þriðjudagur, janúar 27, 2004

Mistök dagsins

Ég eyddi deginum í myrkrinu og nú ilma ég öll af framkallara og fixer. Við vorum tvær saman og vorum búnar að hafa það náðugt og leyfðum heittelskuðum Miles Davis að skapa stemmningu. Um kvöldmatarleytið ákváðum við að fara og fá okkur að borða, kjúlingasataysalat á Vegamótum sem er besta máltíð sem finnst í Reykjavík, sérstaklega ef beðið er um ost á hvítlauksbrauðið. Við snérum aftur í myrkraherbergið með kaffi í hönd og gleði í hjarta. Þegar við nálguðumst dyrnar heyrðum við eitthvað óma í fjarlægð, eitthvað sem boðaði ekki gott. Og þegar við opnuðum dyrnar barst á móti okkur hljómur liðinna tíma. Hljómur verri tíma. Fleetwood Mac í allri sinni "dýrð". Og við áttum ekki annars kosta völ en að hlusta á. Þau sem valið höfðu tónlistina fannst Miles Davis leiðinlegur. Næst þegar ég fer í mat, þá ætla ég að setja miða á geislaspilarann þar sem á stendur "Ragnheiður var hér fyrst, hún ræður". Þá getur ekki verið að þessi mistök eigi sér stað aftur.

Annars finnst mér þetta fyndið.

0 ummæli: