mánudagur, febrúar 16, 2004

Innanbæjarpólitík

Allt í lagi, þetta er síðasta færslan í febrúarmánuði sem fjallar eingöngu um pólitík en ég bara get ekki orða bundist! Nú hef ég búið rúmlega 85% af ævinni á Seltjarnarnesinu. Ég er reyndar ekki hin týpíski Seltjarnarnesbúi. Ég er ekki í Gróttu og mér hefur ekki einu sinni komið til hugar að ganga til liðs við Gróttu. Ég hef aldrei verið í lúðrasveitinni. Ég styrki ekki Gróttu um dósir, ég kaupi ekki af þeim klósettpappír (versla hann af Hamrahlíðarkórnum), ég fer ekki á þorrablót, konukvöld, kökubasar, golfdag eða neitt slíkt. Ég hef aldrei verið í Nesfréttum og ég veit ekki hvað allir á Nesinu heita. Og síðast en ekki síst þá er ég ekki hægrisinnuð. Það er hins vegar stór hluti bæjarbúa. Og í Nesfréttum, sem kom inn um lúguna í dag, skrifar fyrrverandi forseti bæjarstjórnar grein sem er svo uppfull af staðreyndarvillum að það er alveg ótrúlegt. Það má reyndar deila um hvort þær séu staðreyndar villur eður ei, en að mínu mati eru þær það. Og hér kemur dæmi:

"Það er flestum ljóst sem búa hér í bæ að um stjórnvölinn heldur traustur og öflugur meirihluti í bæjarstjórn. Framkvæmdir bera þess merki að hann fer að óskum bæjarbúa og vinnur skipulega að því að gera góðan bæ betri. [...] Unnið er markvisst að endurbótum á ýmsum málaflokkum eins á skóla- og öldrunarmálum"

Skólamálið hef ég lítillega minnst á áður. En bara svo allt sé á hreinu þá ætla ég að fræða ykkur lítillega um það. Bæjarstjórn (eða réttarasagt þessi trausti og öflugi meirihluti bæjarstjórnar) , ákvað að sameina skildi báða skólana. Þetta ákvað bæjarstjórnin án þess að gerð yrði nokkur athugun á því að þetta myndi ganga. Og þetta ákvað bæjarstjórnin án þess að bera þetta undir skólastjórana, kennarana né nokkura starfsmenn skólanna. Þessa ákvörðun sína rökstuddi bæjarstjórn með broti úr setningu sem tekin er úr skýrslu um skólana sem gerð var fyrir fjórum árum. Þar segir "... jafnvel má athuga nánara samstarf skólanna". Eins og gefur að skilja eru kennarar og bæjarbúar yfir höfuð heldur ósáttir við ákvörðunina. En engu að síður skal hún standa, skólastjórarnir reknir og einn skólastjóri ráðinn í staðinn. Þetta væri e.t.v. skiljanlegt ef að tilgangurinn væri að spara en svo á víst ekki að vera. Þess vegna þykir mér merkilegt að fyrrverandi forseti bæjarstjórnar þori að fara með slíka staðreyndarvillu í mest lesna fréttablaði Seltjarnarness
þar sem oft hefur komið fram að ósk bæjarbúa er að gerð verði rannsókn á málinu áður en skólarnir verða sameinaðir.

Seinna í greininni fer þessi ágæti fyrrverandi forseti að tala um fólksfækkun á Nesinu og stafi hún af því að yngra fólkið er að flytjast á brott (ekki skrítið miðað við fasteigna- og leiguverð) og eldra fólkið sitji eftir. Eitthvað þurfi að gera fyrir eldra fólkið.

"Það er mjög athyglisvert hvernig Jónmundur Guðmarsson, bæjarstjóri, hefur lagt til lausn á byggingu hjúkrunarheimilis handa öldruðum bæjarbúum sem sem þurfa góða umhyggju. Hann hefur lagt til að slíkt heimili verði beyggt með Reykjarvíkurborg, Íslenskum aðalverktökum og fleiri aðilum á Lýsislóðinni við Eiðisgranda. Með þessum hætti er hægt að koma í veg fyrir að bærinn myndi sligast undan kostnaði við að byggja og reka of lítið og óhagstætt heimili innanbæjar."

Málið er s.s. það að það er alltof dýrt að hugsa um einhverja gamla kalla og kellingar, þau standi ekki undir kostnaði og þess vegna er bara fínt að skella þessu öllu á Reykjarvíkurborg. Þá losnum við endanlega við þetta gamla pakk. Áhugavert, sérstaklega í ljósi þess að þessi forseti var að tala um fólksfækkun í bænum fyrr í greininni. Flytjum bara alla yfir 67 ára á brott. Þá getur e.t.v. hraðari og fjölbreyttari fólksfjölgun átt sér stað. Ef að ég hefði búið að Seltjarnarnesi mestan hluta ævinnar, væri kominn á hin svokallaða elliheimilisaldur, hefði borgað skatta til bæjarins alla mína tíð og e.t.v. gefið Gróttu dósir, þá myndi ég vilja fá að flytja á elliheimili á Seltjarnarnesi. Ég myndi ekki vilja flytja til Reykjavíkur, sérstaklega á jafn óspennandi stað og við hliðina á JL húsinu.

Ég gæti haldið áfram í alla nótt því að mér þykir þetta svo kjánalegt. Það kostar blóð, svita og tár að búa á Nesinu börnin góð. Anna, ég heimta komment frá þér!
Bless

0 ummæli: