mánudagur, september 22, 2008

Má bjóða þér..?

Við Kakó eigum báðar nýjar undurfagrar tölvur með innbyggðri myndavél. Við vorum báðar mjög spenntar yfir því að vera núna með vefmyndavél og fórum að ákváðum að Skype-a. Kakó var á fundi en ég var á kaffihúsi. Internetsambandið var ekkert mjög gott og Kakó þar að auki mjög, mjög, mjög spennt yfir því að vídjó-skypea. Hún var eins og lítið barn á jólunum og brosti eins og sjálf sólin. Ég sat þess vegna ein úti í horni, svolítið eins og fáviti og talaði við tölvuna mína, helst þó tölvuskjáinn því að ég vildi ekki vera að garga yfir allt kaffihúsið.

Ég: "Kakó? Kakó? Kakó! Halló? Kakó?.. Kak.. K.. Kakó? Hæ.. Kakó? Kakó? Kakó! Halló! Kakó! Æ, Kakó?"

Eftir nokkrar mínútur kom afgreiðsludaman til mín með kaffið mitt en spurði frekar hikandi: "Fyrirgefðu, viltu s.s. frekar kakó?"

Það hlaut vissulega að koma að þessu fyrr eða síðar.

laugardagur, september 13, 2008

Ég þurfti að hringja í tölvuþjónustu í vinnunni um daginn. Í miðju samtali segir maðurinn "Má ég nokkuð biðja þig um að bíða andartak?" sem var ekkert mál. Svo var sett á biðtónlist sem í þessu tilfelli reyndist vera lag með Brunaliðinu:

Ég er að bíða eftir þér.
Alltaf að bíða eftir þér.
Ég bið þú komir til mín fljótt,
yfir hafið og heim!


Mér fannst það svo fáránlega fyndið að ég átti erfitt með að tala við mannin þegar hann kom til baka.

Það var líka mjög fyndið að vakna upp við færeyska sjávarútvegsráðherrann syngja Bubba á færeysku í morgun. Skemmtilegt samt. Ég væri til í svona íslenskt ráðherra grín.

fimmtudagur, september 11, 2008

Ég hlýt að vera að sjá um tónlistina á Gullinu í þessum skrifuðu orðum. Síðasta klukkutíman er búið að spila Pálma Gunn fjórum sinnum!

miðvikudagur, september 10, 2008

Jæja. Þá hef ég endanlega sagt skilið við Jesú og fært mig yfir í eitthvað kvennlegra og eldra í yfirlitum enda meira viðeigandi sökum þess að sjálf eldist ég á ljóshraða. Það er líka e.t.v. betra að ég sé ekki að flagga grínskoðunum mínum um sjálfan mannssonin á veraldarvefnum (ah, þarna gerði ég það aftur).

Annars er það helst í fréttum að ég var lasin heima í dag, sem var ekkert nema frábært, því að rúmið mitt fór í viðgerð og er núna hreinasta paradís. Ég hugsa að ég fari aldrei aftur framúr nema þá í ýtrustu neyð eins og t.d. ef ég þarf að skipta um nærbuxur. Í dag er ég því búin að lesa Frú Bovary, hlusta á Rás 2, fá mér kaffi, skoða dágóðan hluta af internetinu, teikna og opna útidyrahurðina fyrir pabba mínum. Allt var þetta framkvæmt í dámsamlega rúminu mínu fyrir utan það að opna hurðina og búa til kaffið, kaffi drakk ég þó uppí (ég verð einhhvern vegin að finna út hvernig ég get framkvæmt svona hluti án þess að fara framúr). Og að lokum vil ég tilkynna að ég elska Baggalút

fimmtudagur, september 04, 2008

Nokkrir punktar um pólitík

Rétt eftir að ég flutti á Leifsgötuna varð Ólafur F. borgarstjóri. Ég ákvað með sjálfri mér að ég ætlaði ekki að skrá lögheimilið mitt í Reykjavík til að mótmæla þessari hringavitleysu borgarstjórnarinnar. Þó að það væri ekki nema bara til að mótmæla með sjálfri mér. Ekki það að ég sé svo mikið sáttari við hægri hliðina á Seltjarnarnesi, en þar er þó allavega einhver regla á því hver ræður þann og þann daginn, ekki dregið í sæti vikulega og voðalega lítið um leiki á við "Ég nenn' ekki a' leika viþþig þarna kúkalabbinn þinn!" og annað sem ég hef venjulega bara séð hjá litlum börnum á aldrinum 8 til 12 ára. Eftir síðasta stólaleik í Ráðhúsinu hugsa ég að ég flytji ekkert lögheimilið mitt aftur fyrr en kosningarnar 2010 eru gengnar í garð. Jú ég veit svo sem að það er alveg fáránlegt að eiga sína eigin íbúð en vera með lögheimilið skráð hjá foreldrum sínum en satt að segja finnst mér þessir síðustu tveir borgarstjórar svo ótrúlega púkalegir og halló að mér er, líkt og alltof mörgum öðrum, stórlega misboðið.

Og af öðru en Reykjavík. Það er skemmtilegt að segja frá því að í október á síðasta ári hélt Hamrahlíðarkórinn til Kína. Þar heimsóttum við m.a. stórborgina Beijing en einnig fórum við til þriggja annara borga. Alls fórum við í fjögur innanlandsflug auk þess sem við flugum, jú, til og frá Kína. Enn fremur gistum við á fjórum hótelum, þó svo að fyrstu dagana okkar í Kína höfum við dvalið við mikið yfrlæti hjá þarlendum fjölskyldum. Í Beijing sem og Xianyang vorum við í nokkurs konar opinberri heimsókn á vegum íslenska ríkisins (sem styrkti ferðina um örfáa þúsundkalla, hversu mikið man ég ekki, en það var þó undir millunni). Alls var ferðin tæpar tvær vikur og við vorum rúmlega 60 manns. Ferðin kostaði okkur rúmar 8 milljónir, sem er einmitt einungis 3 milljónum meira en umdeild ferð 3 diplómata ríkisins og lífsförunauta þeirra. Það er kannski spurning um að einhver kórfélagi taki að sér að skipuleggja svona ferðir fyrir þessi ráðuneyti því mér þykir liggja augljóst fyrir að í allri þessari kreppu, þá erum við töluvert meira útsjónasamari í peningamálum.

Ég tek undir með því að haldið verði opið bókhald í borgarstjórn og ríkistjórn. Það er staðreynd að sumt fólk veldur því ekki að fá óbeislað peningavald í hendurnar. Í öll þau ár sem ég vann í veitingahúsabransanum þjónaði ég í ófáum pólitíkusaboðunum. Þau voru öll, hvert eitt og einasta, ofsalega grand. Það var ekki nóg að fá koníak, það varð helst að vera XO eða Napoleon. Borðvínið var alltaf í dýrara kantinum og oftast hætti það ekki að flæða fyrr en það var búið á lager. Það var ekki nóg að fá soðning, allir áttu að fá kaffidrykk. Og reikningarnir voru himinháir. Þeir hæstu sem ég sá á þjónaferlinum.
Ein kona sem ég kannast við var í Krónunni um daginn. Þar var líka staddur ungur ráðherra sem var að versla í matinn. Eftir að hann var búinn að versla ýtti hann innkaupakerunni að útidyrunum og beið í smá stund. Svartur jeppi keyrði uppá gangstéttina fyrir framan, ráðherrann tölti inn í bíl og bílstjórinn út, klæddi sig í regnkápu og byrjaði að týna matapokana (sem í voru hlutir á borð við Cheerios, djús og mjólk) inní bíl. Hæstvirtur ráðherra, plús fyrir að hafa verslað í Krónunni, mínus fyrir að haga þér eins og bjálfi á almannafæri.

Ef sultarólin væri hert á hlutum eins og boðum ráðuneytanna, útlandaferðum, veiðiferðum og öðru væri örugglega minna mál að leiðréttta launamismun ljósmæðra, kennara og annara stétta sem þörf er á. Það er fólkið sem fær sjaldnast koníak XO, 14 klukkutíma flug á SagaClass og veiðileyfi í dýrustu ám landsins. En ég er jú bara hinn almenni borgari. Kannski skil ég ekki að um leið og þú kemst í borgarstjórn eða á alþingi þá sjálfkrafa fer líkaminn að krefjast hluta eins og dýrasta kavíarsins, kampavíns - ekki freyðivíns og einkabílstjóra. Sjálf reyni ég að fara vel með þá peninga sem ég fæ útborgað. Ég vildi óska þess að stjórnendur gerðu slíkt hið sama við peningana sem ég borga þeim.