mánudagur, desember 10, 2007

Um síðustu jól missti ég mig í jólaskapinu. Það skrifast væntanlega á Lólu, því hún er jólabarn jólanna (það er eitthvað óviðeigandi við að segja jólabarn dauðans). Um miðjan maí er venjulega farið að búa til piparkökudeig og setja í frysta heima hjá henni og í júní eru jólaseríurnar yfirfarnar. Mamma mín og pabbi skreyta hins vegar ekki fyrr en á Þorlák og baka eina sort sem gæti jafnvel verið bökuð úr tilbúnu degi frá bakaríinu, bara svona til að, þú veist, vera memm. Mér þótti þetta kerfi fínt. En eftir síðustu jól er ég ekki frá því að ég hafi smitast af jólaandanum og þess vegna ligg ég andvaka á næturnar yfir fáránlegustu hlutum. Ég get t.d. ekki hugsað mér að halda jól nema að við vinkonurnar séum búnar að baka klámpiparkökur með hvítum glassúr (já, ég vil ekki halda hátíðleg jól með gleði of kærleik í hjarta fyrr en ég er búin að baka mikið af typpa- og brjóstakökum - í anda jólanna). Hvar á ég að hengja upp Tuborg-jólaseríuna mína (sem er mjög jólaleg og sæt, þó hún sé frá ölframleiðanda)? Einhver fáránlega góð og solid hugmynd að grínjólakortum, sem toppa jólakort síðustu tveggja ára, virðist ekki ætla að fæðast. Og síðast en ekki síst, hvernig jólapappír á ég að pakka gjöfunum inní?

Hmm. Núna þegar ég les yfir þennan pistil þá sé ég að ég hef e.t.v. misskilið jólaandann örlítið. Kannski að ég baki bara piparkökukalla og sendi engin jólakort..

0 ummæli: