þriðjudagur, maí 06, 2008

Að bjarga börunum

Ég ætlaði mér að vera í helgarfríi frá galeiðunni og bjórþambi, svona í eitt skipti. Kom samt heim um kl. 7.00 bæði á laugardags- og sunnudagsmorgun. Þetta var þó eiginlega samfélagsvinna því einhver þarf að sjá um að barirnir fari ekki á hausinn á meðan þið hin eruð í prófum (við Tyrfingur erum sjálfskipaðir formenn í klúbbnum "Björgum börunum í prófatíð"). Helgin var samt stórgóð og vel það. Hitti Thorlacius á Næsta Bar á föstudagskvöldið. Ég hef aldrei áður komið á Næsta Bar. Góður bar. Þar sat feitur, mjög karlmannlegur maður á endanum á barnum. Hann var að drekka bjór með röri. Ég sætti mig við þá staðreynd að fyrst að ég væri farin að fara á Næsta Bar og finnast það voðalega huggulegt eitthvað, þá væri ég orðin fullorðin. Allavega að einhverju leiti.

Á Ölstofunni hittum við Thorlacius tvo sem voru í alvöru í helgarfríi, frá Deildinni þ.e.a.s., og ákváðu því að halda uppá það með því að fara á galeiðuna. Annar þeirra sat bara við barinn og horfði á okkur, agndofa. Hann hafði væntanlega ekki séð konur í mörg ár. Hinn leit út eins og þessi önd. Grínlaust. Nema hann var í svakalegum eitís leðurjakka (að sjálfsögðu með herðapúðum), gráum stuttermabol með afmáðu merki einhverjar löngu útbrunnnar rokkhljómsveitar, í bláum næntís gallabuxum, girtum langt yfir löglega hæð og í alveg svakalegum spaðagír. Og hann var sko sannarlega kominn á barinn til að ná sér í kvensu! Ég veit ekki hvernig þetta er á Deildinni, en hann vissi greinilega ekkert hvernig þetta er gert. Hann stóð akkúrat fyrir aftan Thorlacius svo ég gat með engu móti látið hann fram hjá mér fara. Fyrst fór hann að blikka mig eins og enginn væri morgundagurinn. Ég hélt að hann væri með fjörfisk. Svo fór hann að senda mér svakalega grínsvipi í gríð og erg. Þá hélt ég að hann væri að fá flog. Þegar Ungfrú Toll skrapp frá vatt hann sér upp að mér og átti stórfurðulegar samræður við mig þar sem helst bar uppúr að hann bauð mér að vera vinkona mín (mín takið eftir, ekki sín. Hann vildi vera vinkona). Eitthvað hefur þessu slegið saman hjá honum. Seinna um kvöldið hélt einhver maður því statt og stöðugt fram að Thorlacius væri Silvía Night. Við vorum greinilega í logum þetta ágæta föstudagskvöld.

Ég stækkaði svo klúbbinn á laugardagskvöldið. Hjólaði með bjór í körfunni (Köben-stæl), sem ég stal frá húsmóðurinni á Leifsgötu, á grínkvöld-vínkvöld með Þremenningasambandinu og fylgifiskum á Hringbraut. Krumpuðum á hælum og svona basic. Héldum svo að sjálfsögðu í samfélagsþjónustumissjón á barnum. Ég slammaði svo svakalega að ég bæði sleit hálsmen og get ekki enn litið til hægri né vinstri. Átti mjög fyndið kvöld á KB með öðrum klúbbi sem ég er í. Sá klúbbur er reyndar töluvert stór og óopinber og meðlimirnir vita ekki allir af hver öðrum. Mér skilst að verið sé að plana suprise-partý á þeim bæ (höfustöðvum klúbbsins þ.e.a.s.). Að loknum nokkrum skyldu-trúnóum og ástarjátningum, að vanda, hjólaði ég svo heim og mætti blaðberanum og konu sem var að viðra hundinn sinn.

Allt þetta segir mér bara eitt. Það er að koma sumar sem er ekkert nema stórgott og frábært og yndislegt. Skál fyrir því.

0 ummæli: