laugardagur, ágúst 26, 2006

Allt sem er rautt, rautt, finnst mér vera fallegt, fyrir vin minn, Kóngsins Köbenhavn

Ég keypti mér rautt hjól í gær. Það er fabjúlöss með körfu, keðju- og afturdekkjahlíf, bögglabera, 3 gírum, gullröndum og det hele. Reyndar þurfti ég að reiða það megnið af deginum því Karól var ekki á hjóli (hún á samt hjól, m.a.s. 2). Þegar Karól hljóp inní einhverja búð þá var ég eins og lítið barn og hjólaði í hringi þangað til að Karól kom aftur. Nú vil ég alls ekki taka metróið en vil bara hjóla hvert sem ég fer. Hjólið mitt og ég..

Ég keypti mér rauða hlaupaskó um daginn. Þeir eru ekki alveg jafn fabjúlöss og hjólið, en hafa samt verið notaðir til þess að hlaupa í Frederiksberhave í morgunsárið. Það er reyndar svolítið fabjúlöss. Merkilegt samt hvað það er leiðinlegt að kaupa hlaupaskó, eins og mér finnst gaman að kaupa skó. Hlaupaskór eru bara alltaf svo ljótir. Mínir eru reyndar nokkuð töff, miðað við að vera hlaupaskór.

Já og talandi um að kaupa skó. Það helltist yfir mig smá panikk í gær. Ég hélt að ég væri búin að missa hæfileikann, þ.e. skóhæfileikann. Ég og Karól þræddum allar búðir Kóngsins í leit að svörtum, flatbotna skóm. Nánari skilgreining var það nú ekki. En þeir virtust aldrei ætla að koma í leitirnar og hélt ég því að ég hefði kannski klárað skókvóta lífs míns með hlaupaskónum. En nei, örvæntið ekki kæru lesendur, kvótinn er langt í frá búinn, enda fundust svörtu skórnir að lokum.

Þarf að vekja sambýlingana. Tívolíð bíður okkar, já og auðvitað hjólið mitt.

0 ummæli: