miðvikudagur, apríl 16, 2008

Af ungdómnum

Ég sit inni á skrifstofu með tveimur aðaltöffurunum. Þó að þeir séu svolitlir kjánar þá eru þeir tveir af mínum uppáhalds unglingum. Ég er eitthvað að reyna að siða þá til með ræðu um fyrirgefningu syndanna, hjúkra þjáðum og hjálpa náunganum endurgjaldslaust (þó ekki í neinu kristilegu samhengi, meira svona "in the ghetto" dæmi). Báðir eru þeir mjög upptjúnaðir af hórmónum og gelgju og eru búnir að ákveða að vera á móti öllu sem ég segi, bara vegna þess að þeir eru unglingar og ekki ég. Allt í einu er ég alveg dottin út úr umræðunni og þeir fara að metast um hvor sé duglegri að hjálpa til heima hjá sér, hvor sé dekraðri, hvor sé betri í sundi og að lesa (ekki spyrja mig, þetta eru unglingar), hvor sé betri á gítar og á píanó og skyndilega stendur annar upp, mjög sár, (og gleymið ekki, við erum að tala upp svona alvöru töffara-ungling) strunsar út, snýr sér við í dyragættinni og hreitir í hinn:

"Þú veist að þetta er ekki satt. Ég er sko margoft búin að reyna að kenna þér Total Eclipse of the Heart á píanó og þú bara vilt ekki læra það! Bara syngja með!"

Ég meig næstum á mig af hlátri.

0 ummæli: