föstudagur, mars 31, 2006

Óeðli

Ég hef áður bloggað um óeðli sem vill stundum ná tökum á mér. Eins og þegar mig langar að pissa í sundlaugina áður en ég fer uppúr og hlægja að hinu fólkinu sem syndir í pissinu (þó að það sé örugglega nú þegar að synda í pissi). Eða skyrpa í hendina á mér áður en ég tek í höndina á Sænska sendiherranum (ég er nefnilega aaaalltaf að taka í höndina á honum).

Undanfarnar vikur hefur gripið mig eitthvað óeðli sem að ég á stundum erfitt með að ráða við. Ég hef þó ekki enn látið undan. Óeðlið er þó ekki mjög neikvætt en stundum dettur mér eitthvað í hug sem að mig langar að gera, sem væri stórfurðulegt og engum nema mér sjálfri til smánunar. T.d. langar mig alltaf þegar ég keyri ein fram hjá fólki, sem er að bíða eftir strætó, að stoppa fyrir framan það, bíða smá stund og skrúfa svo niður rúðuna og segja "Bíddu, eruð þið ekki að bíða eftir 11? Já, ég er 11". Já ég veit, þetta er ekkert það fyndið, en mér finnst þetta sjálfri svo óendanlega fyndið.

Svo vill það oft gerast í ræktinni að nokkrur massatröll (eða jafnvel wannabe-massatröll) eru að lyfta og allir eru að reyna að toppa hvorn annan. Einn tekur t.d. 25 kg. og þá verður næsti að taka 45 kg. Svo öskra þeir allir rosalega og blóta og reyna að vera karlmannlegir og sveittir með eurotrans tónlist í eyrnum, í wife-beater hlýrabolum og titrandi undan lóðunum því að í rauninni taka þeir bara 25. kg í bekkpressu en ekki 125 kg. Og alltaf þegar þetta gerist þá langar mig svo að fara og standa hjá þeim með mín 5 kg. í stuttermabol merktum Legó-keppninni að hlusta á Spilverk Þjóðanna og fara að öskra og blóta og þykjast vera með í keppninni hver er sterkastur. Mér finnst það sjálfri sjúklega fyndið en ég er ekki viss um að örðum myndi finnst það jafn fyndið og mér.

miðvikudagur, mars 29, 2006

Greyið litlu börnin
Við ávaxtaborðið í Haugkaup á Eiðistorgi

Móðir: "Og var gaman í heimilisfræði í dag?"
Sonur: "Nei við fórum ekki, kennarinn var í viðgerð"
Móðir: "Í viðgerð? Fór hann ekki bara til læknis?"
Sonur: "Nei, hann fór í viðgerð"
Móðir: "Já já, fór hann með bílinn sinn í viðgerð?"
Sonur: "Æ nei mamma! Skiluru ekki? Hann fór í viðgerð!"
Móðir: "Já en elskan mín, fólk fer ekki í viðgerð"
Sonur: "Jú, þessi kennari allavega. Hann var mikið bilaður"

föstudagur, mars 24, 2006

Star: West Side Edition

Ég er ein af fjórum íslendingum sem stóð við áramótaheitið. Undanfarna mánuði hef ég hægt og smátt tekið upp heilbrigðari lífstíl. Ég borða grænmeti, ávexti og skyr eins og ég eigi lífið að leysa og drekk svo mikið vatn að ég gæti allt eins vökvað sjálfa mig reglulega með garðslöngu. Svo fer ég að sjálfsögðu reglulega í ræktina. Engar áhyggjur, ég mun ekki fara í spray-tan klefa, aflita á mér hárið, fá mér tribal tattú og stefna á fitness keppnina á næsta ári. Þetta er allt gert með ákveðið markmið í huga, annað en þau tvö að líða betur og líta betur út. En já, ræktin. Ég fer oftast í minnstu og ljóstustu líkamsræktastöð landsins, Þrekhúsið í Vesturbænum. Þrátt fyrir að vera lítið og ljótt (í alvöru) þá er þarna aðallega ríka og fræga fólkið. Ég hef t.d. komist að því Bubbi á afmæli á Jónsmessu í ár, landbúnaðarráðherran horfir oft á MTV eða VH1, Jóel Pálsson tekur ótrúlega mikið í bekkpressu, einn frægur og ónafngreindur hlustar aldrei á annað en teknó þegar verið er að lyfta o.s.frv. En það eru aðallega ríku húsmæðurnar sem skemmta mér mest. Ég get svo svarið það að ég er, óviljug, að læra meira og meira um lífið á Seltjarnarnesi. Fyrir utan að vita allt um hvers vegna Jón og Gunna skildu, Lúlli og Lóa fluttu af Melabrautinni, Sigga á Sævó er komin á nýjan bíl og Jónmundur er aldrei í gráum jakkafötum, þá hef ég í þessari viku komist að því hvernig eldhúsin hjá hverri og einni líta út, hvaða gólfefni er í hverju húsi og hefur verið, hvað hvert heimili er duglegt að flokka og þar af leiðandi hvað hvert heimili notar ruslatunnuna mikið, hvers vegna þær eru allar hættar að flokka mjólkurfernur, hvers vegna ein er með kattafóbíu og hvaða sálfræðingar eru tilvaldir til þess að lækna slíkar fóbíur, hvenær þær og makar þeirra eiga afmæli, hvað er best að gera í lúxusfríi á Tælandi, hvar er best og verst að fara í göngumælingu.. og svo gæti ég lengi talið. Ég held að þegar ég verð komin í tryllt form verði ég einnig orðin tilvalin í starf ristjóra "Séð og heyrt: Seltjarnarness- og Vesturbæjarútgáfa"

sunnudagur, mars 12, 2006

"You have the right to remain silent.."

Mig dreymdi svo hryllilegan draum um daginn. Fyrst voru fjögur börn að reykja allt annað en sígarettur á balli. Og ég varð svo reið að ég sló þau öll. Svo stóð ég inni á baðherbergi hjá vinum mínum með furðuleg skæri í hendinni og hugsaði með mér "Ég sturta þeim niður. Þá hlýt ég að komast upp með þetta". Ég fór í huganum yfir hefðbundna rannsókn mormáls og reyndi að átta mig á því hvort að lögregluna myndi nokkurtíman gruna mig. Og svo birtist fyrrverandi kórfélagi minn í svona hugsunabólu fyrir framan mig og sagði "Þú ert búin að komast upp með að drepa mig, en þú kemst ekki upp með að drepa systur mína!" Mig dreymdi ekki morðið sjálft en ég vissi að ég hafði myrt einhverja stelpu, Lárusardóttir var hún. Ég var reyndar vakin skyndilega, sem betur fer, en ég var kófsveitt, með gæsahúð og öran hjartslátt. Versta var að mér fannst ennþá eins og ég hefði myrt einhvern. Það tók mig um 40 min. að róa mig og sofna aftur.

Í nótt dreymdi mig hins vegar sjúklega skemmtilegan draum um Tyrfing, flygil, surfbretti og Brasilíu. Enda ekki furðulegt. Kvöldið var tryllt. Vann ljósmyndaprentara á árshátíð og dansaði af mér rassinn við rocabilly og surf á 11. Lengi lifi Curver og surfið! Hallelúja!

föstudagur, mars 10, 2006

Í gær steig ég á svið með Skítamóral og kenndi 300 manns línudans (hah! rímar).. Ég vona heitt og innilega að þetta hafið ekki verið hápunktur frægðar minnar.

mánudagur, mars 06, 2006

Ég var að endurfæðast. Nýja undurfagra myndavélin mín var að koma í hús. Vinir mínir, ég þakka samfylgd í gegnum árin. Nýtt tímabil er hafið. Þið getið bara gleymt þessu.

Bless..

fimmtudagur, mars 02, 2006

Enn af móður minni

"Nei Ragnheiður, þú mátt ekki stela úr H&M, það má ég bara gera" sagði móðir mín rétt í þessu. Hún meinti það og var m.a.s. að vísa í atvik sem átti sér stað í London í haust. Þá henti hún reyndar ránsfengnum, sem var stolið viljandi, í ruslið. Það var óviljandi. Um daginn stóð hún og eldaði kvöldmat með vespuhjálminn til þess að skemmta barnabarninu. Spurði svo hver ætti einhver miða og sagði "Ég get ekki lesið á hann því að gleraugun passa ekki innan undir hjálminn og það er svo mikil móða á glerinu". Ég skil alltaf betur hversvegna ég er eins og ég er í dag.

Annars er ég nýlent á landinu eftir yndislega dvöl í Kóngsins Kaupinhöfn. Karól, góður matur, hjól, mikið spilað af Marías, túristadagur, secondhand búðir, kaffi, bjór... Ég ætla s.s. ekkert að fara nánar út í það. Þetta er bara hið ljúfa ljúfa líf.