þriðjudagur, apríl 29, 2008

Rót vandans

Það hefur verið mér löngum ljóst að ástæða þess að ég endist aldrei af neinu viti í nokkurskonar sambandi, sem gæti talist til einhvers meira en bara smá gríns, er móðir mín. Ekki það að móðir mín sé ekki yndisleg kona. Þvert á móti. Mamma er ein skemmtilegasta kona sem ég þekki. Við deilum mjög svörtum húmor og höfum oft nánast grætt einhverja fína frú í sturtuklefunum á Nesinu og út í Hagkaup. Allavega höfum við í sameiningu misboðið í það minnsta helmingi allra íbúa og starfsmanna á Seltjarnarnesi.

Mamma hóf markvisst að bægja mér frá karlmönnum um 12 ára aldurinn. Hún byrjaði að dæsa, andvarpa og pósa dramatískt yfir soðnu ýsunni á meðan hún bræddi smjör og sagði mér hryllingssögur. Sögur sem voru þó aldrei um stúlkur sem áttu kærasta heldur var aðahetjan (og aðalfórnarlambið í þessu tilviki) nánast undantekningarlaust Dröfn, besta vinkona mömmu sem bjó á Akureyri. Dröfn og maðurinn hennar Óskar, átti þónokkrar stelpur sem voru og eru allar mjög myndarlegar, ljúfar og skemmtilegar. Þær urðu allar fljótt eftirsóttar af akureyskum og jú, örugglega öllum norðlenskum piltum. Svo áttu þær kærasta sem varði þó kannski ekki lengur en í smá grín.

Og þar hófst sorgarsaga Drafnar og Óskars. Aumingja Dröfn og Óskar (Andvarpað og dæst). Þarna höfðu hjónin verið kynnt fyrir ungum, frambærilegum dreng sem var enn fremur kurteis, myndarlegur, góður við börn, dýr og gamalmenni og snyrtilegur. Pilturinn fékk stundum að borða kvöldmat með fjölskyldunni, ræddi þá e.t.v. um bílamál við Óskar og listir við Dröfn og fékk stundum að gista eina og eina nótt. Svo slitnaði uppúr sambandinu, eins og gengur og gerist. (Hér skiptir móðir mín yfirleitt um dramatíska pósu, setur upp svip eins og hún ætli að tilkynna mér að líf mitt sé búið, andarpar þungt, horfir sorgmædd út um gluggann (helst í átt til sjávar, því það er mun dramatískara) og lítur á mig, tárvotum augum)
Svo virðist sem hver og einn einasti piltur, án undantekningar, hafi verið handvissum að ein af þessum töfradætrum hjónanna hafi verið eina konan í þeirra lífi. Svo virðist einnig (samkvæmt sögu móður minnar) að allir hafi þeir farið að hágráta yfir frosnum rækjum á gangi 4 í KEA þegar þeir rákust á Dröfn og Óskar. Niðurbrotnir, ósofnir og búnar að horast um átta kíló á viku sökum ástarsorgar. Aumingja Dröfn og Óskar (þung áherla og mikið andvarp) þurftu að hugga þá alla, þarna í frystideildinni, og reyna að skilja hvað það var sem dóttirin sá ekki við vonbiðilinn. Og ekki varð ástandið betra þegar drengirnir fundust grátandi og vitstola á útidyrahurðinni, viti sínu fjær af ást og þrá. Aumingja Dröfn og Óskar (hér sést tár á hvarmi). Þau áttu víst alltaf lager af mjólkurkexi og kakói til að geta boðið drengjunum inn og hughreyst þá.

Aldrei í sögum móður minnar gat það verið mögulegt að vonbiðilinn væri kannski leiðinlegur? Eða lélegur í sleik? Eða alltof væminn? Eða karlremba? Nei, það voru aumingja Dröfn og Óskar sem þurftu að þjást. Afhverju var verið að kynna þau fyrir öllum þessum drengjum? Afhverju að leyfa foreldrum sínum að fylgjast með hvað væri að gerast í lífi dætranna?
Þetta var dæmisagan sem átti að kenna mér að ég á aldrei að kynna móður mína fyrir neinum sem ég er að slá mér upp með. Ef ég hef kannski stungið uppá því að hún ætti að hitta þann og þann dreng (það er þó ekki eins og listinn sé stórkostlega langur) þá fussar hún og er fljót að segja, svona afskaplega kæruleysislega, eins og hún sé að dusta ryk af öxlunum "Æ nei, er þetta nokkuð alvarlegt? Viltu mjólk?" og gera þar með lítið úr þessu öllu. Örfáu sinnum hef ég gert uppreisn og mætt með piltinn heim án vitundar móður minnar, svona til að kynna hana nú fyrir honum. Þá verður mamma yfirleitt mjög stíf og oft upptekin. Það þarf jú að endurraða öllum matardiskunum og færa glösin yfir á hina hliðina.

Seinna, þegar grey pilturinn hefur hunskast á braut, því ekki vil ég hann og hvað þá heldur móðir mín sem tengdason, segir hún mér aðrar hryllingssögur af vinkonum sínum sem héldu útí heim á vit ævintýranna. Þessi ævintýri stefndu alltaf í að verða það stórkostlegasta í þeirra lífi (samkvæmt sögum móður minnar). Það varði þó aldrei lengi því eitthvert ástsjúkt grey vældi í símann nú eða elti hana uppi til að fá hana heim. "Það er ekki hægt að fara út úr húsi með svona sjúkan mann á eftir sér. Alveg agalegt ástand ha? Fyrst á maður að finna ævintýrin og svo ástina. Annað er bara vitleysa" segir mamma og gefur mér bráðið smjör yfir soðnu ýsuna.

Við mæðgurnar höfum því ákveðið að mömmu verði ekki boðið í brúðkaupið mitt (já, ef við gefum okkur það að af því muni kannski verða einn daginn). Ég gæti kannski endað á að skilja við manninn og mamma nennir sko ekki að eiga lager af einhverju helvítis matarkexi og standa í því að hita kakó fyrir einhvern grenjandi, ástsjúkan aumingja.

föstudagur, apríl 25, 2008

Plús og mínus
Back to basics. Það er klárlega langbest að blogga í listum

Plús

+ Space Disco. Ég er sjúk í það. Stefni á Space Disco kvöld þó að ég hugsi að það myndi stúta ferlinum. Þar af leiðandi plús fyrir...
+ .. YouTube.
+ Eilífur meðvindur. Ég hjóla eins og enginn sé morgundagurinn
+ Kreppa með jákvæðu hugarfari. Ég er að gera góða hluti í kreppunni. Fór í klippingu og litun í gegnum krókaleiðir og borgaði 2800 kr. Keypti mér fjóra kjóla á 2500 kr. Búin að túra Koló og gera stórkaup á ýmsum sviðum.
+ Sushi. Kemst ekki í gengum laugardaga nema að fá sushi. Það er að setja mig á hausinn. OK, ég dreg það til baka að ég sé að gera góða hluti í kreppunni.
+ "Take two: Bóndadagur" Síðasta miðvikudagskvöld með Bó, Binns og Tobbster. Það er oftast best að subba bara heima langt fram undir morgun.
+ Að vera edrú um helgar. Það er alveg hægt og bara frekar næs stundum (þó ekki fram úr hófi).
+ Mini Halló Akureyri fyrir um viku síðan. Ég tók Pálma að sjálfsögðu á melódíkuna og klámskáldið Guddu og í staðinn lenti ég á megaséns með 67 ára kempu. Skál fyrir mér! Það er enn von
+ Smack the Pony. Vignir fann gamlar VHS spólur (formuni!) heima í Hafnafirði. Fokk sjitt það er fyndið. Ógeðslega fyndið.
+ Framtakssemi. Ég fór t.d. á fund með bæjarstjóranum um daginn að mínu frumkvæði. Ég þurfti aðeins að leggja honum línurnar. Ég var að vona að hann myndi bjóða mér í flokkinn. Það gerðist nú ekki en ég var samt fáránlega töff.

Mínus

- PC tölvur og Windows. Brenniði í helvíti fokking drasl!

mánudagur, apríl 21, 2008

Can't touch this

Stundum kemur upp í mér smá manía. Þegar ég var yngri átti ég t.d. mjög erfitt með að leyfa fólki að fá sopa hjá mér. Alveg sama hver það var. Mér fannst bara stundum svo ógeðslegt að einhver væri með sína slepju á mínum drykk. Oft ef ég er að hlusta á útvarpið og heyri eitthvað sérstakt þá verð ég að endurtaka það upphátt. Sem er fáránlegt.

Þulur: "Nú verða sagðar veðurfréttir"
Ragnheiður: "Nú verða sagðar veðurfréttir" heldur áfram að gera eitthvað allt annað

Um daginn komst ég að nýrri maníu. Ég á mjög erfitt með fólk oft á tíðum. Svona nett fólksfælni. Þetta virðist verða meira vandamál með tímanum (enn og aftur tengist þetta lífsdilemmanu "Ég eldist"). Ég get alveg verið í mannmergð, ég uni mér t.d. mjög vel í stórborgum, en hérna á Íslandi þá vil ég helst ekki vera í kringum mikið af fólki, allavega ekki í mikilli snertingu við það. Ég verð afskaplega pirruð ef ég er í strætó og hann er yfirfullur og fólk kemur við mig. Sem er jú óhjákvæmilegt því að ef að strætó er yfirfullur þá hlýtur einhver að koma við þig. Þá stirðna ég öll upp og verð mjög meðvituð um alla í strætó og hvernig þeir eru að hreyfa sig. Stundum finnst mér m.a.s. óþægilegt að sitja við hliðiná einhverjum sem ég þekki, sérstaklega ef það er þröngt á þingi og sessunautur minn snertir mig örlítið með tjah, olboganum. Ég á stundum mjög erfitt með að vera á tónleikum, eins og mér finnst það þó gaman. En þar er oft alltof mikið af fólki og mjög skyndilega ákveð ég að fara og verð viðþolslaus þangað til ég er komin út. Ég vil ekki fara á listaopnanir. Mikið af fólki í litlu rými, sumir í svakalegum "bla bla - búbbl búbbl - glúgg glúgg" gír og aðrir að rýna í list í rólegheitum. Þá fríka ég og verð svolítið eins og stuðningsbarn með förunauti mínum. Stend alltaf fyrir aftan hann, segi ekkert og speisa út.

Þetta er þó næstum ekki eins alvarlegt og það hljómar. Þetta háir mér alls ekki en á til að skjóta upp kollinum á undarlegustu tímum. Kannski er þetta hluti af þessum netta tourett sem ég hugsa að ég þjáist af. Þegar mig langar að sparka í bíl eða segja fokkjú við einhver að ástæðulausu. Eða kannski er ég bara að missa það.

miðvikudagur, apríl 16, 2008

Af ungdómnum

Ég sit inni á skrifstofu með tveimur aðaltöffurunum. Þó að þeir séu svolitlir kjánar þá eru þeir tveir af mínum uppáhalds unglingum. Ég er eitthvað að reyna að siða þá til með ræðu um fyrirgefningu syndanna, hjúkra þjáðum og hjálpa náunganum endurgjaldslaust (þó ekki í neinu kristilegu samhengi, meira svona "in the ghetto" dæmi). Báðir eru þeir mjög upptjúnaðir af hórmónum og gelgju og eru búnir að ákveða að vera á móti öllu sem ég segi, bara vegna þess að þeir eru unglingar og ekki ég. Allt í einu er ég alveg dottin út úr umræðunni og þeir fara að metast um hvor sé duglegri að hjálpa til heima hjá sér, hvor sé dekraðri, hvor sé betri í sundi og að lesa (ekki spyrja mig, þetta eru unglingar), hvor sé betri á gítar og á píanó og skyndilega stendur annar upp, mjög sár, (og gleymið ekki, við erum að tala upp svona alvöru töffara-ungling) strunsar út, snýr sér við í dyragættinni og hreitir í hinn:

"Þú veist að þetta er ekki satt. Ég er sko margoft búin að reyna að kenna þér Total Eclipse of the Heart á píanó og þú bara vilt ekki læra það! Bara syngja með!"

Ég meig næstum á mig af hlátri.

mánudagur, apríl 14, 2008

Elegans, milljón manns


Eins og hef hefur verið fyrir í áraraðir hefur árshátíð Hamrahlíðarkóranna ætíð verið haldin við mikla gleði um þetta leiti. Í ár var engin undantekning á og fór hún fram á Korpúlfstöðum þarsíðasta laugardag. Við eldri maddömmur Hamrahlíðarkórsins tókum að okkur skipulag og eins og sönnum dömum sæmir þótti okkur ekkert verkefni of stórt til að takast á við. Salinn leigðum við tóman. Þá þurfti að redda, tjah.. öllu öðru. Og fyrst að við fengum ekki gott tilboð í veislumat, nú þá elduðum við hann bara sjálfar. Forréttir, 15 lambalæri og meððí fyrir rúmlega hundrað manns? Pís of keik (í desert). Eins og gefur að skilja þótti okkur stöllunum heldur ekki leiðinlegt að sitja löngum stundum að ræða mismunandi krydd, marineringu og kartöflur (án gríns, okkur þótti það ekki leiðinlegt). Enn fremur vorum við líka þar með búnar að redda fáránlega góðu skemmtiatriði fyrir allan eldri sópraninn. Ég er ekki frá því að Magnús Hallur hafi haft rétt fyrir sér þegar hann kynnti okkur á svið. Ekki erum við bara fallegastar og fágaðastar, heldur líka besta röddin í kórnum. Og andskotinn hafi það, djöfull var þetta fab. Við Thorlacius horfðum tárvotar yfir salinn tveim tímum fyrir árshátíð, allt í þemanu "heimagert og krúttlegt", og samþykktum heilshugar og svona elegans hefði ekki sést í háa herrans tíð.


En nóg af yndisþokka eldri sórpana. Guðmundur Kristján, sá mæti maður, tók að sjálfsögðu að sér að vera hægri hönd okkar sem og sjá um hvers konar karlmennsku sem við þurftum á að halda (er einhver sem nokkur tíman gæti leyst það jafn vel af hendi?). Hann vildi þó ekki taka að sér dans. Árgerðin '90 og '91 tók að sér ofurölvun hvers konar og get ég svarið fyrir það að þau leystu verkefnið einstaklega vel af hendi. Yngri kórinn tók líka að sér hvers konar sleik, hvort sem hann færi fram inní kompum eða væri allt að því dýrslegur. Yngri sópraninn ákvað að grenja, allt kvöldið, yfir öllu. Yngri bassar tóku ofurölvunina mjög alvarlega og ákváðu helst að vera erfiðir og í sneiki. Þetta kombó, yngri sópran og yngri bassi, varð því nánast að mannfræðirannsókn þegar þau mættust í sleikhlutverkinu, annað grenjandi og hitt í ástandi. Einhverjir héldu víst að glösin væru úr sykri og þeim mætti því grýta hingað og þangað um salinn. Sami leikhópur hélt uppi stanslausu skemmtiatriði með tilheyrandi fokki og barsmíðum og ákváðu svo að leika senu úr Börnum náttúrunnar, hlaupandi út um móa og mosa. Spes. G.Einar tók Ómar Ragnarson að sér og Högni forláta leðurtösku þegar allar busastelpurnar höfðu fallið í yfirlið eftir einn dans við hann. Valdís blastaði líka Einn dans við mig og Pálma við góðar undirtektir. Stórkostlegir voru madrósadrengirnir þrír í yngri kórnum sem héldu uppi herramennsku piltunga. Andri Egilsson sá um gítarleik seint og síðar meir og Tobbi ákvað að spila með hljómsveitinni, þó alltaf lagið sem hún hafði verið að spila á undan.


Vissulega fór þetta allt fram með undarlegasta móti. Ekki trúi ég að það hafði verið aldursmunurinn. Harla. Kannski tunglstöðurnar? Varla. Allavega hefur ný kynslóð gefið mér aðra og nýja sýn á orðið smánun. En þrátt fyrir að við maddömmuteymið hefðum á tímabili endað hálfskælandi í pinnum, sparikjól og gulum gúmmíhönskum, vaðandi í skolpvatni og ælu inná klósetti að skamma fellow choirmembers, þá var þetta stórkostlegt. Enda kórárshátíð. Og þó að elegansinn hafi nú eitthvað farið forgörðum þarna um miðbik kvölds þá er bara alltaf eitthvað við þetta. Kannski skálin fyrir ástinni. Hún stendur alltaf fyrir sínu.

þriðjudagur, apríl 08, 2008

Bing dao camera?

Hér má sjá hvernig maður kaupir myndavél í Kína, í boði Yrsu.

fimmtudagur, apríl 03, 2008

Fékk Skriðuveikina. Búin að vera heima að drekka eplasafa og horfa á Fóstbræður (Mikið elska ég Benedikt Erlingsson). Þess vegna eru myndirnar frá margumræddri Páskahelgi hér.