mánudagur, september 10, 2007

Af tímaeyðslu, mikilvægri og ómikilvægri

Ég eyði tíma á kóræfingum. Það er gott því á þriðjudaginn förum við til Kína. Klósettpappír? Einhver? Matreiðslubók? Dagatal?

Ég eyði tíma í að innrétta Leif í huganum og nú styttist í að við förum að leika (sem, fyrir ykkur allmörgu sem ekki vitið, verður setning vetrarins "Að leika við Leif"). Þar af leiðandi eyði ég líka tíma í að lesa mér til um hvernig á að ná veggfóðri af veggjum, gólfidúki af gólfi, eldhúsinnréttingu úr eldhúsi, rífa niður veggi og annað í þeim dúr.

Ég eyði tíma í Góða Hirðinum, gólfefnabúðum og að skoða rúm. Annað hvort það eða Leifur verður ansi illa dressaður í vetur.

Ég eyði tíma í röðinni á Kaffibarnum sem er væntanlega það heimskulegasta sem hægt er að eyða tíma í. Hnuss!

Ég eyði tíma í að grína í elskulegum unglingunum, dusta af billiardhæfileikunum sem eru óðum að snúa til mín aftur, suða um að einhver leiki við mig í SingStar, vinna Twister, taka til, búa til auglýsingar, ganga í bekki, kenna á græjur og annað sem fylgir vinnunni minni.

Ég eyði tíma í að segja "Sjálfsagt!" aftur og aftur á Humarhúsinu.

Ég eyði tíma í að ná í lög í hinum mikla undraheimi veraldarvefsins. Svo hjóla ég um og hlusta á lögin og syng eða dansa með. Stundum hlusta ég líka á gríntónlist eins og Cosmonaut af Russendisko og hlæ mjög mikið.

Ég eyði tíma í að lesa Harry Potter með hnút í maganum og dreyma aftur og aftur að einhver segi mér hvernig bókin endar. Og nú ætla ég einmitt að fara að eyða tíma með Harry Potter og tei.

0 ummæli: