mánudagur, apríl 14, 2008

Elegans, milljón manns


Eins og hef hefur verið fyrir í áraraðir hefur árshátíð Hamrahlíðarkóranna ætíð verið haldin við mikla gleði um þetta leiti. Í ár var engin undantekning á og fór hún fram á Korpúlfstöðum þarsíðasta laugardag. Við eldri maddömmur Hamrahlíðarkórsins tókum að okkur skipulag og eins og sönnum dömum sæmir þótti okkur ekkert verkefni of stórt til að takast á við. Salinn leigðum við tóman. Þá þurfti að redda, tjah.. öllu öðru. Og fyrst að við fengum ekki gott tilboð í veislumat, nú þá elduðum við hann bara sjálfar. Forréttir, 15 lambalæri og meððí fyrir rúmlega hundrað manns? Pís of keik (í desert). Eins og gefur að skilja þótti okkur stöllunum heldur ekki leiðinlegt að sitja löngum stundum að ræða mismunandi krydd, marineringu og kartöflur (án gríns, okkur þótti það ekki leiðinlegt). Enn fremur vorum við líka þar með búnar að redda fáránlega góðu skemmtiatriði fyrir allan eldri sópraninn. Ég er ekki frá því að Magnús Hallur hafi haft rétt fyrir sér þegar hann kynnti okkur á svið. Ekki erum við bara fallegastar og fágaðastar, heldur líka besta röddin í kórnum. Og andskotinn hafi það, djöfull var þetta fab. Við Thorlacius horfðum tárvotar yfir salinn tveim tímum fyrir árshátíð, allt í þemanu "heimagert og krúttlegt", og samþykktum heilshugar og svona elegans hefði ekki sést í háa herrans tíð.


En nóg af yndisþokka eldri sórpana. Guðmundur Kristján, sá mæti maður, tók að sjálfsögðu að sér að vera hægri hönd okkar sem og sjá um hvers konar karlmennsku sem við þurftum á að halda (er einhver sem nokkur tíman gæti leyst það jafn vel af hendi?). Hann vildi þó ekki taka að sér dans. Árgerðin '90 og '91 tók að sér ofurölvun hvers konar og get ég svarið fyrir það að þau leystu verkefnið einstaklega vel af hendi. Yngri kórinn tók líka að sér hvers konar sleik, hvort sem hann færi fram inní kompum eða væri allt að því dýrslegur. Yngri sópraninn ákvað að grenja, allt kvöldið, yfir öllu. Yngri bassar tóku ofurölvunina mjög alvarlega og ákváðu helst að vera erfiðir og í sneiki. Þetta kombó, yngri sópran og yngri bassi, varð því nánast að mannfræðirannsókn þegar þau mættust í sleikhlutverkinu, annað grenjandi og hitt í ástandi. Einhverjir héldu víst að glösin væru úr sykri og þeim mætti því grýta hingað og þangað um salinn. Sami leikhópur hélt uppi stanslausu skemmtiatriði með tilheyrandi fokki og barsmíðum og ákváðu svo að leika senu úr Börnum náttúrunnar, hlaupandi út um móa og mosa. Spes. G.Einar tók Ómar Ragnarson að sér og Högni forláta leðurtösku þegar allar busastelpurnar höfðu fallið í yfirlið eftir einn dans við hann. Valdís blastaði líka Einn dans við mig og Pálma við góðar undirtektir. Stórkostlegir voru madrósadrengirnir þrír í yngri kórnum sem héldu uppi herramennsku piltunga. Andri Egilsson sá um gítarleik seint og síðar meir og Tobbi ákvað að spila með hljómsveitinni, þó alltaf lagið sem hún hafði verið að spila á undan.


Vissulega fór þetta allt fram með undarlegasta móti. Ekki trúi ég að það hafði verið aldursmunurinn. Harla. Kannski tunglstöðurnar? Varla. Allavega hefur ný kynslóð gefið mér aðra og nýja sýn á orðið smánun. En þrátt fyrir að við maddömmuteymið hefðum á tímabili endað hálfskælandi í pinnum, sparikjól og gulum gúmmíhönskum, vaðandi í skolpvatni og ælu inná klósetti að skamma fellow choirmembers, þá var þetta stórkostlegt. Enda kórárshátíð. Og þó að elegansinn hafi nú eitthvað farið forgörðum þarna um miðbik kvölds þá er bara alltaf eitthvað við þetta. Kannski skálin fyrir ástinni. Hún stendur alltaf fyrir sínu.

0 ummæli: