miðvikudagur, febrúar 27, 2008

Af Leifsgötu

Það er fæstum frétt að ég og Leifur höfum loks hafið langþráða og hamingjusama sambúð, enda hafa flestir komið þangað í kaffi eða til að skála í rautt, hvítt, bjór og Comso við Leif. Og þó, ég er væntanlega sú eina sem hef skálað við Leif. Á Gamlárskvöld gekk ég um og skálaði við veggi, ískáp, stóla og annað í eintómri gleðivímu.

En sambúðin er sæt þó svo að Leifur líti ennþá svolítið út eins og íbúð í Viðarrimanum árið 1994, fokheld, en tilbúin til notkunar. Ég á heldur ekki svo margt, sex mublur og fjóra lampa, þá að frátöldu eldhúsinu sem er jú hjarta og sál Leifs og undurfagurt. Það er reyndar yfirfullt af hinum ýmsu gerðum af glösum. Ég vil engin fleiri svoleiðis takk. Það er þó planið að fá mér gardínur á komandi mánuðum. Og kannski hurðahúna líka. Eða bara skilti á klósettið "Upptekið"/"Laust".

Mér til mikillar gleði hefur elskulegur Vignir líka flutt inn til okkar Leifs. Hann kom með sjónvarp, síma, Paulu Abdul, þessa sænsku poppdívu þarna, Lenu og mikið af þverflautugríni. Það er allt svo velkomið og þá sérstkalega hann sjálfur. Við grínum í kompunni (í alvöru), ræðum óbærilegan léttleika tilverunnar, förum í synchronized fötum á galeiðuna og skipuleggjum svo mikið af þemapartýum að bráðum verður leikið við Leif á hverjum einasta hátíðs- sem og virkum degi.

0 ummæli: