sunnudagur, maí 07, 2006

Vorboðinn ljúfi

Ég verð alltaf jafn hissa hvað sólin og birtan gera lítil kalin hjörtu Íslendinga (hver finnur tilvitnun í Valgeir Guðjóns? Æ nei djók, það var kramið hjarta) glöð og heit og rjóð. Ég er ein af þessum Íslendingum. Þegar dagarnir eru dimmastir og rokið hvað hvassast, þá finnst mér allt alveg glatað og leiðinlegt og langar helst að strjúka, og einhvern vegin virðist það alltaf vera Brasilía sem er fyrirheitna landið. En svo þegar vorið kemur þá verð ég svo óskaplega glöð, finnst litla landið mitt alveg frábært og átta mig á því hvað ég á undursamlega vini.

Þetta vænmisröfl er einmitt inngangurinn að því hvað lífið er frábært. Þó að ég hafi rotað sjálfan mig á síður en svo penan hátt á fimmtudaginn þarsíðasta, þá var síðasta helgi hreint frábær (mikið af síð- í þessari setningu). Björg og Binni buðu mér í mangókjúkling og beljuhvítvín, Tobbi kom og við spiluðu nýjar óbarnvænarútgáfur af Hæ Gosi! og Lygi. Liðveislan í Stigahlíðinni hélt stórfenglega sumarhátíð með grilli og tilheyrandi daginn eftir og Binni reyndi að feta í fótspor mín og rota sjálfan sig á svölunum (bara svona að taka það fram, þá tókst honum það ekki). Ég fór í Hagkaup og keypti gourmet. Svo var raðað í Bördí af mikilli list og keyrt heim. Það hefur væntanlega verið ansi kostugleg sjón því að ég rásaði ansi mikið með tvo innkaupapoka sitthvorumegin á stýrinu, sem voru í þokkabót misþungir svo að vespan hallaði á aðra hliðina. Einnig var ég í pilsi sem stóð uppí vindinn, í hvítum loðnum lúffum og bara frekar töff. Um kvöldið var svo mikill gleðskapur þar sem var drukkið, etið og hlegið (eins og fram kemur í sunnudagsfærslunni hér að neðan). Hersinginn hélt svo öll á KB þar sem dönsk hjólaljós og hvít melluderhúfa héldu uppi fjörinu. Morguninn eftir var öllum sem vildu boðið í brunch og kool-aid og við tvíburarnir úr dalnum héldum svo seint og síðar meir, eftir að hafa rætt heimsmálin, á Kjúklingastaðinn í Suðurveri, þar sem matarboði kvöldsins áður lauk formlega.
Mamma og pabbi snéru svo heim frá London og ég var eins og lítið barn á jólunum með nýjan síma, iTrip og heyrnatól. Vikan hefur verið frábær, ég er orðin yfirkona sem er undarlegt. Þessi helgi hefur verið nýtt til fullnustu. Á föstudaginn fór ég í Bláa Lónið til að passa 13 ára börn, því næst í billiard og eldaði pizzu (og náði í leið að sinna uppeldi barnanna). Ég er búin að baða mig fyrir árið og er einmitt á leið í sund í þessum skrifuðu orðum. Enn fremur eru tveir stórir hlutir á listanum Stórfenglegt leyniplan mitt til þess að sigra heiminn u.þ.b. að fá tékk í kassann.

Já já, lífið er bara ekkert svo slæmt á vorin. Það vantar kannski bara kirsuberjatré í blóma.

0 ummæli: