Af gælunöfnum
Margir hafa haft orð á því, fyrir framan bak og aftan, hvað sé eigilega málið með þetta nafn, Maísól. Mér finnst þó skemmtilegt þegar fólk spyr í hæðnistóni hvort að við vinkonurnar séum að reyna að taka upp listamannsnöfn og vera öðruvísi með því að kalla hvor aðra Kakó, Maísól, Lólu eða Clooney. Svo er þó ekki. Mér er samt slétt sama hvað fólki finnst enda þykir mér óskaplega vænt um nafnið og þegar fólk kallar mig Maísól. Og afhverju ég er kölluð Maísól er löng saga en upphaflega átti ég að heita Maísól. Svo í stað þess að gleyma nafninu alveg hefur þetta verið sparinafn sem mamma og pabbi hafa kallað mig.
Í gegnum tíðina hef ég verið kölluð eitt og annað. Þó oftast bara Ragnheiður, enda liggur blátt bann við því að kalla mig Röggu. Það er sökum móður minnar, en hún vildi aldrei nokkur tíman að ég yrði kölluð Ragga og predikaði svo heitt yfir mér í barnæsku, að það er skorið í stein í hausnum á mér. Ég sé rautt þegar fólk slysast til þess að kalla mig Röggu.
Frá 9 ára aldri og fram að jólum á fyrsta árinu mínu í MH var ég stundum kölluð Adda eða Adda Padda. Sumarið þegar ég var 9 ára var ég í sumarbúðum á Úlfljótsvatni og einn leiðbeinandinn byrjaði að kalla mig Öddu, því hvert sem ég fór fylgdi mér ein Öddubók. Jafnvel þegar við fórum í heilsdagsgöngu og vatnasafarí. Tveimur árum síðar fór ég í sumarbúðir í Finnlandi (já, ég var nördabarn sem fór oft í sumarbúðir). Þar uppgötaði ég að enginn í heiminum gæti sagt Ragnheiður væri hann ekki Íslendingur. Og þarna stóð ég, í miðjum nafnahring með u.þ.b. 70 börn, starandi á mig í dauðaþögn og þurfti á öfráum sekúndum að finna mér gælunafn. Það eina sem mér datt í hug var Adda. Ekki man ég tilurð þess að skyndilega voru flest allir farnir að kalla mig Öddu. En líkt og Öddunafnið festist skyndilega við mig, skipti ég á einni nóttu um skoðun. Væntanlega hefur hlaupið í mig gelgja en engu að síður daginn mætti ég í skólann einn morguninn og var þá hætt að vera Adda og tók því mjög illa ef einhver, sem ekki vissi af þessari skyndilegu nafnabreytingum, kallaði mig í sakleysi sínu Öddu. Ég heiti Ragnheiður og þess vegna átti bara að kalla mig Ragnheiði. Öddunafnið var þó ekki með öllu horfið, en í Brasilíu var ég alltaf kölluð Ada (og Ada Tyler, þyrfti ég að heita fullu nafni. Þá var ég oftast að þyjkast vera systir Liv Tyler.. sem gekk alltaf).
Í frumsýningarpartýi LFMH 2002 bættist Ragga Plögg svo við. Ég og Skúli, sem var bassaleikari í hljómsveitinni, vorum að sækja okkur mjöð í poka undir stiga og Skúli sagði "Já, þú ert þessi Ragga Plögg". Svo lék hann kló og rafmagnstengi með puttunum. Og síðan var ég kölluð Ragga Plögg (Það var leyfilegt að kalla mig Röggu Plögg því að þá stóð Röggu nafnið ekki eitt. Og það semi-stuðlaði svo skemmtilega). Þá var ég líka "the woman with the connections" svo að það hæfði mér s.s. vel.
Í vinnunni er ég stundum kölluð Rannsý eða Rannsína Rúsína. Ég kann því þó engin skil en held að Lalli hafi töfrað það fram í sumar. Unglingarnir vita þó betur en svo að kalla mig Röggu fyrir framan mig eða móður mína. Og þar sem unglingar eru svo gjarnir á gælunöfn (bara því að þeir eru svo latir og nenna ekki að segja allt nafnið) þá þykir mér Rannsý skárra en Ragga.
Eftir að ég flutti til Kóngsins hef ég verið kölluð Maísól að staðaldri af mörgum mætum. Það hefði væntanlega verið rökréttast frá upphafi að kalla mig Maísól en ekki Öddu, Röggu Plögg eða Rannsý, því frá því ég man eftir mér var ég alltaf bitur yfir því að mamma og pabbi hafi hætt við á síðustu stundu að skíra mig Maísól. Ég hef líka alltaf ætlað að taka Maísól upp sem millinafn, en líkt og fleirum gengur mér eitthvað illa að eiga í samskiptum við þessa blessuðu tölvu Mannanafnanefndar. En sama hvað Mannanafnanefnd, vegabréfið mitt eða einhver annar segir, þá er ég Maísól, þó svo að ég sé líka Ragnheiður. Og Adda og Ragga Plögg í fortíðinni. Og Rannsína Rúsína á tíðum. Skál fyrir því.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
0 ummæli:
Skrifa ummæli