mánudagur, apríl 21, 2008

Can't touch this

Stundum kemur upp í mér smá manía. Þegar ég var yngri átti ég t.d. mjög erfitt með að leyfa fólki að fá sopa hjá mér. Alveg sama hver það var. Mér fannst bara stundum svo ógeðslegt að einhver væri með sína slepju á mínum drykk. Oft ef ég er að hlusta á útvarpið og heyri eitthvað sérstakt þá verð ég að endurtaka það upphátt. Sem er fáránlegt.

Þulur: "Nú verða sagðar veðurfréttir"
Ragnheiður: "Nú verða sagðar veðurfréttir" heldur áfram að gera eitthvað allt annað

Um daginn komst ég að nýrri maníu. Ég á mjög erfitt með fólk oft á tíðum. Svona nett fólksfælni. Þetta virðist verða meira vandamál með tímanum (enn og aftur tengist þetta lífsdilemmanu "Ég eldist"). Ég get alveg verið í mannmergð, ég uni mér t.d. mjög vel í stórborgum, en hérna á Íslandi þá vil ég helst ekki vera í kringum mikið af fólki, allavega ekki í mikilli snertingu við það. Ég verð afskaplega pirruð ef ég er í strætó og hann er yfirfullur og fólk kemur við mig. Sem er jú óhjákvæmilegt því að ef að strætó er yfirfullur þá hlýtur einhver að koma við þig. Þá stirðna ég öll upp og verð mjög meðvituð um alla í strætó og hvernig þeir eru að hreyfa sig. Stundum finnst mér m.a.s. óþægilegt að sitja við hliðiná einhverjum sem ég þekki, sérstaklega ef það er þröngt á þingi og sessunautur minn snertir mig örlítið með tjah, olboganum. Ég á stundum mjög erfitt með að vera á tónleikum, eins og mér finnst það þó gaman. En þar er oft alltof mikið af fólki og mjög skyndilega ákveð ég að fara og verð viðþolslaus þangað til ég er komin út. Ég vil ekki fara á listaopnanir. Mikið af fólki í litlu rými, sumir í svakalegum "bla bla - búbbl búbbl - glúgg glúgg" gír og aðrir að rýna í list í rólegheitum. Þá fríka ég og verð svolítið eins og stuðningsbarn með förunauti mínum. Stend alltaf fyrir aftan hann, segi ekkert og speisa út.

Þetta er þó næstum ekki eins alvarlegt og það hljómar. Þetta háir mér alls ekki en á til að skjóta upp kollinum á undarlegustu tímum. Kannski er þetta hluti af þessum netta tourett sem ég hugsa að ég þjáist af. Þegar mig langar að sparka í bíl eða segja fokkjú við einhver að ástæðulausu. Eða kannski er ég bara að missa það.

0 ummæli: