sunnudagur, nóvember 25, 2007

Svona eitthvað um það að eldast

Ég, skófríkið sjálft, er hætt að hugsa hversu mikinn pening ég á og hvað það þýði mörg skópör þann mánuðinn en horfi í staðin löngunaraugum til vínglasa, bókaskápa og hnífapara og reikna út stöðu bankareikningsins samkvæmt því. En það er þó væntanlega eðlilegur fylgifiskur þess að kaupa sér íbúð og eyða ómældum, óþolandi og óbærilega löngum tíma í að taka hana í gegn.

Ég er orðin mjög spennt fyrir því að kaupa mér mitt eigið jólatré. Mjög mjög spennt.

Það er gengið yfir, gullaldartímabilið þegar ég stíg danspor á öldurhúsum bæjararins langt fram undir morgun, sef í tvo tíma, mæti eiturhress í vinnuna og endurtek svo leikinn næsta kvöld, bara eins og drekka vatn (tjah, eða bjór í þessu tilfelli). Nú finnst mér huggulegt að leigja vídjó með Karól á föstudagsdagskvöldum, leysa SuDoku yfir kaffibolla á laugardagsmorgnum, fara á listasýningar og á tónleika. Fara í sund á sunnudagsmorgnum og taka til. Og lesa. Og hlusta á Billie.

Öll spjót beinast að ellinni. Nei, samt ekki. Áðurgreind helgi hefur einungis gerst einu sinni, í morgun mætti ég eiturhress á kóræfingu kl.12 þó að ég hafi komið heim kl.7. Og í dag keypti ég mér skópar.

0 ummæli: