Rót vandans
Það hefur verið mér löngum ljóst að ástæða þess að ég endist aldrei af neinu viti í nokkurskonar sambandi, sem gæti talist til einhvers meira en bara smá gríns, er móðir mín. Ekki það að móðir mín sé ekki yndisleg kona. Þvert á móti. Mamma er ein skemmtilegasta kona sem ég þekki. Við deilum mjög svörtum húmor og höfum oft nánast grætt einhverja fína frú í sturtuklefunum á Nesinu og út í Hagkaup. Allavega höfum við í sameiningu misboðið í það minnsta helmingi allra íbúa og starfsmanna á Seltjarnarnesi.
Mamma hóf markvisst að bægja mér frá karlmönnum um 12 ára aldurinn. Hún byrjaði að dæsa, andvarpa og pósa dramatískt yfir soðnu ýsunni á meðan hún bræddi smjör og sagði mér hryllingssögur. Sögur sem voru þó aldrei um stúlkur sem áttu kærasta heldur var aðahetjan (og aðalfórnarlambið í þessu tilviki) nánast undantekningarlaust Dröfn, besta vinkona mömmu sem bjó á Akureyri. Dröfn og maðurinn hennar Óskar, átti þónokkrar stelpur sem voru og eru allar mjög myndarlegar, ljúfar og skemmtilegar. Þær urðu allar fljótt eftirsóttar af akureyskum og jú, örugglega öllum norðlenskum piltum. Svo áttu þær kærasta sem varði þó kannski ekki lengur en í smá grín.
Og þar hófst sorgarsaga Drafnar og Óskars. Aumingja Dröfn og Óskar (Andvarpað og dæst). Þarna höfðu hjónin verið kynnt fyrir ungum, frambærilegum dreng sem var enn fremur kurteis, myndarlegur, góður við börn, dýr og gamalmenni og snyrtilegur. Pilturinn fékk stundum að borða kvöldmat með fjölskyldunni, ræddi þá e.t.v. um bílamál við Óskar og listir við Dröfn og fékk stundum að gista eina og eina nótt. Svo slitnaði uppúr sambandinu, eins og gengur og gerist. (Hér skiptir móðir mín yfirleitt um dramatíska pósu, setur upp svip eins og hún ætli að tilkynna mér að líf mitt sé búið, andarpar þungt, horfir sorgmædd út um gluggann (helst í átt til sjávar, því það er mun dramatískara) og lítur á mig, tárvotum augum)
Svo virðist sem hver og einn einasti piltur, án undantekningar, hafi verið handvissum að ein af þessum töfradætrum hjónanna hafi verið eina konan í þeirra lífi. Svo virðist einnig (samkvæmt sögu móður minnar) að allir hafi þeir farið að hágráta yfir frosnum rækjum á gangi 4 í KEA þegar þeir rákust á Dröfn og Óskar. Niðurbrotnir, ósofnir og búnar að horast um átta kíló á viku sökum ástarsorgar. Aumingja Dröfn og Óskar (þung áherla og mikið andvarp) þurftu að hugga þá alla, þarna í frystideildinni, og reyna að skilja hvað það var sem dóttirin sá ekki við vonbiðilinn. Og ekki varð ástandið betra þegar drengirnir fundust grátandi og vitstola á útidyrahurðinni, viti sínu fjær af ást og þrá. Aumingja Dröfn og Óskar (hér sést tár á hvarmi). Þau áttu víst alltaf lager af mjólkurkexi og kakói til að geta boðið drengjunum inn og hughreyst þá.
Aldrei í sögum móður minnar gat það verið mögulegt að vonbiðilinn væri kannski leiðinlegur? Eða lélegur í sleik? Eða alltof væminn? Eða karlremba? Nei, það voru aumingja Dröfn og Óskar sem þurftu að þjást. Afhverju var verið að kynna þau fyrir öllum þessum drengjum? Afhverju að leyfa foreldrum sínum að fylgjast með hvað væri að gerast í lífi dætranna?
Þetta var dæmisagan sem átti að kenna mér að ég á aldrei að kynna móður mína fyrir neinum sem ég er að slá mér upp með. Ef ég hef kannski stungið uppá því að hún ætti að hitta þann og þann dreng (það er þó ekki eins og listinn sé stórkostlega langur) þá fussar hún og er fljót að segja, svona afskaplega kæruleysislega, eins og hún sé að dusta ryk af öxlunum "Æ nei, er þetta nokkuð alvarlegt? Viltu mjólk?" og gera þar með lítið úr þessu öllu. Örfáu sinnum hef ég gert uppreisn og mætt með piltinn heim án vitundar móður minnar, svona til að kynna hana nú fyrir honum. Þá verður mamma yfirleitt mjög stíf og oft upptekin. Það þarf jú að endurraða öllum matardiskunum og færa glösin yfir á hina hliðina.
Seinna, þegar grey pilturinn hefur hunskast á braut, því ekki vil ég hann og hvað þá heldur móðir mín sem tengdason, segir hún mér aðrar hryllingssögur af vinkonum sínum sem héldu útí heim á vit ævintýranna. Þessi ævintýri stefndu alltaf í að verða það stórkostlegasta í þeirra lífi (samkvæmt sögum móður minnar). Það varði þó aldrei lengi því eitthvert ástsjúkt grey vældi í símann nú eða elti hana uppi til að fá hana heim. "Það er ekki hægt að fara út úr húsi með svona sjúkan mann á eftir sér. Alveg agalegt ástand ha? Fyrst á maður að finna ævintýrin og svo ástina. Annað er bara vitleysa" segir mamma og gefur mér bráðið smjör yfir soðnu ýsuna.
Við mæðgurnar höfum því ákveðið að mömmu verði ekki boðið í brúðkaupið mitt (já, ef við gefum okkur það að af því muni kannski verða einn daginn). Ég gæti kannski endað á að skilja við manninn og mamma nennir sko ekki að eiga lager af einhverju helvítis matarkexi og standa í því að hita kakó fyrir einhvern grenjandi, ástsjúkan aumingja.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
0 ummæli:
Skrifa ummæli