mánudagur, nóvember 12, 2007

Af Mola og margbreytileika tilverunnarÉg var 7 ára og Ásta Sóley 12 og það hafði víst bortist til tals á lúðrasveitaræfingu að ein klarinettustelpan ætti kött sem væri nýbúin að eignast kettlinga. Við systurnar settum upp hvolpaaugun, héldum á fund foreldra okkar og lofuðum að sjá alfarið um að hugsa um kisu. Í kjallara, bakdyramegin í hvítu og grænu bárujárnshúsi völdum við svo lítinn, svartan og kafloðinn kettling. Gott ef það var ekki rigning þetta ágæta kvöld og ég í gulum stígvélum. Kolamoli hét hann svo, skírður eftir naggrís frá Hafnafirði, en þó alltaf kallaður Moli.

Eftir að hafa eytt viku undir ískápnum eða inní pottaskáp fór hann að þora að koma fram. Og fljótlega hætti hann að passa undir ískápinn og hvað þá inní pottaskáp því þvert á öll fögur loforð okkar systranna var það alfarið í höndum mömmu og pabba að gefa Mola að borða. Það dugði að sjálfsögðu ekkert annað en sérstakur Molafiskur, heimagerður kattamatur, sem sá til þess að Moli stækkaði og stækkaði og varð svo stór að fólk hélt stundum að hann væri hundur. Við kölluðum hann bara heimilisljón.

Moli var svo að segja örverpið á heimilinu og eftir því mesta frekjan. Hann fék sérpantaða, segulstýrða kattalúgu úr þýskum katalóg, sem þá var algjört nýbreytni á Íslandi. Þó með tímanum hætti hann að nota lúguna og vældi fyrir utan þar til einhver kom og opnaði útidyrahurðina fyrir honum. Jafnvel um miðja nótt. Hann varð sármóðgaður ef ekki var til fiskur og ætlast var til þess að hann borðaði Whiskas í eitt og eitt skipti. Hann átti sérstól og á seinni árum m.a.s. sérherbergi. Svo var auðvitað slegist um að fá að knúsa hann og kjamsa og grátið sáran yfir því að hann mætti ekki gista til fóta.

Hið stórundarlega gerðist að þegar fólkið á efri hæðinni flutti inn kom annar köttur, Maríus, í húsið. Hann var alveg eins og Moli. Stór, svartur og loðinn. Svo kom í ljós að þeir væru bræður. Fólk rak oft upp stór augu þegar það hafði mætt Maríusi úti á tröppum og hitti svo Mola, sem var alveg eins, inni í stofu örfáum sekúndum seinna. Og þess vegna einkenndi það alltaf Valhúsbraut 33, heimilisljónin tvö í tröppunum. Annar tignarlegur og hugrakkur (það var að sjálfsögðu Moli) og hinn skræfa með grátt í makkanum.

Og mikið skipti hann þó miklu máli. Í nokkur ár þjónaði hann tilgangi vekjaraklukku. Á morgnanna, þegar ég hafði slökkt á klukkunni, kom hann uppí og beit mig í tærnar þar til ég fór fram úr. Hann gafst reyndar uppá því, enda örugglega eitt vanþakklátasta starf heimilisins. Án minnar vitundar fylgi hann mér alltaf til Karólar á yngri árum og sat og beið svo í nálægð við húsið svo hann gæti fylgt mér aftur heim. Oft skældi ég líka á hinum stórkostlegu dramatísku unglingsárum með Mola í fanginu, skilingsríkari en allt. Og þegar ég var alein heima var hann algjörlega ómissandi sem varðköttur.

En svo varð hann gamall og blindur, enda orðin 18 ára. Hann hætti að vera stór og feitur, varð lítill og renglulegur og mátti ekki lengur fá Molafisk heldur var settur á sérfæði. Hann svaf allan daginn og vældi með sjálfum sér eins og gamla fólkið gerir. Stundum varð ég m.a.s. að lyfta honum uppí sófa, því hann gat ekki stokkið þangað sjálfur.
Svo fór ég til Kína og þá dó Moli minn. Mikið er það undarlegt, heimilislífið, án hans. Það er skrítið að hitta Maríus fyrir utan. Ósjálfrátt skil ég útidyrahurðina eftir opna því ég býst við því að Moli fylgi í humátt á eftir mér inn. Stundum verð ég hissa þegar ég finn hann hvorki inní í herberginu sínu né frammi í stól. Það er þó verst að vera ein heima, því nú er ég alveg alein heima. Ef ég horfi t.d. á of mikið af sakamálaþáttum um blóðug morð og hrottalegar nauðganir verð ég vænusjúk og viss um að fyrir utan leynist einhver sem hefur einsett sér að drepa mig, sér til yndisauka. Vanalega, undir slíkum kringumstæðum, hefði ég læst mig inní herbergi með Mola til fóta og fylgst vel með, hvort hann tæki eftir einhverju. En nú ligg ég alveg ein með sængina uppað nefi og hver vindkviða vekur hjá mér ugg um að nú komu hann, vondi kallinn. Og þegar mamma og pabbi voru í Danmörku um daginn var það ekki fyrr en ég var búin að keyra alla leið að Eiðistorgi frá Leifi í málingargallanum, að ég uppgötaði að ég þyrfti ekkert að fara heim að gefa Mola.

Aldrei mun nokkur kisa fylla í skarð heimilisljónsins.

0 ummæli: