sunnudagur, júní 24, 2007

Já mikið lifandi, skelfingar, ósköp þykir mér lífið skemmtilegt. Ég tek nýjar ákvarðanir um mína nánustu framtíð á hverjum einasta degi. Ég er svo random þið vitið. Ég er í stórkostlegri vinnu með stórkostlegum samstarfsfélögum sem ættu að fá orðu fyrir að vera.. tjah.. stórkostlegir. Við sýnum brúðuleikhús og sinnum listinni. Svo treð ég upp sem DJ Maísól á Kofanum um helgar. Þar verður þönderpartý í sumar með þemakvöldum, því ég er jú, eins og alheimur veit, svo sjúk í það. Svo treð ég líka upp sem bakradda- og frontsöngkona, ásláttarpía og luftpíanisti með Gleðisveitinni Hrókar alls fagnaðar í brúðkaupum. Það er besti bransi í heimi, brullupsbransinn. Allir eru svo glaðir, með harðsperrur í kinnunum og þurrir í tárakirtlunum því þetta er jú allt svo fallegt og ástfangið. Hljómsveitin dansar með brullupshjónunum og heldur uppi partýstuði. Á morgun held ég svo til Póllands á listahátíð með elskulegum skólafélögum mínum. Þar verður væntanlega meira partýstuð og mikið um að sinna listinni.

Þetta er allt svo stórfenglegt.

mánudagur, júní 18, 2007

17. júní

Við Lóla hengjum okkur á Eiðistorgi í boði Seltjararnesbæjar og á næsta ári ætla ég mér að vera í risastórum kúkabúningi í lítilli barnaplastlaug, vonandi í boði Seltjarnarnesbæjar enn á ný, þriðja árið í röð. Svo fer ég niðrí bæ til að athuga hvort ég geti skotið mig í löppina eða drekkt sorgum mínum. Einhver maður biður mig að byrja með sér, því honum finnst ég með svo falleg augu. Hann er fullur. Annar maður geltir eins og hundur til að fá athygli íslensks fjárhunds. Svo sargar hann á fiðlu eins og óður maður við hliðiná okkur Karól. Hann er líka fullur. Svo snýr hann sér að Karól og segir "Where are you from?" með þykkum íslenskum rónahreim og reynir að horfa framan í hana en bjórinn vill bara horfa á stéttina. "Ég er frá Íslandi" segir Karól og maðurinn verður hissa og segir að það geti ekki verið "Þú ert svo skrýtin!". Svo tautar hann með sjálfum sér hvað Karól sé skrýtin. Ég fel bjór í erminni minni á Arnarhóli því ég vil ekki að börnin sjái mig. Ó hve glöð er vort æska orti víst einhvern. Ó guðs vors Maísól sötrar bjór fyrir framan MR og hittir vora glöðu æsku. Svo stíg ég dans með eldri manni. Hann er fullur og glaður. Raggi Bjarnason syngur Nanananaaaaa og ég er hætt við að skjóta mig í fótinn. Í bili. Í staðinn ætla ég að fara að finna þennan blessaða kúkabúning. Maður þarf jú að hugsa um framtíðina.

mánudagur, júní 11, 2007

Mikið er gott að vera komin heim. Ég tek mest eftir því hvað húsin á Seltjarnarnesi eru ótrúlega, ógeðslega ljót, allir keyra um á dýrum, fínum jeppum sem eru alltaf nýbónaðir og ég heilsa meira en annari hverri manneskju sem ég mæti út á götu. Það er gott og gaman.

fimmtudagur, júní 07, 2007

[BLOGG 3/3]
Maísól er væmin


Og þá fer þessu öllu að ljúka. Skólinn klárast á morgun með því að skólastjórinn, sem ég elska, ætlar að elda brjálæðislega mikinn mat handa okkur og kynna okkur fyrir hundinum sínum. Í dag kom maður og kenndi okkur að jöggla með hatta. Kakó og Clooney fluttu í dag og ég fékk illt í hjartað af söknuði. Ég elska þær ofsalega mikið. Við Lóla þrifum íbúðina og á laugardaginn lýkur sambúð okkar í bili. Það er agalegt. Við höfum deilt rúmi, fötum, glösum, tannburstum, tilfinningum, áhyggjum, gleði og ást síðan í byrjun september. Merkilegt með hana Lólu. Hún er alveg stórkostleg. Krakkarnir í skókanum héldu að við hefðum þekkst frá fæðingu. Og fólkið í kórnum hélt við værum systur, sem er algengur misskilningur. Við erum jú eins og eitt. Það er gott. Og mikið elska ég Karól. Hún er yndislegust af öllum.
Þó að ég hafi ekki náð öllum takmörkum sem ég hafi sett mér á þessu ári þá er ég sátt og glöð. Þetta hefur verið undursamlegt. Þremmeningasambandið, Karól og Guðný hafa án alls efa átt mikinn þátt í því. Sem og skólinn. Og Kóngsins. Og ástin. Og vinirnir. Og lífið. Það er gott þetta líf. Nú hlakka ég bara til að kyssa ykkur mín kæru, sem eruð heima á Íslandi. Gott að vera væminn. Það er stórkostlegt. Margt er að elska. Margs er að sakna. Gaman að hlakka til. Gaman að vera glaður. Og nú lýkur þessari vænmi.

þriðjudagur, júní 05, 2007

[BLOGG 2/3]
Maísól er í Kóngsins


Ekki veit ég hvert allur þessi blessaði tími fór í maí, en maí er greinilega búin. Og vel það. Þrátt fyrir ýmislegt misjafnt og leiðinlegt þá hefur maí engu að síður verið stórgóður. Sumarið er komið svo Kakó og Clooney eru farnar að vera á brókinni til að lífga upp á annars gráan hversdagsleika flutningabílstjóra og vina þeirra. Kakó og Clooney eru líka fluttar til okkar tímabundið, svona alveg eins og fyrstu mánuðina okkar í slottinu. Enn fremur kom Vígþór Sjafnar (bróðir Lólu) til okkar um helgina og vaskaði upp á ameríska tenóraháttinn. Og bjó til kaffi. Dóra Björt kom úr menningunni í Noregi og keypti klósettpappír, því það gera þeir víst í Noregi. Ég stal pappírnum svo, til að við náum að halda út leigutímabilið án þess að kaupa svo mikið sem eina rúllu. Steinþór stal líka þónokkrum rúllum í öllum sínum þúsund lestarferðum til og frá Kastrup. Hetja. Gus Gus voru stórkostleg. Ætli ég segi það ekki einu sinni enn, bara svona uppá prinsippið, ég elska Gus Gus.

En nú er hefur Steinþór loksins komist heim til Íslands, eins og ég mun gera á laugardaginn. Þangað til hef ég þúsund hluti að ganga frá og er því mjög gott að ég sé búin að sitja á Laundromat í tvo tíma, teikna og stara út um gluggann. Þannig ákorka ég mestu. Og nú ætlum við Kakó (sem ég elska mun mun mun meira en Gus Gus) að ræða framtíðina og væla pínulítið. Því það er líka svo nauðsynlegt.

sunnudagur, júní 03, 2007

[BLOGG 1/3]
Maísól fer til Íslands


Eftir viku verð ég heima á Íslandi. Vonandi sit ég um þetta leiti á svefherbergisgólfinu mínu að drekka Egils Appelsín með lakkrísröri að hlusta á vínylplötu og horfa á skónna mína. Svo kemur mamma og spyr hvort að ég sé með eitthvað svart sem þarf að þvo. Eða hvort ég vilji ekki koma með henni í sund. Eða fá mér vatn. Eða jógúrt. Eða hvort ég vilji fara í inniskó. Eða hvort ég nenni að ryksuga. Eða hvort ég hafi sé gleraugun hennar. Eða hvort ég geti hjálpað henni að kveikja á tölvunni. Svo kemur kannski Tobbi og við fáum okkur kaffi. Svo byrja ég að vinna með 9 strákum í Listahóp Seltjarnarness og sem DJ Maísól á Kofanum aðra hverja helgi. Á kvöldin fer ég oft að labba við sjóinn af því það er svo mannbætandi. Og hlusta á fulgana. Fæ mér bjór og labba heim í nætursólinni. Svo fer ég til Póllands á listahátið og á L.ung.A. Og verð með vinum mínum sem eru svo frábærir og fabjúlöss. En sakna Kakó og Clooney. Og hjólsins míns. Og djús á flösku. Og Tuborg (á viðráðanlegu verði).