Og þá rís ég uppúr ládeyðu!
Sökum anna undanfarið hefur blogg verið í undanhaldi. Ég hef verið að sinna listinni, hugsað um elskulega köttinn minn, unnið og unnið, tekið ákvarðanir um framtíðina og því fylgjandi staðið í hinum ýmsu reddingum því ég hef jú ákveðið að vera á landi ísa, kulda og óeðlilegra langra biðraða á komandi ári. Skiljanlega er margt sem ég þarf að gera.
Í fyrsta lagi á ég hjól og örlitla búslóð í Kóngsins sem þarf að huga að (hjólið er á leiðinni heim, búslóðin er á pásu). Í öðru lagi þarf ég að finna mér samastað, vinnu og vini á landi ísa og kulda (ok, kannski ekki vini, það hljómar samt svo stórvægilegt). Í þriðja lagi hefur öll fjölskylda mín haldið til Kóngsins í heimsókn svo ég er ein að hugsa um lífið og tilveruna. Þau misskildu þetta eitthvað og héldu að ég væri ennþá úti. Eða kannski finnst þeim ég bara svona hryllilega leiðinleg..? Í fjórða lagi hef ég staðið í eilífum e-mail skrifum sökum þess að ég sé ekki að snúa aftur til Kóngsins. Ég hélt að ég hefði ekki myndað svo strekar rætur í Kóngsins en annað hefur komið á daginn. Fyrir utan auðvitað að láta Möggu Drollu vita að vikulegum miðvikudags-ölfundum sé aflýst þar til að ári liðnu hef ég þurft að skrifa hinum og þessum til að láta þá vita að ég muni ekki koma til að leika (þá eins og í Dimmalimm, ekki í leikhúsi), vinna, syngja, spila, leika (þá eins og í leikhúsi) o.s.frv.
En hvað sem því líður. Ég ætla mér að eiga stórkostlegt ár. Og þér, kæri lesandi, er boðið. En nú ætla ég að fá bjór og spila tónlist. Þér er líka boðið. Og þú mátt jafnvel bjóða mér uppá bjór!
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
0 ummæli:
Skrifa ummæli