Af graffítilistaverkum
Ég datt inní umræðu í vinnunni í kvöld tengda taggi og veggjakroti. Ég var að reyna að útskýra fyrir unglingunum að tagg og graffíti væri ekki það sama. Tagg væri nú eiginlega ekki list en graffíti gæti alveg verið það, ef það væri gert vel og gert á löglega staði. Unglingarnir voru að sjálfsögðu ekki sammála mér (þeir eru það reyndar aldrei enda eru þeir löglega afsakaðir sökum gelgjunnar). Þeir héldu því fram að ég vissi ekkert um svona og að ég hefði aldrei nokkur tíman graffað né haft áhuga á því og að ég þekkti enga graffítilistamenn í dag og ég væri bara of gömul og að í Grafarvogi væri strákur sem væri að graffa í bílskúrnum sínum og að á Nörrebro í Kóngsins væri sko búið að tagga ógeðslega mikið á vegg í kirkjugarðinum og að í Bandaríkjunum væri allskonar fólk með spreybrúsa og allskonar fleira svona fáránlegt bull sem vellur oft uppúr unglingum. Nema þarna höfðu þeir rangt fyrir sér (ef við sigtum út þetta með samhengislausa bull um Nörrebro, bílskúrinn í Grafarvoginum, Bandaríkin og að ég sé orðin of gömul). Ég hef sko víst áhuga á graffíti og ég hef sko víst taggað.
Sumarið eftir 9. bekk var ein vinkona mín ofsalega skotin í stráki. Hann var að sjálfsögðu fáviti, enda er það víst lögbundið hjá flestum strákum á þessum aldri. Fyrst sagðist hann vera skotinn í henni og fór með henni í bíó og svo fór hann bara í sleik við einhverja aðra stelpu. Þetta var að að sjálfsögðu ótrúleg ástarsorg og fór megnið af unglingavinnunni þetta sumar í að tala um hvað þessi strákur var ótrúlega mikill fáviti og ... þúst! Fáviti skiluru! Einn sumardaginn, þegar við vorum búnar að vera á irc-inu að reyna að finna nýjan strák fyrir þessa ágætu vinkonu mína, fórum við að leita að einhverju gríni úti í bílskúr hjá henni. Þar rákumst við á tvo nánast tóma spreybrúsa sem stóru bræður hennar höfðu verið að nota til að lappa uppá einhverja gamla bíldruslu sem þeir áttu. Þarna sáum við skyndilega stórkostlegt tækifæri til að ná okkur niðri á þessum fávita. Það fór mikill tími í það að finna út hvernig við gætum smyglað brúsunum út úr húsi án þess að nokkur tæki eftir því. Eftir svona u.þ.b. klukkutíma af mátun á ýmis konar töskum, jökkum, pokum, ferðatöskum og öðru, héldum við loksins út, með spreybrúsana falda í einhverri sundtösku sem var full af handklæðum. Við drifum okkar út að Ísbirni, sem stóð þá ennþá á Hrólfskálavörinni, og tróðum okkur, í skjóli þess hábjarta dags, í gegnum gat á grindverki inní portið sem snéri að Mýró. Portið var vel skreytt af graffítiverkum en við fundum einn auðan blett þar sem við ákváðum að láta til skara skríða. Planið var s.s. að skrifa eitthvað ömurlegt um þennan fáviti svo að hann gæti fengið að kenna á því. Ég átti að spreyja því að vinkona mín þorði því alls ekki og ákvað að standa vörð. Svo ég hófst handa við að kreista út allt sem eftir var í brúsunum. Það gekk ekki vel, en ég reyndi hvað ég gat og einbeitt mér svo mikið að ég datt gjörsamlega inní minn eigin "graffítiheim". Þegar seinni brúsinn kláraðist, eftir mikið maus, steig ég til baka til að dáðst að þessu stórkostlega listaverki mínu. Á veggnum stóð, skýrum, stórum, silfurlituðum stöfum "Ívar homi".
Svo þið, elsku unglingar, skuluð sko ekki halda að ég viti ekki neitt um graffíti því ég átti sko minn glæsta feril, sem byrjaði og endaði í portinu þennan ágæta sumardag.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
0 ummæli:
Skrifa ummæli