sig á því hvaða dyr maður á að nota. Ég ákvað bara að elta einhverja litla stráka sem voru að koma út leikfimi og gekk því inn í skólann. Á veggnum hékk miði sem á stóð "Allir úr skónum!" og ég gerði mig líklega til þess að renna niður stígvélunum. Á því augnabliki rak ég augun í ungan dreng sem stóð á móti mér og starði á mig skelkaður. Og rúmlega hálfu augnabiliki síðar rak ég augun í leikfimiklefann sem að ég stóð nánast inni í og var fullur af hálfberrösuðum drengjum á grunnskólaaldri, og með grunnskólaaldri meina ég 9 ára og yngri. Ég hafði því ekki elt stráka sem voru að koma úr leikfimi heldur unga saklausa drengi sem voru á leiðinni í leikfimi. Ég dreif mig að sjálfsögðu út þegar ég hafði áttað mig á þessum vandræðalegu (og vafalaust ólöglegu) aðstæðum sem að ég hafði komið mér í. Hurðin var hafði varla lokast þegar heyrðist kallað hátt og snjallt "Oj! Það var kona hérna inni". Ég flúði öskrin sem á eftir fylgdu.
Ég vona innilega að enginn hafi hlotið varanlegan andlegan skaða af og að enginn muni segja foreldrum sínum frá þessu með nákvæmum útlistlýsingum á mér.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
0 ummæli:
Skrifa ummæli