þriðjudagur, apríl 25, 2006

Stundum dettur mér eitthvað í hug, svo gjörsamlega óviðkomandi því sem ég er að gera. Já ég veit, þetta hendir alla, en undanfarið hef ég verið að gera eitthvað, t.d. í bíói og þá man ég allt í einu eftir einhverju stórfurðulegu og smávægilegu atviki sem gerðist fyrir löngu síðan. Eins og áðan, þá var ég að tala við mann í símann og hann var að spyrja mig út í 17. júníhöld Seltjarnarnesbæjar. Ég fór að segja honum frá þeim en svo allt í einu fór ég að hugsa um þegar ég var 13 ára og var að heimsækja vinkonu mína í Noregi. Við vorum að fara að skoða eitthvað safn og stoppuðum fyrst hjá vinafólki foreldra vinkonu minnar sem áttu heima í gulu húsi og áttu lítið barn. Ég man ekkert eftir barninu né vinafólkinu en ég man að húsið var gult og að það var alveg ofboðalega ljótt listaverk á arinhillunni. Já, og gólfteppið var svona loðið rjómahvítgrátt. Svo fórum við á safnið en ég man ekki einu sinni hvað var verið að sýna. En ég man mjög vel hvað ég fékk ótrúlega vonda samloku og þegar ég hugsaði um það, þar sem ég var í miðjum klíðum að útskýra skrúðgönguna, fann ég allt í einu fyrir vonbrigðistilfinningunni sem ég hafði upplifað, nærri 10 árum áður, yfir þessari skitnu samloku.

Mér fannst þetta vara svo súrrealískt.

0 ummæli: