Plantai - plasma!
Lestarnar í Póllandi eru skrjóðar frá lokum fyrri heimstyrjaldarinnar sem skrölta á lestarteinunum í taktföstum ryþma, alveg eins og í The Dancer in the Dark. Vagnarnir, sem eru eins og í bíómynd (þó ekki eins og í The Dancer in the Dark), eru fullir af strákum sem eru að springa af testosteróni og gömlum mönnum sem selja bjór undir borðið. Yfir öllu liggur lykt af sterkum rakspíra, hlandi, svita og sviðnu grasi.
Í Opole eyðum við Braulio miklum tíma á barnum. Bjórinn kostar jú líka svo hlægilega lítið að það væri synd að fá sér ekki bjór á hverju kvöldi. Og á hverju kvöldi, um leið og við komum á barinn, setur barþjónninn Michael Jackson diskinn sinn á repeat og við dönsum, þó ekki uppá borðum, því það er bannað. Braulio dansar modern contact dans og ég, Peca og ítalarnir fáum okkur ítölsk skot á barnum. Ég vil ekki sjá pólsku skotin, sem samanstanda af trönuberjasafa, tabasco og vodka. Við reynum öll að læra textann við pólska Eurovision lagið og barþjóninn spilar það reglulega inná milli Michael Jackson og pólskra barnalaga um sápu og tannburstun.
Ég eyði hátt í þremur klukkutímum í second hand búð, aðallega að skemmta mér yfir stórkostlega ljótum eitís samfestingum og jökkum. Margt minnir mig á miðbæ Reykjavíkur. Ég kaupi mér ofurhetjubúning, því slíkan eiga allir að eiga, kjóla og ósköpin öll af klútum sem kosta nánast ekki neitt. Í búðinni er líka lítið barn sem gerir ekkert annað en að jarma á mömmu sína, alveg eins og rolla. Það þykir mér skemmtilegt.
Matartíminn fer að mestu leiti í að giska á hvað við séum að borða í það og það skiptið. Við Lóla röppum á íslensku fyrir mannfjöldann og sláum í gegn. Svo svakalega að við erum klappaðar upp tvisvar.
Braulio heldur reglulega neyðarfundi þar sem hann kemur hlaupandi inn til mín og segir "Maísól - now!". Þá fer ég inn til hans og skemmti mér yfir stórkostlega, dramatískum mónológum sem hann býr til á staðnum því hann er jú ekki bara samkynhneigður heldur afbragðs dramadrottning líka.
Mér finnst Pólland hvorki skítugt né óaðlaðandi, eins og svo margir vilja halda að það sé. Þvert á móti þykir mér heillandi þó ég hafi séð afskaplega lítið af því. Ólíkt Braulio þykir mér reyndar ekkert heillandi við pólskan karlpening, en það er önnur saga. En sama hvað ég reyni þá get ég ekki lært hvernig á að segja takk á pólsku né nokkuð annað nema nei og já. Ég verð hugsanlega að geyma það þangað til ég fer næst til Póllands til að kaupa mér meiri ofurhetjubúninga og ódýran bjór.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
0 ummæli:
Skrifa ummæli