þriðjudagur, janúar 04, 2005

Martröð á jólanótt

Það er að sjálfsögðu hneysa að ég hafi ekki skrifað neitt um þetta leikrit fyrr. Nú gæti e.t.v. einhverjum fundist ég fara of fögrum orðum um sýninguna, sérstaklega þar sem ég ber sterk tengsl til NFMH. En sama hver hefði sett þetta upp, ég hefði alltaf verið jafn hrifin (Á Herranótt átti t.d. langbestu sýnignuna í fyrra að mínu mati og ég stend enn fast á því). En nóg um það, hefst hér lofsöngurinn.

Ég fullyrði að þetta sé ein besta uppsetning NFMH í langan tíma sem og ein besta menntaskólauppsetning í enn lengri tíma. Allir leikendur í minnstu sem og stærstu hlutverk, standa sig með einstakri prýði. Þó verð ég sérstaklega að hrósa Halla sem er svo magnaður að ég var gjörsamlega orðlaus, með gæsahúð og slefandi. Hrellir, Skellir og Hryllir eru líka ótrúlega vel leikin. Ég gæti reyndað haldið áfram að hrósa hverjum og einum en eitt það skemmtilegasta við sýninguna er það hvað allir fá að njóta sín með sinn eigin karakter, sama hversu veigamikið hlutverkið er. Hljómsveitin er frábær og allur söngflutningur til fyrirmyndar, miklu miklu betri en ég bjóst við (og ég bjóst alls ekki við neinu slæmu). Búningarnir eru ótrúlega vel gerðir sem og öll leikmyndin. Lýsingin er á köflum mögnuð og nær að skapa stemmningu sem á vel við. Litlu skemmtilegu lausnirnar eru frábærar eins og t.d. hundurinn hans Jóa og Ljótikallinn á bakvið tunglið.
Að sjálfsögðu er örugglega eitthvað sem ég gæti sagt neikvætt en ég man ekki neitt því þetta var svo frábær sýning.

Ég mæli hjartanlega með því að allir leggi leið sína niður í Loftkastala og sjái þessa frábæru sýningu. NFMH má virkilega vera stolt af þessu. Ég er allavega voðalega stolt fyrir þeirra hönd.

0 ummæli: