mánudagur, mars 17, 2008

Af gömlu fólki

Tvo morgna í viku koma hér nokkrir eldri menn og spila billiard. Þeir hata mig. Í alvöru. Í haust fór ég til læknis einn morguninn og kom þess vegna í vinnuna seinna en venjulega, þó ekki of seint, og mætti einum þeirra í hurðinni. Hann er þessi stundvísa týpa sem er mættur a.m.k. 10 min. á undan öllum öðrum. Síðan þá hefur hann alltaf sagt eitthvað á þessa leið:

"Hva' bara harkan sex? Mín mætt í vinnuna?"
"Já væna, þú hefur bara ákveðið að drífa þig á lappir í morgun og kíkja á okkur? Flott hjá þér!"
"Nú, mátti prinsessan fara út í morgun?"
"Hvað, er eitthvað sérstakt tilefni?

Alltaf. Hvern einasta morgun. Í allan vetur. Alveg sama klukkan hvað ég er mætt.

Ég helli alltaf uppá kaffi fyrir þá. Það verður að vera komið inná borð í síðasta lagi 10 min. yfir 10. Annars riðlast öll dagskráin hjá þeim og það þarf að endursetja gangráðinn og gefa þeim hjartapillurnar. Um daginn var ekki til mjólk og var reyndar ekki búin að vera til í viku (því að við eigum aldrei neitt í ísskápnum vegna þess að við borðum aldrei hérna). Þetta var mjög erfitt tímabil fyrir gömlu mennina. Í fyrsta skiptið sagði ég þeim að það væri því miður ekki til mjólk í kaffið. Samt fóru þrír inní ísskáp að leita. Í annað skiptið sagðist ég ætla að fara fá lánað mjólk og einn hreytti í mig "Já, þó minna væri. Hún ætti nú auðvitað bara að vera til!". Þegar ég kom svo með mjólkina sagði sá hinn sami, mjög móðgaður "Afhverju ertu að stand í þessu bölvaða veseni fyrir okkur?". Svo fussaði hann og sveiaði. Og fékk sér mjólk í kaffið. Undanfarið hef ég bara komið með mjólk að heiman. Í pela. Já, ég veit. Það er mjög skrítið.

Þeir eru líka mjög duglegir við að láta mig vita þegar eitthvað er að. Dúkurinn er lélegur, battinn er glataður, vasinn er ónýtur, kaffið er ekki tilbúið, endabrettið er drasl, mjólkin er búin, hækjan er týnd, hækjan er ljót, hækjan er biluð o.s.frv. Þessi blessaða hækja var næstum búin að koma í veg fyrir hátíðlegt jólahald á sumum heimilum býst ég við. Hækjan sjálf (hækja er svona "hjálpartæki" í billiard) hafði dottið af kjuðanum og týnst. Ég fann hana í jólahreingerningunni á bak við ofn. Þá þurfti að laga hana. Venjulegt lím dugði ekki. Það þurfti trélím. Við stöllurna höfðum ekki komist í að kaupa trélím og einn morguninn spyr einn sá gamli, mjög góðlátlega "Á ég ekki bara að taka hækjuna með mér og laga hana?" "Ha, nei nei, það er nú algjör óþarfi. Við verðum búanr að laga þetta fyrir fimmtudaginn" svara ég. "Ja það er nú ekkert mál" segir hann, í hlýlegum afatóni. "Já þú mátt það gjarna ef þú vilt". Þá verður sá gamli skyndilega mjög önugur og hreytir í mig "Ja, ég myndi nú helst vilja sleppa því, ef ég gæti komist hjá því! Ha!"

Þetta hlýtur bara að vera partur af því að eldast. Nei, samt ekki. Þeir eru alltaf mjög indælir og afalegir. Þetta er frekar hluti af því að vera á gelgjunni. Ég er bara þreytt, veik, í fýlu og bitur á mánudagsmorgni. Húsmóðir á Leifsgötu fór í heimsreisu til Köben, Amsterdam og Barcelona, við Clooney fórum að sjá hryllingsmynd og ég sá afmynduð börn í hverju horni og óhreina diska og nærbuxur út um allt. Þau liggja bara svo vel við höggi, gamalmennin.

0 ummæli: