laugardagur, desember 22, 2007

Jólafílingur

Einhver undarleg, óútskýranleg heift hefur flögrað um í maganum á mér undanfarna daga og skotið upp kollinum öðru hverju. Það grípur mig löngun að segja "Fokkaðu þér" við einhverja bláókunnunga konu á förnum vegi, skrifa "Skíttu í píkuna á þér aumingi" á bloggið mitt (sem ég er jú búin að núna) eða jafnvel stórum stöfum á einhvern vegg og skyrpa á bíl. Af því bara. Kannski er þetta einhver jólaheift. Allavega er nokkuð víst að þetta er ekki jólaandinn. Allavega ætla ég rétt að vona að svo sé ekki. Og ég hef ekki grænan né rauðan jólagrun um hvaðan þessi heift er uppsprottin. Kannski eru einhverjar niðurbældar minningar um endalausar mandarínur frá jólasveininum eða kartöfluna sem ég fékk þegar ég var 3 ára að gerjast án þess að ég geri mér grein fyrir því. Heftin er s.s. ágæt því sjálfri finnst mér þetta afskaplega fyndið og skelli oftast uppúr þegar það grípur mig skyndilega löngun til að sparka í hurð úti á götu. Tourett?

Já, þessi blessuðu jól, sem allir tryllast yfir því það er ekki búið að þvo sokkana sem engin hefur notað síðan síðustu jól og þrífa beðin. Hjá okkur fjölskyldunni er jólandirbúningur enginn. Það verða engin jólakort frá mér í ár, jólapakkarnir eru sparslaðir inn og sprautulakkaðir með jólamynstri og svo er rafmagnsvír vafið utan um, til skreytinga. Jólaskrautið er hvít sparslryk og rauðar lakkslettur hér og þar, þó aðallega á mér. Stórt vinnuljós táknar Betlehem stjörnuna og jólatréið er búið að endurvinna í pappa og vefja utan um hitt og þetta frá Ikea. Og pabbi er að breytast í jólasvein því að við höfum ekki tíma til að fara í bað og pabbi því ekki búin að raka sig í marga daga. Hvorugt okkar veit hvaða viku- né mánaðardagur er og hvort að Jesú eigi afmæli í dag eða eftir viku. Þver öfugt við þessi jól, þegar ég vældi eins og lítið barn vegna skorts á jólaanda móður minnar, er mér slétt sama í ár. Mín vegna mætti hún skrifa "fokkiði ykkur" undir jólakveðjuna á jólakortunum. Engin jól hafa verið jafn mikil fjölskyldujól og þessi í ár. Ég held að þau stefni jafnvel á topp 3 listann.

0 ummæli: