Í gær rakst ég af tilviljun á stórkostlega færslu hjá einhverri konu sem ég veit ekkert hver er. Ég hef sjaldan skemmt mér jafn vel yfir einni bloggfærslu og öllum athugasemdunum sem henni fylgja. Hér er fólk að viðra skoðanir sínar um Dorrit. Úff, það var svo margt sem langaði að vitna í. Einhver maður sem ásakar aðra konu um að vera ljóta. Ég veit eiginlega ekki afhverju. Konur sem vilja frekar hafa hefðardömur en Dorrit, sem kemur bara við allsbera karlmenn og fagnar þegar við vinnum. Æ, fólk. Mikið langar mig að klappa þeim á kollinn.
Ég á engan bíl, engan pening fyrir strætókorti og fæ ekkert nemakort. Svo að ég hjóla eiginlega hvert sem ég fer og er reyndar búin að gera það í allt sumar. Ég er reyndar alltaf svolítið hrædd að hjóla á Íslandi. Oft vil ég ekki hjóla á götunni, t.d. á Hringbrautinni og hjóla því á gangstéttinni. Þá verður gangandi fólk oft mjög reitt við mig. Ég hef grínlaust oft lent í því að það hefur verið gargað á mig að ég eigi að vera á götunni (sem er ekki rétt). En þegar ég er að hjóla á götunni, þá verða bílarnir oft mjög pirraðir líka og gera í því að keyra mjög nálægt mér mjög hratt. Og ég er alls enginn glanni, það get ég svo svarið, og passa mig alltaf að vera alveg útí kanti svo að ég sé ekki fyrir. En þrátt fyrir þetta finnst mér gott að hjóla. Og ég elska að hjóla fram hjá túristum. Þeir eru flestir vanir því að hjólin hafi sína sér hjólagötu og séu þess vegna ekki að flækjast á gangstéttinni.Túristarnir verða alltaf svo ótrúlega skelkaðir þegar maður hjólar fram hjá þeim. Frjósa alveg á staðnum eða grípa hvorn um annan til að passa að ég hjóli nú ekki á þá (ég á svo erfitt með að miða). Í morgun var ég að hjóla fram hjá Gamla kirkjugarðinum þar sem eldri hjón komu gangandi á móti mér, bæði í eins útivistarjökkum, hann með kortið uppi og hún með myndavélina um hálsinn. Ég mætti þeim akkúrat þar sem göngustígurinn og gangstéttinn sameinast og gangstéttinn er ca. 3 metra breið. Þegar ég var eitthvað um 5 metrum frá því að mæta þeim sé ég að konan verður skelfingu lostin, snýr sér við og stekkur á manninn, sem var fyrir aftan hana og hendir honum upp að steinveggnum hjá kirkjugarðinum. Svo hendir hún sér sjálf að veggnum með bakið í vegginn og hendur upp með síðum og lokar augunum... Ég réð ekkert við mig og fór bara að skellihlægja. Þetta var svo fáránlegt, sérstaklega þar sem konan var ekki að grínast. Mig langaði helst til að klappa henni líka á kollinn.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
0 ummæli:
Skrifa ummæli