laugardagur, október 25, 2003

Eftir að ég byrjaði á Lækjarbrekku þá gerði ég mér grein fyrir því að í fáum stéttum landsins er lagt jafnmikið upp úr því að hrekkja fólk og í veitingarbransanum. Ég var t.d. einu sinni beðin um að fara út og kveikja á útikertinu. Rokið var svo mikið að eitt tréið bak við Lækjarbrekku hafði fokið um koll. Og ég féll á heimskuprófinu og fór að leita að kerti. En þetta er afskaplega lítið miðað við þá hrekki sem við ræddum í gær eftir vinnu.

Ein stelpa sem var nýbyrjuð á vetingastað hér í bæ, var send út í frysti að skúra hann, með mjög heitu vatni... sem hún og gerði.

Á Glaumbar var nýtt fólk einu sinni alltaf beðið um að fara niður á Gauk að láta lækka í græjunum. Einnig höfðu eldri starfsmenn fundið upp ímyndað tæki ætlað til þess að ná upp limesneiðinni úr Corona flöskunum eftir að bjórinn hafði verið drukkinn og nýja fólkið var iðulega sent hingað og þangað að ná í þetta tæki. Þeim var líka alltaf sagt að dj-inn væru á bak við stóra spegilinn og í flest öllum tilfellum mátti sjá nýja fólkið liggja og banka á spegilinn í von um að fá óskalag.

Á Café Óperu var nýr þjónanemi einu sinni sendur upp á loft og látinn leita í tæpa fimm klukkutíma að svokölluðum "vinstrihandarbollum"

Á Lækjarbrekku var nýr þjónanemi einu sinni beðinn um að smakka nýtt konfekt sem var í rauninni súkkulaðihjúpaður hákarl. Eftir það var hann alltaf kallaður Moli. Fátt toppar þó drenginn sem ætlaði sér að læra þjóninn og féll fyrir öllum brögðunum. Hann var, á einum degi, sendur á Humarhúsið að ná í vakúm því að það þurfti að vakúmpakka mat sem einhver ætlaði að taka með sér. Hann hljóp út um allan bæ í leit að "desertpressu". Hún var til á Caruso. Stuttu seinna hljóp hann aftur út um allan bæ í leit að "pizzabótum". Þær reyndist einstaklega erfitt að fá, enda ekki furða.

0 ummæli: