Af sjálfs síns heimsku - taka tvö
Ekki veit ég hvort að það sé vegna þess að ég hef mikið að gera. Ég skipulegg gleðigill. Ég fer á kóræfingar. Ég mála Leif og flyt sem betur fer til hans bráðlega. Ég vinn. Alltaf. Alla daga. Og nætur. Og kvöld. Og helgar. S.s. ég er alveg eins og hinn hefðbundni íslendingur sem labbar Bankastrætið með kaffi í röltbolla, talar í farsímann, með fullar hendur af pappírum og heilsar öðrum hverjum manni á götunni. En engu að síður held ég að ég sé endanlega orðin óviti.
Og hverjar eru ástæðurnar? Jú sjáiði til. Ég lagði af stað í vinnuna um daginn og áttaði mig á því, í tröppunum fyrir utan húsið mitt, að ég var í einum skó. Það var rigining. Þegar ég var komin langleiðina í vinnuna snéri ég við þegar ég uppgötaði að ég var brjóstahaldaralaus (fyrir ykkur sem eruð kunnug þrumutúttunum mínum þá er ekkert grín ef ég fer óafvitandi brjóstahaldaralaus út úr húsi). Nú, þegar ég komst svo loks í vinnuna, í öllum þeim flíkum sem ég átti að vera í, vildi ég að sjálfsögðu fara úr jakkanum. Það reyndist strembið og ég reyndi hvað eftir annað að draga mig úr annari erminni. "Ég skil þetta ekki! Ég kemst ekki úr jakkanum, í alvöru. Hann er bara fastur!" sagði ég við Nillu, samstarfskonu mína. Svo byrjaði ég að roðna og skammast mín. Jakkinn var renndur upp í háls og öllum 10 smellunum á hettupeysunni, sem ég var í innan undir, var kyrfilega smellt aftur.
Kannski ætti ég bara að hætta að klæða mig yfir höfuð (þetta er fyndin tvíræðni)?
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
0 ummæli:
Skrifa ummæli