laugardagur, maí 03, 2003

Af stjúpforeldrum

Ég, mamma mín og systir fórum á pizzastað hér í bæ ekki alls fyrir löngu. Á borðinu við hliðina sat ansi skemmtileg fjölskylda. Það var hún Vala (hún hét það í alvöru), Andri kærastinn hennar (hann hét örugglega Andri) með son sinn Ólíver (hét örugglega Ólíver Máni/Dagur/Aron). Einnig voru með í för tvö börn Andra af fyrra hjónabandi. Þau verða ónafngreind. Vala laggði sig mikið fram við það að vera skemmtileg stjúpmóðir. Hún var t.d. í Britney Spears bol og var að kenna stjúpdóttur sinni hvernig maður á að mála sig fyrir fermingu auk þess sem hún sagði "Ertu að grínast? Vá GEÐVEIKT þúst!" í öðru hverju orði. Þetta þótti okkur, kjarnafjölskyldunni, einstaklega skondið. Talið barst að fráskildum foreldrum seinna í vikunni yfir kaffibolla hjá frænku minni. Frænka mín er gift sjómanni og síðast þegar hann hélt út á sjó var einn sjómaðurinn með nýju konuna sína með sér. Hún lagði sig líka mikið fram við að vera skemmtileg, talaði ofurblíðlega við barnið og dró það að bryggjubrúninni til þess að barnið gæti skoðað sjóinn. Frænka mín sagði að ef að þetta hefði verið hennar eigið barn hefði hún örugglega sagt, mjög háum og höstugum rómi: "Viltu gjöra svo vel að kyssa pabba þinn, fara inn í bíl og vera þar. Það er stórhættulegt að liggja þarna á bryggjunni góði minn, þú gætir dottið í sjóinn og steindrepist!".
Þess má einnig geta að vinkona mín á litla hálfsystur. Þegar hún var í 7 ára bekk var aðeins einn í bekknum sem átti ekki fráskilda foreldra. Öll hin börnin vorkenndu þessum eina rosalega mikið vegna þess að hann fékk svo lítið af pökkum á hátíðisdögum og kannski bara tvö páskaegg. Tja, þetta líf!

0 ummæli: