fimmtudagur, maí 01, 2003

Af fóbíum og flugum

Einhverjum barst það til tals að nú væri tími til þess að rita um flugur og fóbíur. Ekki vil ég missa af lestinni og hefst nú lesturinn.
Ég er ekki jafn viðbjóðslega hrædd við flugur og Marta. Ég er ekki hrædd við býflugur, randaflugur, fiskiflugur eða hrossaflugur. Mér er hinsvegar mjög illa við geitunga. Verst af öllu þykir mér þó helvítis moskítóflugurnar og er ansi fegin að hér, á voru ísa kalda landi, finnist kvikindin ekki. Ekkert þykir mér verra heldur en að leggjast til svefns og heyra þá lítið hátíðnisuð. Hægt og rólega þarf að rísa upp, taka sér "Flying Insect Killer - Triple Killing Power" í hönd og hefja störuna út í loftið. Þegar loks er komið auga á villidýrið þarf að elta það hægt og rólega og svo, án viðvörunar, sprauta miklu magni af eiturefnum í þeirri von um að dýrið muni látast kvalarfullum dauðdaga. Þegar ég var í Egyptarlandi þá elskuðu moskítóflugurnar mig. Þær fögnuðu skjannahvítu konunni sem hafði andað að sér hreinu fjallalofti og drukkið bergvatn allt sitt líf. Blóðið í henni var svo tært og bragðmikið að á örfáum dögum barst orðið á milli og allar moskítóflugur Egyptarlands flykktust að til þess að prófa nýja góðgætið. Það er skemmst frá því að segja að ég límdi saman hendurnar til þess að klóra mig ekki til blóðs og oft fékk ég spurninguna "Gvöð, ertu með hlaupabólu?" (spurt á ensku með arabískum hreim).
Af fóbíum er þó aðeins þrennt að segja. Mín versta fóbía (og það vita þeir sem umgangast mig) er brak í puttum, baki, hálsi og örðum líkamshlutum. Því er haldið fram að hægt sé að pína mig til dauða með því að láta mig hlusta of lengi á brak. Það er örugglega rétt því að mér hryllir við tilhugsunina. Ég er líka mjög hrædd um að keyra á ketti. Ég er ekki hrædd um að keyra á börn eða fólk, bara ketti. Svo er ég hrædd um að fuglar kúki á hausinn á mér. Það er líklegast vegna þess að Siggi T. lenti eitt sinn í því að fuglarnir héldu að hann væri ferðaklósett og mörgum sinnum (fjórum ef ég man rétt) á mjög stuttum tíma kúkuðu þeir á hann. Ullabjakk!

0 ummæli: