fimmtudagur, apríl 17, 2003

Dýrindis dagar

Hér mun fara saga mín síðustu daga, þó verður aðallega greint frá öllum þeim mat sem kom við sögu.

Á þriðjudagsmorgun var kóræfingum og höfðum ég og Hildigunnur lofað að sjá um morgunmat fyrir þá æfingu. Á kínaskóm með páskaliljur í hendi, skunduðum við kl. 9.00 um morgun frá Fjölnisvegi niður í bakaríið í Suðurveri. Keypt voru 60 rúnstykki, 5 snúðar og 3 vínarbrauðslengjur. Því næst var haldið til kaupmannsins sem var í þann mund að opna. Þar festum við kaup á mjólk, appelsínusafa, pestói, gúrkum, tómötum, osti og smjöri. Síðan héldum við upp í skóla og hófumst handa við að leggja hvítan dúk á borð, setja veðurbörðu páskaliljurnar í vasa, skera hitt og þetta og raða snyrtilega á borð. Ég bjó til fallegt, en ætt, listaverk úr tómötunum og gúrkunum. Er talið að allir hafi haldið sáttir og saddir á braut og þykir mér hin mesta vitleysa ef einhver og einhver annar sem bjuggu til eiginkonulistann telja Hildigunni þá einustu í kórnum sem gerir góðan mat. Ekki að því hafi verið haldið fram einhver tímann, bara að fyrirbyggja misskilning. Nóg af því.
Eftir kóræfingu fórum ég of Yngvi að versla í matinn. Við keyptum sumt ódýrt og gott, og sumt mjög dýrt og gott. Til þess að allir skilji söguna til fulls er réttast að útskýra eitt áður. Veitingarhús geta fengið hinar svokölluðu Michelin stjörnur. Gefnar eru þrjár í það mesta. Yngvi er að vinna á Hereford og þar vinnur maður að nafni Pieter frá Belgíu. Hann kemur frá tveggja stjörnu Michelin veitingarhúsi í Belgíu. Það þýðir þá að veitingarhúsið telst "excellent cooking, worth a detour". Á mánudag hittum við hann á kaffihúsi til þess að spjalli um daginn og veginn yfir Latte og bjór. Áætlað hafði verið að halda Rokkfélagsmat í vikunni og vorum við í miðri ræðu að lofsama Rokkfélagið þegar Pieter segir "I am free tomorrow night. Would you like me to cook for you?" Á þriðjudagskvöldið vorum við rokkfélagar prúðbúin heima hjá Yngva, ég lagið á borðið, 4 gafflar, 4 hnífar, ein desertskeið, einn desertgaffall, vínglas og vatnsglas. Anna Pála straujaði dúk og skyrtu og í eldhúsinu stóðu tveir kokkar, annar lærður og tveggja stjörnu, hinn góður, og skáru grænmeti og annað. Að sjálfsögðu var skálað í kampavín á undan matnum. Til þess að allir geti skilið hversu yndislegur þessi matur var þá tel ég upp matseðilinn hér.
-Menu-
Réttur eitt
Grillaðar kjúklingabringur og ristaður humar með epla- og avókadósalati, káli með dressingu og kumquat rjómamauki
Réttur tvö
Ferskt spagettí steikt með rósarkáli, valhnetum og sveppum
Réttur þrjú
Ögnbakaður og grillaður ferskur túnfiskur með piparrjóma og fersku grænmeti með limesafa
Réttur fjögur
Marineraðar nektarínur (úr einhverju sem ég vissi aldrei hvað var), grillað brauð með camembert, kryddi og hunangsgljáðum ferskjum fíkjum.
Réttur fimm
Ferskur ananas í sósu úr skyri, rjóma, mascarpone og earl grey tei með ís og súkkulaði sósu
Rauðvín kvöldsins
Baron Philippe Merlot
--------------

Það hlýtur því hver að skilja að það voru ansi þreyttir rokkfélagar og sem settust afvelta og mjög saddir á sófann. Kokkurinn var hinsvegar í fullu fjöri og vildi fara út að dansa. Kaffið gerði ekki mikið gagn og ég og Anna Pála ákváðum að sofa í rúminu hans Yngva. Hann var svo þreyttur að sófinn varð hans náttstaður. Morguninn eftir þurftu Anna Pála og Andri að vakna kl. 8.00 til þess að fara í skoðunarferð um Bláskógarbyggð. Það er önnur löng saga en ég hófst handa við að taka til. Kl. 11.00 vakti ég Yngvi og heimtaði að hann myndi keyra mig heim því að nú væri húsið orðið svo hreint. Þess gerðist ekki þörf því móðir mín, hin yndislega, hringdi og bauðst til þess að sækja mig. Hún vildi endilega bjóða mér í húðmeðferð á snyrtistofu í Smáralind, ég berháttaði í bílnum og burstaði tennurnar. Svo að á miðvikudagshádegi lagði ég mig á meðan einhver kona fór silkimjúkum olíuhöndum og andlit mitt og hendur.
Í kvöld er svo kórpartý á sama stað og Rokkfélagsmaturinn var. Ískápurinn minn er fullur að freyðivíni og jarðaberjum fyrir stúlkurnar í kórnum. Gæti lífið verið ljúfara?

0 ummæli: