fimmtudagur, október 13, 2005

Ófyndnar pælingar um lífið

Í morgun vaknaði ég of seint svo að ég þurfti að sleppa ristuðu brauði með hvítlauksrjómaosti og latte, sem er eitt af mikilvægustu andartökum dagsins hjá mér. Ég labbaði af stað í vinnuna. Morgunsólin glitraði á nýföllnum snjónum, loftið var svo kalt að ég var eldrauð á nefinu og skórnir mínir voru of sumarlegir. En allt var svo fallegt. Furðulegt því að í gær horfði ég á gul og brún laufblöð leika um með vindinum í portinu heima hjá mér og það var svo fallegt líka.

Og núna, þegar ég lít út um skrifstofugluggann, sé ég fimm eldri menn leika billiard. Þeir koma alla mánudags- og fimmtudagsmorgna. Þá brosi ég allan hringinn því að mér finnst þeir svo frábærir. Jafnvel þó að þeim finnist kaffið mitt vont.

0 ummæli: